26.02.1951
Sameinað þing: 46. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

Vandamál bátaútvegsins

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Þetta verða aðeins örstuttar athugasemdir. — Hv. þm. Ísaf. sagði, að við værum báðir í bankaráði, og sagði, að sig furðaði á því að heyra, að gjaldeyrisástæður bankanna hefðu batnað. Ég geri nú ráð fyrir, að hv. þm. hafi nú skroppið frá í símann til þess að fá betri upplýsingar um þetta, en honum hefði verið nær að gera það áður en hann flutti ræðu sína. Ég verð nú að lýsa því yfir, að ég sé nú, að það getur komið fyrir, að greindir menn sitji í bankaráði án þess að vita of mikið, og eftir þetta verð ég auðvitað sjálfur að fara að gæta að mér. Ég tel það ekki verða neinum til framdráttar, að alþingismenn séu að hamra á því, að við séum of vel stæðir. Það er áreiðanlegt, að ef við erum að flagga með þetta út á við, þá getum við spillt fyrir okkur. Við þurfum á öllu að halda, því að hér er mikil vöruþurrð í landi, og við þurfum á öllu að halda til að bæta úr því. — Hv. þm. sagði, að þetta væri sú leið, sem verst væri. Þetta hefur maður heyrt áður. Eldhúsdagsumræður fara nú fram eftir nokkra klukkutíma, og mun ég þá koma nánar að þessu, en við skulum spyrja að leikslokum og vita, hver verður dómur almennings, og þá er hægt að bera þetta saman við þær leiðir, sem þessi hv. þm. hefur farið.

Ræða hv. 2. landsk. þm. var byggð á misskilningi. Hann taldi, að ríkisstj. hefði látið sig engu skipta, hvaða verðlag mundi verða í landinu, og það væri hvergi sagt, að bankarnir ættu að lána útvegsmönnum. Ríkisstj. ræður ekki yfir bönkunum og getur ekki skipað þeim fyrir, en ríkisstj. getur skýrt málið fyrir þeim og fengið hjá þeim fyrirheit um það, að þeir fari eftir hennar óskum. Meira getur ríkisstj. ekki gert.

Varðandi fiskverðið, þá er ekki eðlilegt, að ríkisstj. semji um hagnýtingu þessara fríðinda. Framleiðandinn sjálfur á auðvitað þessi fríðindi, sem hér koma til greina, en svo getur hann aftur selt þau hverjum sem hann vill. Hér gat ríkisstj. ekki gert annað en spurt stjórn LÍÚ um verðlagið, sem útvegsmenn teldu sig þurfa að fá, og hins vegar, hvort þeir teldu, að með þessum ráðstöfunum væri meginkjarna málsins borgið. Og vil ég lesa hér bréf frá LÍÚ, sem staðfestir þessi orð mín. Það er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Reykjavík, 24. febr. 1951.

Með tilvísun til bréfs hæstv. ríkisstj., dags. 24. f. m., þar sem ríkisstj. gefur fyrirheit um viss fríðindi bátaútveginum til handa „í því skyni og að því tilskildu, að takast megi að skapa það verðlag á afurðum bátaflotans, að eigendur hans telji sér fært að hefja útgerð tafarlaust“, vill stjórn LÍÚ og verðlagsráð sjávarútvegsins hér með lýsa því yfir, að með samkomulagi við ríkisstj., dags. í dag, er tryggð sú verðlagsmyndun, sem um ræðir í áðurnefndu bréfi ríkisstj., dags. 24. f. m., m. a. með því, að stjórn SH hefur lýst yfir, að hún muni mæla með því, að félagar í SH greiði grunnverð það, sem við höfum farið fram á, og vitað er, að frystihús hafa þegar hafið kaup á þessum grundvelli.“

Ég veit nú ekki, hvernig ríkisstj. á að fá betri tryggingu fyrir þeim ráðstöfunum, sem hún hefur gert. Það eru staðlausir stafir að ásaka hana fyrir, að hér sé ekki tryggilega gengið frá hnútunum. Ríkisstj. hefur einmitt tryggt bátaflotanum það, sem mestu máli skiptir.

Þá er ekki öðru eftir að svara en því, hvernig fer um þann afla, sem þegar hefur komið á land á árinu 1951. Samkv. samningi við útgerðarmenn ná þessi fríðindi einnig til þess hluta aflans, sem þegar er kominn á land. - Ég vona þá, að þessi atriði, sem hér hafa verið gerð að umtalsefni, hafi skýrzt og liggi ljóst fyrir.