16.10.1950
Neðri deild: 3. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

2. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra, að von skuli vera á tillögum frá skilanefnd á næstunni. En mér þykir samt rétt að rifja upp, að það stendur hér alveg sérstaklega á miðað við það, sem annars staðar tíðkast. Eftir alþjóðalögum mega sjómenn setja skip föst til tryggingar greiðslum á kaupi sínu, og ég veit ekki til, að á þeim lögum hafi nokkurs staðar verið gerðar breytingar nema hér á Íslandi, og sú breyt. gildir aðeins um síldveiðiskipin og áhafnir þeirra. Þá geta þeir innheimt sitt kaup að alþjóðalögum. En þeir sjómenn, er stundað hafa síldveiðar undanfarin sumur, bera miklu minna úr býtum og verða fyrir misrétti, meira misrétti en áður en Alþingi fór að skipta sér af málum þeirra. Áður höfðu þeir möguleika til að ráða sínum launum, en með setningu þessara laga hefur Alþingi tekið þann rétt af sjómönnum. Og Alþingi getur ekki látið svo ganga ár eftir ár, að sjómenn séu verr staddir en allir aðrir. Áður fyrr töldu veðhafar sér skylt að sjá um, að sjómenn næðu rétti sínum, en með setningu þessara laga hefur Alþingi tekið þann möguleika frá sjómönnum.

Ég treysti því og veit, að hæstv. atvmrh. veit, að þetta ástand og misrétti má ekki haldast. Ég treysti því, að Alþingi greiði úr þessum vanda. Með setningu þessara laga hefur Alþingi bundið sér þær skyldur að sjá um, að sjómenn beri ekki skarðan hlut frá borði. Ég treysti því, að Alþingi leysi þær hömlur, sem þessir sjómenn einir sinnar stéttar verða að bera.