26.02.1951
Sameinað þing: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

Vandamál bátaútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Aðeins nokkrar fyrirspurnir. — Mér hefur skilizt, eins og nú hefur verið sagt og heyrzt áður, að í rauninni hafi ekki verið samið um neitt ákveðið fiskverð til bátaútvegsmanna, og ég tók eftir, að hæstvirtur atvmrh. segði, að hann gæti staðhæft, að ríkisstj. hefði ekki samið um þetta. En þótt ríkisstj. hafi fengið útvegsmenn til að gefa yfirlýsingu um það, að þeir skori á bátaútvegsmenn, að þeir miði kaupgreiðslur sínar við fast fiskverð þá sjá nú allir, hvaða reynsla af þessu hefur orðið. Í mínum augum er þetta eitt stærsta atriðið: hvaða fiskverð fær bátaútvegurinn út úr þessu? Ég minnist þess, að þegar var verið að samþykkja gengislækkunarlögin, þá var talað um það við bátaútvegsmenn, að væntanlega yrði fiskverðið 95 aurar pr. kg, og nú er talað um 96 aura pr. kg. Og nú, þegar ríkisstj. gefur þessa skýrslu getur hún ekkert um það sagt, hvað fiskverðið verði. Ég óska nánari skýringa um það hjá hæstv. atvmrh., hvort nokkur trygging er fyrir því, að fiskverðið nái 96 aurum pr. kg. Allar þessar ráðstafanir eru tilgangslitlar, ef þessi miklu fríðindi koma aldrei til útvegsmanna, en lenda hjá öðrum. En það er einkennilegt, ef ekki hefur verið gengið þannig frá þessum málum, að þeir aðilar, sem verið er að vinna fyrir, hljóti þann stuðning, sem verið er að veita, en það er vélbátaflotinn. En það er staðreynd, að enginn aðili í landinu hefur treyst sér til að borga þetta verð fyrir fiskinn og ekkert hraðfrystihús hefur getað keypt fiskinn á þessu verði og þau hafa orðið að bíða og sjá, til hvaða ráðstafana ríkisstj. ætlaði að grípa, sem gerðu það kleift að greiða þetta verð fyrir fiskinn.

Ég tók eftir því, sem hæstv. atvmrh. sagði um bankana, hvort þeir mundu auka útlán sín, og sér væri það ljóst, að aukin útlán væri skilyrði þess, að allt tækist vel. En er það þá ekki einkennilegt, að ríkisstj. skuli ekki hafa fengið tryggingu fyrir því, að þetta mætti verða? Hæstv. ráðh. segir, að hann muni verða fyrir miklum vonbrigðum, ef bankarnir láni ekki út. En ég hygg, að hæstv. ráðh. og fleiri, sem samþykktu gengislækkunina, hafi líka orðið fyrir vonbrigðum, þegar gengislækkunin skilaði útveginum engri hækkun.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvernig fer með þann útflutta fisk, sem nú þegar hefur verið fluttur út af vélbátum og gjaldeyririnn er kominn til bankanna, — standa þessum útvegsmönnum þessi fríðindi til boða? Geta þeir fengið þessi fríðindi á þennan gjaldeyri? Ef svo er, hvenær má þá búast við því, að þetta komi? Þá vil ég og spyrja, hvaða aðilar eigi að hafa með höndum framkvæmd þessa máls. Það getur orðið býsna flókið, hver það er, sem á þessi réttindi. Er það svo, að frystihúsin eigi í sumum tilfellum öll þessi hlunnindi og í sumum tilfellum útvegsmaðurinn? Hér þarf að hafa glögg skil á, hvaða fríðindi tilheyra hverjum aðila, hver á að hafa með það að gera. Ég hygg t. d., að ef þeir, sem undanfarið hafa stjórnað gjaldeyrismálum okkar, eigi að segja til um þetta, þá held ég, að útvegsmenn beri lítið úr býtum, enda bera þeir lítt traust til þeirra, sem fara með gjaldeyrismálin nú.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en tek það aftur fram, að ég furða mig á, að ríkisstj. skuli ekki hafa tryggt betur grundvallaratriði þessara ráðstafana, sem sé aukin útlán bankanna og ákveðið fiskverð.