08.02.1951
Efri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

81. mál, ríkisreikningurinn 1947

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. frsm. sagði fyrir hönd n., að hann vildi fá að vita, hvað væri gert út af þeim atriðum, sem yfirskoðunarmenn hefðu sent til athugunar í sambandi við landsreikninginn 1947. Það má segja, að það sé vanræksla af mér að búa mig ekki undir að svara þessu, vegna þess að þetta stendur í nál. og nokkur tími er liðinn síðan það kom fram, en ég hef ekki búið mig undir að svara þessu lið fyrir lið. Mér finnst ekkert athugavert, þó um þetta sé spurt, en mér finnst sú skylda hvíla fyrst og fremst á yfirskoðunarmönnum að gera sér grein fyrir því næsta ár á eftir, hvað gert hafi verið út af aths. næsta ár á undan; mér finnst það þeirra skylda árið eftir, þegar þeir fara í gegnum reikninga fyrir það ár, að líta á aths. frá árinu áður og sjá, hvað hefur verið gert með þær. Svo ættu þeir að láta koma fram aths. árið eftir, ef þeim þætti eitthvað athugavert.

Hv. frsm. gat um ýmsar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið almennt, þó ekki í sambandi við þessar aths. Ég skal fúslega játa, að ég hef ekki rannsakað nákvæmlega reikninginn fyrir árið 1947, ég hafði gert ráð fyrir, að fyrirrennari minn í þessu starfi mundi hafa gert það, því aths. hafa væntanlega verið komnar á þeim tíma, sem hann hafði þetta með höndum, því að hlutaðeigandi ráðherrar eiga að gæta þess, að íhugað sé um þessar aths. og hvað hægt sé að gera til þess að koma á móti þeim. Ég ætla samt að gefa nokkrar upplýsingar, og verður þá að bíða til 3. umr. að minnast á hitt, sem ekki er hægt eftir eðli málsins að svara án þess að kíkja í einhver plögg. Fyrst er það þá um eftirstöðvarnar. Á hverju ári er aths. um eftirstöðvarnar, og það er ekkert einkennilegt, því að það er ómögulegt annað en það verði eftirstöðvar. Það er aldrei hægt að vera búið að innheimta allan tekjuskattinn og eignarskattinn 1. janúar, og söluskattinn, og síðan hann bættist við, hafa þessar eftirstöðvar verið mjög háar um hver áramót, og endurskoðendurnir telja það skyldu sína að skora á ríkisstj. að reyna að lækka þær. Það, sem hefur verið gert í þessu máli síðan ég kom í ráðuneytið, er fyrst og fremst að láta hafa samband við alla innheimtumenn út af söluskattinum á miðju sumri í sumar, um það, hvernig innheimta hans stæði.

Þetta stóð þá þannig, að erfitt var um innheimtu skattsins, og lét ég þá hafa samband við hvern sýslumann og bæjarfógeta, þar sem sérstök ástæða virtist til, og eggja lögeggjan um innheimtu skattsins. Af þessu varð verulegur árangur, þannig að innheimtan síðari hluta ársins varð betri en áður. Það sýndi sig í sambandi við þetta, að ekki var hægt að innheimta skattinn með óbreyttu fyrirkomulagi. Þess vegna beitti ráðuneytið sér fyrir lagabreyt., til þess að reyna að tryggja innheimtuna, sem kemur til framkvæmda á þessu ári, og er von til þess, að innheimtan gangi mun betur eftir það. Þetta verður fært í svipað horf eins og er í nágrannalöndunum, og vona ég því, að þær endurbætur á innheimtu söluskattsins gefi góða raun.

Varðandi tekjuskattinn er það að segja, að þar hefur engin breyt. orðið önnur en sú, að setja aftur í l. dráttarvextina, sem hafa fallið niður um tíma, en sú ráðstöfun fann hins vegar ekki náð fyrir augum hv. þm. Barð., því að hann var óánægður með þessa dráttarvexti. Svo hafa innheimtumenn verið hvattir til þess að gera gangskör að innheimtunni.

