12.02.1951
Efri deild: 67. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

18. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Þegar litið er á 202. gr. frv. þessa, sem er listi yfir þau lög, sem falla eiga úr gildi við setningu þessara laga, er ekki að furða, þótt nauðsyn sé á nýrri löggjöf. Elzt þessara lagaboða mun vera frá 1683, en þau, sem nokkru skipta, eru yngri en frá 1841. Löggjöf þessara mála er því orðin úrelt á nútímamælikvarða og eðlilegt, að myndazt hafi réttarreglur í þessu efni. Þetta hefur mönnum verið ljóst í lengri tíma, en það var ekki fyrr en mig minnir 1930, að gerð var tilraun á Alþingi að koma nýrri skipan á mál þessi, en þá dagaði frv. uppi. — Árið 1947 skipaði dómsmrh. þá Einar Arnórsson, Gizur Bergsteinsson og Jónatan Hallvarðsson í nefnd til að semja frv., og má efalaust telja, að ekki hafi verið kostur á hæfari mönnum. Sömdu þeir svo ýtarlegt frv., og var það lagt fyrir Nd. Alþingis 1948, en dagaði þar uppi í nefnd. — Í þessu frv. er allt málið tekið til meðferðar frá rótum í samræmi við meðferð opinberra mála, er tíðkast hjá öðrum þjóðum, án þess að vera ofviða okkur. — Í þessu frv. var gert ráð fyrir, að sakadómurum í Reykjavík yrði fjölgað í allt að 5 og að sérstakur opinber ákærandi verði settur, og álitið var nauðsynlegt að setja sérstakan rannsóknarstjóra, sem sagt að aðskilja ákæruvald og dómsvald. Þetta frv. fékkst ekki samþ. í Nd., aðallega vegna kostnaðar, sem af þessum embættum mundi leiða. Því tók dómsmrh. málið aftur til meðferðar og lét taka út úr frv. þau ákvæði, sem tálmuðu því, að það næði fram að ganga, og var þá borið fram annað frv. um rannsóknarstjórann.

Frv. þannig breytt hefur nú fengið afgreiðslu í Nd. og síðan vandlega athugun hjá allshn. þessarar deildar. N. er sammála, þótt hún telji ekki breyt. á frv. til bóta frá því, sem áður var, um að leggja til, að það nái fram að ganga með örfáum breytingum, því með frv. er stigið stórkostlegt spor í rétta átt. — Frv. þetta er meira en 200 gr. og er því ómögulegt að taka hverja grein út af fyrir sig til umræðu í framsöguræðu, og ætla ég því að stikla á stærstu atriðunum.

Frv. var sent til umsagnar til héraðsdómarafélagsins og Lögmannafélags Íslands; — það eru þeir aðilar, sem helzt geta dæmt um þetta mál, og ætla ég að minnast á helztu greinarnar, sem ágreiningur er um.

Aðalákvæðin, sem Lögmannafélag Íslands leggur áherzlu á að fá breytt, eru í 4. og 15. gr., sem sé, að fulltrúar sakadómara fengju sérstaka löggildingu og væru algerlega sjálfstæðir. Rökin, sem færð eru fyrir þessu, eru þau, að sakadómarinn komist ekki sjálfur yfir að fylgjast með rannsókn allra þeirra mála, sem til hans koma, og eðlilegra sé, að sá, sem rannsakar málið og skrifar dóminn, beri fulla ábyrgð á því. Þetta er í samræmi við frv. eins og það var upprunalega. En þar sem skipun sakadómara er haldið eins og nú er og án löggildingar sérstakra fulltrúa, bendir n. á, að ekki kæmi til mála, að hann kvæði upp dóm, sem hann sjálfur væri óánægður með. En allshn. sá sér ekki fært að breyta þessu ákvæði.

Ákvæðið, sem var í 32. gr. frv., gerir ráð fyrir, að sakadómarinn fari með stjórn þeirra lögreglumanna, sem skipa rannsóknarlögregluna. Það var álitið til baga, að stjórn lögreglunnar væri tvískipt. Ég skal játa, að þetta er frá fræðilegu sjónarmiði dálítið óviðeigandi, enda er þá gert ráð fyrir, að sú deild væri þá undir höndum rannsóknarstjóra ríkisins. En eins og málum er nú hagað, virðist varla verða hjá þessu komizt, og gat n. ekki fallizt á þessar breyt.

Hinar breytingarnar, sem máli skipta, eru við 100. gr., út af eiðfestingunni í 12. kafla. Eins og 100. gr. ber með sér, er lagt til, að horfið verði frá því fyrirkomulagi að láta drengskaparheit ekki fara fram fyrr en eftir á. Það er reiknað með, að menn séu eiðfestir fyrir fram, og sagt með réttu, að það muni spara fyrirhöfn, og ýmsir halda, að vitnin segi betur frá. Hins vegar eru margir þeirrar skoðunar, að það sé fyrir það fyrsta ekki hagkvæmt né viðeigandi að eiðfesta menn í öllum málum. Ef til vill í flestum málum, sem það yrði viðhaft, er það óþarft. Það gæti þá kannske orðið álíka eiðsklásúla og nú tíðkast með skattaskýrslur.

