05.02.1951
Neðri deild: 63. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. fjhn., mælir hún með því, að þetta frv. til l. um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir 1948 verði samþ. — Eins og frv. ber með sér, hafa tekjur ríkissjóðs skv. rekstrarreikningi þetta ár numið 264,7 millj., eða um 22 millj. kr. meira en næsta ár á undan. Gjöldin á rekstrarreikningi hafa numið 256,5 millj. um það bil, og er það svipað og greitt var 1947 samkv. ríkisreikningnum, aðeins 1 millj. kr. hærra síðara árið. En greiðslur úr ríkissjóði, þar með talin 20. gr., hafa numið 1948 samtals rúmlega 345 millj. kr. samkv. ríkisreikningnum, og er það 18 millj. kr. hærra en árið 1947. En vegna þess, hve litill munur er á tekjum og gjöldum, eða um 7–8 millj., hefur orðið mikill greiðsluhalli á ríkisreikningnum 1948, og samkv. því yfirliti, sem birt hefur verið í reikningunum um greiðslujöfnuð það ár, hefur hallinn orðið um 69 millj. kr., sem mætt hefur verið með lántöku, og skuldir því hækkað sem því nemur.

Fjhn. hefur borið niðurstöður reikningsins saman við frv., og virðast upphæðirnar þar rétt færðar. — Yfirskoðunarmenn hafa gert nokkrar aths. við reikningana, ráðherra svarað þeim og yfirskoðendur síðan gert tillögur út af aths., en engri þeirra er sérstaklega skotið til úrskurðar Alþingis.

Ég mun ekki gera þessa reikninga að umtalsefni í heild, en um eitt atriði vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum, sem ég tel að sérstök ástæða sé til að vekja athygli á. — Samkv. efnahagsreikningi er talið með eignum ríkissjóðs í árslok 1948 ábyrgðarlán, 11 millj. og 254 þús. Það mun vera fé, sem ríkið hefur lagt út vegna ábyrgða fyrir ýmis fyrirtæki, og hefur þessi eignaliður hækkað um 6–7 millj. á því ári, því að hann nam í árslok 1947 4–5 millj. Þetta finnst mér ískyggilegt, hvernig ríkið þarf stöðugt að borga fyrir þá aðila, sem ríkisábyrgð hafa fengið til lántöku. Ég hef fengið þetta sundurliðað hjá ríkisbókhaldinu, og mér finnst ástæða til að gera grein fyrir því, hverjar eru stærstu útistandandi skuldir ríkisins vegna ábyrgðanna. Stærstu upphæðirnar eru vegna síldarverksmiðja ríkisins. Hefur verið greitt vegna þeirra samtals í árslok 1948 7,636 millj., og hefur sú upphæð hækkað verulega frá árinu áður. Ég hef síðan fengið vitneskju um, að hún hefur og hækkað á árinu 1949 um 2 millj. kr. og er því í árslok 1949 komin upp í 9,6 millj., enda hefur hagur verksmiðjanna farið versnandi síðustu ár, og munu nú varasjóðir þeirra uppétnir og tap þar að auki ógreitt.

Þá er næsta upphæð greiðslur til Siglufjarðarbæjar vegna Skeiðsfossvirkjunarinnar, og nemur sú upphæð í árslok 1948 1.350 millj. kr., og hefur enn bætzt við þá upphæð 1949, svo að hún er í lok þess árs 2.084 millj. kr.

Þá er Andakílsárvirkjunin í Borgarfirði, en þó að þar sé um stórar greiðslur að ræða, eru þær minni en það, sem greitt hefur verið vegna Skeiðsfossvirkjunarinnar. Sú greiðsla hefur í árslok 1948 verið 262 þús., en hefur hækkað, svo að í árslok 1949 nemur hún 881 þús.

Ég álít, að ráðstafanir verði að gera, svo að svona haldi ekki áfram. Þessi fyrirtæki verða að vera þannig rekin, að þau geti borgað vexti og afborganir af lánum, enda mun því hafa verið haldið fram, þegar þessar ábyrgðir voru veittar, að þær hefðu enga áhættu í för með sér fyrir ríkissjóð.

Þá er h/f Búðanes í Stykkishólmi, sem mun vera útgerðarfélag og fékk á sínum tíma ábyrgð til kaupa á togara. Greiðsla vegna þeirrar ábyrgðar nemur 71 þús. kr. og hefur hækkað mjög árið 1949 og er í lok þess árs orðin 471 þús. kr. Nú hef ég ekki getað aflað mér upplýsinga um, hvort búið er að gera félag þetta upp eða selja skip þess fyrir áföllnum skuldum.

Þá er ábyrgðargreiðsla vegna Húsavíkurhafnar, sem nam í árslok 1948 203 þús. kr., en hækkar 1949 upp í 331 þús.

Þá er Siglufjarðarbær vegna síldarverksmiðjunnar Rauðku, greidd ábyrgð 1948 101 þús., sem síðan hækkar 1949 upp í 413 þús.

Vegna samvinnubyggingarfélags í Ólafsvík eru greiddar árið 1948 96 þús., og við það bætast árið 4949 tæpar 3 þús.

Þá er ótalin Skagastrandarhöfn, en vegna þeirrar ábyrgðar eru greiddar 4ó8 þús. 1948, sem hækkar síðan í 701 þús. næsta ár.

Þá er Stykkishólmshreppur, ábyrgð vegna rafveitu 99 þús. 1948, en skuld hreppsins lækkar næsta ár niður í 77 þús.

Enn er á þessum lista ábyrgð vegna síldarútvegsins, 625 þús., en sú upphæð er næsta ár færð á annan reikning.

Eins og ég gat um áðan, nema þessar ábyrgðarlánagreiðslur í árslok 1948 11,25 millj., en hækka 1949 upp í 15 millj., en hvað þar við bætist svo 1950, er enn óupplýst. En við athugun þessa virðist mér ljóst, að hér verði að taka í taumana, eftir því sem unnt er, svo að ríkissjóður verði ekki þannig að greiða fleiri millj. árlega, ef nokkurs annars er kostur. — Mér fannst fullkomin ástæða til að vekja athygli á þessu, þar sem þessi greiðsla er ósundurliðuð á efnahagsreikningnum.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. — Um eitt atriði viðkomandi reikningnum hef ég gert fyrirspurn í Sþ. og sé því ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál að sinni.