Um 2. aths., sem er kostnaður við póstþjónustuna, er það að segja, að núverandi ráðh. póst- og símamála hefur það verk með höndum, síðan hann tók við þeim málum, að athuga með sínum mönnum, hvort hægt er að gera ráðstafanir til þess að draga úr kostnaði við þessa starfrækslu, og hv. þm., sem er form. fjvn., er það jafnkunnugt og mér, hvað gert hefur verið í þeim málum. Það hafa ekki ennþá verið gerðar verulegar breyt. á póstþjónustunni til sparnaðar eða lækkunar á kostnaði, og ég efast ekki um, að það er fyrir það, að þessi hæstv. ráðh. hefur ekki séð, að það væri mögulegt, a.m.k. ekki nema með meiri undirbúningi, að koma slíku við.

Um jarðboranir ríkisins er það að segja, að málefni jarðborananna hafa verið tekin til gagngerðrar endurskoðunar, og ríkja þar aðrir starfshættir en var, þegar þessar miklu útistandandi skuldir söfnuðust, eftir því sem fjmrn. hefur fengið upplýsingar um hjá þeim, sem þau mál hafa með höndum. Þeir segja, að gerðar hafi verið ráðstafanir til þess, að þetta sé tryggt miklu betur en áður hefur verið, og teija ekki verulega hættu á því, að ekki fáist inn greiðslur fyrir borana, þannig að á því verða gerðar verulegar endurbætur.

Þá er 5. liðurinn, að ekki sé svarað ágreiningsatriði milli endurskoðenda og ráðuneytisins um það, hvort raforkumálasjóður fái 11/2 millj. Ég get látið athuga það mál fyrir 3. umr.

Um útvarpið, sem er 7. liður, er alveg það sama að segja og um póstþjónustuna, að ráðh. þeirra mála hefur þann rekstur til íhugunar og hvort hægt er að gera eitthvað til sparnaðar, og það er engum kunnara en form. fjvn., hvernig unnið er að þeim málum og leitazt við að finna möguleika til þess að draga saman og spara, en ég þori ekki að fullyrða, að ennþá séu neinar verulegar ráðstafanir gerðar til þess í þessari stofnun. En mér er kunnugt um, að hæstv. menntmrh. hefur þau mál til meðferðar, hvort hægt sé að koma við sparnaði, og mér er óhætt að segja, að því er gaumur gefinn af hans hendi.

8.–11. liðurinn eru aths. um landssmiðjuna. Þar hafa verið gerðar gagngerðar breyt., eins og hv. þm. minntist á, og af því er kominn sá árangur, að landssmiðjan er nú rekin með hagnaði og allur hennar efnahagur er betri en var.

Varðandi 12. lið þá finnst hv. frsm., að það megi lesa úr þeirri aths., að rangt hafi verið að gefa Svifflugfélaginu þessa gömlu bifreið. Mig minnir, að þetta hafi verið gert af þeirri ríkisstj. í heild sem sat 1947, að sýna Svifflugfélaginu þessa viðurkenningu. Þetta er félag áhugamanna, sem leggja mikið að sér til þess að stunda þessa íþrótt, og hefur sára lítinn stuðning af því opinbera. Því ákvað ríkisstj. á sínum tíma að sýna þeim viðurkenningu með því að gefa þeim gamlan bílskrjóð, sem Áfengisverzlun ríkisins átti. En hv. þm. virtist álíta, af því að endurskoðendunum finnst þetta ekki beinlínis heimilað, að það ætti að taka bílinn af Svifflugfélaginu. Það getur varla verið, að hann meini þetta alvarlega, því að þetta er ekki stórvægileg ráðstöfun innan um allt annað, sem gert er af hendi ríkisstj., þó að þessu félagi væri sýnd þessi viðurkenning, að gefa því þennan bílskrjóð.

18. liðurinn hygg ég, að sé einhver bókfærsluatriði milli fiskimálasjóðs og ríkisstj., og skal ég athuga það fyrir 3. umr., ef hv. þm. leggur áherzlu á þann lið, og einnig greiðsluna til raforkumálasjóðs.