Þetta er skoðun héraðsdómarafélagsins, og sama kom fram hjá lögmannafélaginu, og voru nm. þessu svona frekar meðmæltir. Það varð úr, eftir að hafa rætt um þetta við ýmsa aðila, sem telja verður, að hafi einna mesta reynslu í þessum efnum, að n. ákvað að bera fram brtt. við þessa gr., þar sem heimilað er að láta heitfestingu fara fram eftir á, og hljóðar brtt. svo, sem leyfi hæstv. forseta:

„Við 100. gr. Við greinina bætist ný málsgr., svo hljóðandi:

Dómari getur frestað heitfestingu þar til á síðara stigi málsmeðferðar, og auk þess getur hann látið heitfestingu niður falla, ef sönnunaratriði máls má telja vafalaus. Nú fer heitfesting fram eftir á samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar, og breytir dómari þá heitstaf til samræmis við það.“

Þetta er ákaflega mikið vandamál, en ég hygg, að með því að hafa þarna opna leið til þess fyrir dómara að skera úr, hvort hann telur heppilegra í einstökum tilfellum og með tilliti til einstakra vitna, að þá sé fundin nokkuð góð lausn á þessu máli.

Í 112. gr., síðustu málsgr., er nýmæli, sem hefur vakið talsverðan efa, og það er um að veita lögreglumönnum sektarvald í minni háttar brotum, svo sem í sambandi við umferðarlög og bifreiðalög. Þetta er nýmæli í því frv., sem nú hefur verið lagt fyrir, og var ekki í upphaflega frv. Ýmsir hafa dregið í efa, hvort lögreglumönnum yfirleitt sé trúandi fyrir þessu, og eins hitt, hvort það mundi ekki draga úr athygli þeirra við önnur störf. En þessari reglu hefur verið fylgt í ýmsum löndum, og sé ég ekki annað en að skaðlaust væri að reyna hana, og hefur því n. fallizt á að taka upp heimild fyrir dómsmrh. til að ákveða, hvort lögreglumönnum skuli heimilt að beita þessu sektarvaldi. Það er enginn vafi á því, ef þetta heppnaðist, að það mundi leiða til þess að koma í veg fyrir ýmis óþægindi, bæði þeirra, sem kynnu að brjóta umferðarlögin, og eins fyrir dómstólana, og vill n. því ekki leggja til, að þetta verði fellt niður úr frv.

Að lokum taldi n. rétt að gera breyt. í sambandi við áfrýjun mála. Eftir núgildandi lögum á dómfelldur alltaf rétt til að krefjast þess, að máli hans sé skotið til hæstaréttar. Þetta er náttúrlega dýrmætur réttur, en hefur talsvert mikinn kostnað í för með sér fyrir ríkið, og þetta er miklu víðtækari réttur hér en er, óhætt að segja í flestum, ef ekki öllum öðrum tilfellum. Þetta hefur verið mjög mikið misbrúkað, þar sem menn, sem dómfelldir hafa verið fyrir brot, hafa notað sér þetta ákvæði til þess eins að fá frest á refsingu. Það er auðvitað, að fyrir hæstarétt fer einmitt fjöldi mála, sem raunverulega ættu ekki fyrir þann rétt að fara, jafnmörg mál og hann hefur til meðferðar, þar sem mörg mál eru þannig vaxin, að enginn vafi getur leikið á um úrslit þeirra og þeim aðeins áfrýjað til þess að fresta úttöku refsingar. Í frv. eru settar ýmsar hömlur á rétt til áfrýjunar mála, þegar ekki leikur neinn vafi á um þau, en sé einhver vafi um það, hvort lagaboði hafi verið rétt beitt, eða hallað á sakborning, þá er dómsmrh. skyldugur að áfrýja samkv. 175. gr. l., en þegar þetta er ekki fyrir hendi, þá er samkv. upphaflega frv. dómsmrh. ekki gert að skyldu að áfrýja eftir kröfu sakbornings, nema dæmd refsing nemi 3 þús. kr. sekt fyrir fyrsta brot, 5 þús. kr. sekt fyrir ítrekað brot eða þá refsivist. — N. þótti fullmikil takmörkun gerð á þessu og áleit, að stökkið væri of stórt frá því, sem áður hafði verið framkvæmt. Hún leggur því til, að 2. mgr. 175. gr. verði breytt í það horf, að maður, sem er dæmdur fyrir fyrsta brot, hafi alltaf skilyrðislausan rétt til þess að krefjast áfrýjunar.

Það er sjálfsagt ýmislegt, sem ástæða væri til að fara nánar inn á. En ég sé ekki á þessu stigi málsins ástæðu til þess að taka fleira fram, og leyfi mér fyrir hönd n. að leggja til, að frv. verði samþ. með þessum breyt., sem ég hef nú tekið fram.