26.02.1951
Sameinað þing: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1537 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

Vandamál bátaútvegsins

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða hér almennt þessar ráðstafanir ríkisstj., en ég hygg, að ríkisstj. hafi farið þá leið, sem verst er. Það er kunnugt, að fram hafa farið stöðugar umræður um lengri tíma milli útvegsmanna og ríkisstj., og árangurinn er nú sá, eins og fram hefur komið, að það er ekkert fast fiskverð til. Í einu stjórnarblaðanna hefur nýlega verið skýrt frá því, og gerist þetta mjög í nánd við kjördæmi hæstv. fjmrh., — sem sé í Hornafirði, — að þar hefur stöðvazt útflutningur á fiski. Ég veit ekki, hvort ríkisstj. hefur gert nokkrar ráðstafanir til þess, að fiskveiðarnar stöðvuðust ekki, en svona er ástandið víða orðið hér á landi, — bátarnir geta ekki haldið áfram að fiska, því að það er ekkert fast fiskverð til, þrátt fyrir allar ráðstafanir ríkisstj. — Frá sjónarmiði útvegsmanna og hlutarsjómanna eru þessar ráðstafanir lítils virði. Hraðfrystihúsin geta ekki lagt út fyrir fiskinum og keypt með því af hlutarsjómönnum, því að fjármagn þeirra er það lítið. Hér er því mesta hættan sú, að þessi fríðindi fari í brask og það verði stóreignamennirnir, sem njóti góðs af, en ekki sjómennirnir. Þetta mun verða þungur áfellisdómur fyrir ríkisstj., þegar fram í sækir.

Þá er einnig talað um það að leyfa innflutning vara fyrir 100 millj. kr. á fobverði og láta þær síðan hér á svartan markað. Og í bréfi ríkisstj. til LÍÚ er talað um, að á þessum vörum verði ekkert verðlagseftirlit. Og menn eru að tala hér um 50 millj, kr. skatt, sem lagður hafi verið á þjóðina og eigi að renna til útvegsmanna. En ég vil spyrja: hver á að takmarka þessa upphæð, þegar verðlagseftirlitið er ekkert? Og hver sér um það, að þetta fé fari til útvegsmanna? Afleiðingin er sú, að þessar ráðstafanir eða þau fríðindi, sem þær eiga að veita, ganga alls ekki til útvegsmanna né hlutarsjómanna. Þessar ráðstafanir miða því að því að gera þá fátæku fátækari og þá ríku ríkari. Ræði ég þá ekki frekar um þetta að sinni. En mig langar til að beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. atvmrh. — Hann komst svo að orði í ræðu sinni hér áðan, að aðstaða íslenzkra banka hefði batnað á s.l. hálfu ári. Við sitjum nú báðir í bankaráði og sjáum þar skýrslur mánaðarlega um gjaldeyriseign bankanna. Og það vakti furðu mína að heyra, að gjaldeyriseignir bankanna hefðu aukizt á s. l. hálfu ári. Ég tel, að þessar skýrslur sýni alls ekki batnandi hag. Og nú veit ég ekki betur en greiðslubandalag Evrópu hafi það sem skilyrði fyrir því, að ríkisstjórnir fái styrk, að gjaldeyrisaðstaða bankanna sé slæm. Ég hygg, að viðkomandi ríki þurfi að skulda verulegar upphæðir í öðrum löndum til þess að fá framlag frá greiðslubandalaginu. Mér finnst því þessi röksemdafærsla hæstv. ráðh. vera áþekk því, ef styrkþegi hjá Reykjavíkurbæ yki úttekt á ýmsum nauðsynjum og skuldaði þar með meira og segði síðan, að aðstaða sín hefði batnað. (Atvmrh.: Við ættum að skjóta hér á bankaráðsfundi á eftir.) Ég vil biðja hæstv. ráðh. að gefa skýringu á því, hvað hefur batnað. Hvernig má það svo vera, að við fáum aukið EOP-framlag, ef gjaldeyrisaðstaða okkar hefur batnað? Mér skilst, að svo geti eigi verið.