12.02.1951
Neðri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

177. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1951

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það er sýnilegt, að þessu yfirstandandi þingi verður ekki lokið áður en hinn lögákveðni samkomudagur reglulegs Alþ. fyrir 1954 rennur upp, og af þeim ástæðum er þetta frv. hér borið fram. Er það tillaga ríkisstj., að reglulegt Alþ. á þessu yfirstandandi ári skuli kvatt saman eigi síðar en fyrsta dag októbermánaðar, ef hæstv. forseti Íslands hefur eigi tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu.

Við vitum það öll, sem setu eigum á Alþ., að þessi venja er orðin nokkuð rótgróin að breyta þessum lögákveðna samkomudegi Alþ., sem er 15. febr. Eru ýmis atriði, sem hafa valdið því, að sú venja hefur skapazt, og hefur sú venja eiginlega verið föst nú í kringum tíu ár a.m.k., að svo sé að farið. Að undanförnu hefur samkomudagurinn oft verið nokkru síðar en þetta á árinu, 40. eða 11. okt. Það er með það í huga, sem ríkisstj. leggur til, að samkomudagur Alþ. verði ekki síðar en 1. okt., að það megi verða meiri möguleikar til þess að ljúka störfum Alþ. fyrir næstu áramót á reglulegu Alþ. fyrir þetta ár heldur en annars væri. Það heppnaðist á síðasta ári að ljúka afgreiðslu fjárlaga fyrir áramót, þó að Alþ. kæmi ekki saman fyrr en 10. okt. En það var mjög erfitt að ljúka því. Og það er víst, að ef ekki er nema svo skammur tími til stefnu, getur alltaf orkað tvímælis, hvort hægt er að ljúka fjárlagaafgreiðslu og Alþ. þá einnig fyrir áramótin. Ég lít því svo á, að það sé heppilegra, að hinn lögákveðni dagur, sem Alþ. má síðast koma saman á þessu ári, verði ekki ákveðinn síðar en 1. okt.

Ég skal taka fram, að þessi háttur, sem nú hefur orðið að venju, að breyta þannig samkomudegi Alþ. árlega með lögum, hann er að mínum dómi lítt heppilegur. Ég álít, að Alþ. hljóti að standa gagnvart því mjög fljótlega að taka til athugunar, hvort ekki eigi að gera ákvörðun um eitthvert frambúðarskipulag á þessu máli, þannig að ekki þurfi að breyta þessu árlega. En það verður ekki gert nema með nokkrum undirbúningi og með því, að hægt sé að fá nokkurn veginn samkomulag meginþorra Alþ. um það, á hvern hátt slík breyt. ætti að verða, hvort e.t.v. ætti að breyta fjárhagsárinu, þannig að það væri ekki bundið við almanaksárið, og ákveða svo, hvenær Alþ. kæmi saman, í samræmi við það, eða hvort ætti að fara aðrar leiðir. Þó að ég nefni þetta hér, ætla ég ekki frekar að fara út í bollaleggingar um það að þessu sinni.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er svo einfalt, að ég mun ekki gera að till. minni, að því verði vísað til n., enda er tími skammur, þangað til málið þarf að vera afgr. frá hæstv. Alþ. Ég leyfi mér því að leggja aðeins til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr., og vil að öðru leyti leyfa mér að beina því til hæstv. forseta, að hann flýti göngu þess gegnum þessa hv. d. eins og hann frekast sér sér fært.