13.12.1950
Efri deild: 36. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

144. mál, eignakönnun

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekkí leggja stein í götu þessa frv., en vil þó segja um það nokkur orð. Ég vil leyfa mér að benda á, að skattur sá, sem hér um ræðir, er ekkert hærri en venjulegur tekjuskattur, svo að í raun réttri á ríkissjóður hann allan, og þó er skattsvikurum stórlega ívilnað. Bæjar- og sveitarfélög eiga engan rétt á þessum skatti. Hins vegar áttu þau kröfu á því að leggja á undandráttinn, sem uppvís varð, og gerðu þau það mörg, en ekki þau, sem voru undirstungin af ríkisstj. um það, að þeim yrði greiddur helmingur skattsins. Sem meðlimur í ríkisskattanefnd hafði ég í höndum margar kærur og spurði þá þáv. hæstv. fjmrh., sem nú situr hér í hv. d., hvort nokkuð væri til í því, að menn ættu ekki að borga útsvör af undandregnum tekjum. Hæstv. fjmrh. þáv. svaraði þessu engu, en borgarstjóri taldi, að um þetta væru samningar við ríkisstj., og svo mikið er víst, að niðurjöfnunarnefnd lagði ekki á undandráttinn, meðan sveitarfélög austur í Árnessýslu og raunar víðast hvar gerðu það. Það er því búið að fremja ranglæti á þegnunum með því að láta suma borga af þessu, en suma ekki, vegna leyndar á þessum málum og baksamninga við þáv. ríkisstj. Ég vil því undirstrika það, að þótt þetta frv. verði að lögum, þá er þetta alger gjöf til sveitarfélaganna, sem ekki hafa notað rétt sinn til að leggja útsvör á undandregnar tekjur, og þá fyrst og fremst til Reykjavíkur. Það er því verið að ívilna skattsvikurum með þessu frv. og ekkert annað.