12.01.1951
Neðri deild: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

2. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það er auðséð, að það er sjávarútvegsmál, sem er hér til umr., því að það vantar marga þm., og enginn ráðh. er viðstaddur. Nú er það vanalega svo, þegar eitthvað það er á dagskrá, sem varðar sjávarútveginn, þá eru fáir áheyrendur á ræðumenn, sem áhuga hafa á umr.

Það er líka átakanlegt dæmi um hirðuleysi og vanrækslu hæstv. ríkisstj. í sjávarútvegsmálum, að það þurfi að grípa til stofnsjóðs síldveiðideildarinnar til þess að fá menn til að halda áfram síldveiðum. Það er þrifið til aflatryggingarsjóðs og menn með honum ginntir til að halda áfram vertíðinni. En aflatryggingarsjóður átti að vera frambúðarstofnun fyrir sjávarútveginn til þess að afstýra vandræðum vegna aflaleysis.

Í lögum aflatryggingarsjóðs, sem þessi bráðabirgðalög voru flutt um, var ákveðið, að stofnfé sjóðsins mætti ekki skerða. Lögin um aflatryggingarsjóð voru ekki nema rúmlega ársgömul, þegar hæstv. ríkisstjórn tók sér fyrir hendur að eyða meira en stofnfé hans. Í reglugerð, sem gefin var út um þetta efni, var svo ráð fyrir gert, að lögð væru til grundvallar 5 aflaleysisár. Og aflaleysið í sumar munar svo miklu, þó að talið væri, að reglugerðin miðaðist við 5 ár, að það mun vanta 4 millj. upp á, að síldveiðideildin geti staðið við skuldbindingar sínar skv. reglugerð, sem ekki var þó hærra risið á en að 5 aflaleysisár voru lögð til grundvallar.

Nú má segja, að mikil vandræði hafi verið á höndum í sumar, er síldveiðin brást í 6. sinn. Enda var þá gripið til þess örþrifaráðs að éta upp — og meira til — þá stofnun, sem átti að vera til frambúðarstyrktar sjávarútveginum. Nú er það svo, að þó að gripið væri til þessa ráðs, þá hefur ekki aflatryggingarsjóður nægt til að greiða 2/3 af þeim kröfum, sem óleystar voru. Allar till. hér á Alþingi í þá átt að leysa þessar kröfur hafa verið hundsaðar af stjórnarflokkunum, ýmist ekki verið ræddar, mælt á móti þeim eða vísað frá. Um þetta efni komu fram fleiri en ein till. við umr. fjárlaga, en þær hafa síðan legið í salti hjá hv. fjvn.

En allt kom fyrir ekki. Hæstv. ríkisstjórn lét sér sæma að svipta síldveiðisjómenn eina allra rétti til þess að innheimta kaup sitt með lögsókn, án þess að sjá svo um, að ríkið leysti út sjóveðin til bráðabirgða. Þetta er ömurlegasta meðferð, sem höfð hefur verið á nokkurri stétt, og bæði ríkisstj. og öllum, sem að henni stóðu, til skammar. Enda er það svo, að jafnvel þótt einhver samkomulagsleið fyndist milli ríkisstj. og bátaeigendanna, þá eru það þessar óleystu sjóveðskröfur, sem standa í veginum fyrir því, að allur þorrinn mundi ekki heldur fara á veiðar.

Ég lét í ljós í sumar við stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna, að ég teldi mjög varhugavert að taka aflatryggingarsjóð til þessara nota, sem ráð var fyrir gert í bráðabirgðalögunum. Þá var látið í veðri vaka, að ríkisstj. mundi sjá sjóðnum fyrir öðrum tekjum. Ég lét þá í ljós vantrú mína, sem og er nú komið á daginn, að var ekki ástæðulaust.

Það er vissulega mjög virðingarvert af 2 hv. þm. að bera fram á þskj. 445 till. um að afla sjóðnum aukinna tekna, en enn er óvíst, hverju fylgi þær eiga að fagna hér á Alþingi. En á meðan ekki er annað sýnt, þá verður að halda, að þær séu frekar fram bornar í góðri meiningu heldur en til að sýnast og til þess að bera blak af ríkisstj. fyrir aðgerðaleysi hennar í þessum málum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að tala hér öllu lengur yfir tómum bekkjum, enda hef ég sagt sumt af þessu hér áður, en það má segja um þetta mál, að aldrei verður góð vísa of oft kveðin. Og í því dæmalausa sinnuleysi, sem ríkir um útvegsmál, er sannarlega ekki vanþörf strangra áminninga. — Ég mundi lýsa yfir fylgi mínu við till. á þskj. 445, um leið og ég lýsi mig andvígan frv. í heild. En ég hafði ætlað mér að spyrja hv. flm. nokkurra spurninga út af till., en það er nú farið að þynnast hér um sjávarútvegsforsvara Sjálfstfl. Ég vildi mega leyfa mér að spyrja út af því, sem stendur í 3. tölul. á þessu þskj.: „Framlag ríkissjóðs á móti 1. og 2. lið.“ Er átt við, að það framlag sé til jafns? (PO: Samkv. lögum er það svo.) Já, ég vil lýsa fylgi mínu við þessa till., um leið og ég lýsi yfir andstöðu minni við frv. í heild. Og ég vona, að hv. flm. þessara till. beiti áhrifum sínum hér á þingi í þá átt, að þær nái fram að ganga.