13.02.1951
Efri deild: 69. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

177. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1951

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég gleðst yfir því að heyra þau orð frá hæstv. dómsmrh., að þetta þing sé senn á enda og verði því miklu styttra en síðasta þing. En ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, var sú, að það er orðin lenzka hér að halda haustþing, og er því borið við, að það sé nauðsynlegt að halda þing seint á fjárhagsárinu, því að fyrr sé ekki hægt að afgreiða fjárl. en seint á fjárhagsárinu. Einnig hefur það seinkað samkomudegi Alþ. á haustin, að margir þm. utan af landi, sem landbúnað stunda, eiga erfitt með að koma til þings fyrr en sláturtíð er um garð gengin og aðrar þær annir, sem bændur þurfa að ljúka undir veturinn. En nú hefur hv. Nd. sætt sig við, að Alþ. komi saman 1. okt., og tel ég að því mikla bót frá því, sem verið hefur. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að halda haustþing, og vil því láta breyta fjárhagsárinu og láta það enda um mánaðamótin júní–júlí og semja þá annaðhvort fjári. fyrir hálft árið, til 1. júlí, eða einhvern tíma á þingi til 11/2 árs og breyta fjárhagsárinu í samræmi við það. Ég vil, að þinghald fari alltaf fram eftir áramótin, hefjist helzt fyrri hluta janúar, því að það er áreiðanlega bezti tíminn fyrir alla, og þá yrði þingi líka að ljúka seint á fjárhagsárinu. Þetta vil ég biðja hæstv. ríkisstj. að taka til alvarlegrar athugunar, því að af þessum haustþingum hefur leitt það, að þing hefur setið fram yfir áramót og við höfum verið fjárlagalaus með því móti. Ég er sannfærður um, að þetta er miklu betra fyrirkomulag en það, sem nú er, því að það er til skammar að halda þing ársins 1950, þegar komið er fram á árið 1951, þótt að vísu sé búið að afgreiða fjárl. og þetta þing sé að því leyti skárra en verið hefur undanfarin ár.

Ég leyfi mér að vænta, að hæstv. ríkisstj. taki þessa till. mína til athugunar.