08.02.1951
Neðri deild: 65. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Það var í sambandi við ræðu hæstv. fjmrh., sem ég vildi gefa nokkrar frekari upplýsingar í sambandi við viðskipti Stykkishólmshrepps við fjmrn. Það var skuld, sem myndaðist við ráðuneytið á þann hátt, að 1947 var stofnað hlutafélag í Stykkishólmi, sem keypti togara fyrir 1,2 millj. kr., og af þeirri upphæð tók ríkissjóður ábyrgð á 850 þús. kr. af kaupverði skipsins, og var sú ábyrgð tryggð með 1. veðrétti í skipinu. Ég vil aðeins gefa hv. þm. þær upplýsingar, að það er síður en svo, að þetta hlutafélag hafi ekki reynt að gera það, sem í þess valdi stóð, til þess að standa undir þessari skuldbindingu, því sem ríkissjóður hefur lagt út vegna þessarar ábyrgðar, bundið við kaupin á skipinu. En hinn mikli rekstrarhalli á skipinu 1947 og 48 hefur að mestu verið greiddur af hreppsnefnd Stykkishólmshrepps, og svo hefur allt hlutaféð sömuleiðis verið afskrifað. Hér er því raunverulega um upphæð að ræða, sem ríkissjóður hefur lagt út vegna þessa hlutafélags, en ekki vegna Stykkishólmshrepps, og verður sjálfsagt að álíta, að það sé tryggt, þar sem ríkissjóður hefur 1. veðrétt í skipinu, sem kostaði 1200 þús. kr.

Ég vildi bara gefa hv. þm. þessar upplýsingar út af hinum sérstöku hugleiðingum hæstv. fjmrh. um, að það bæri að brýna mjög fyrir þeim aðilum, sem fengju slíkar ábyrgðir ríkissjóðs, að þeir reyndu eftir fyllstu getu að standa í skilum með sínar skuldbindingar. Ég tel, að þetta hlutafélag hafi gert allt, sem í þess valdi stóð, til þess að standa við skuldbindingar sínar og kannske miklu meira en það, og ég tel, að ríkissjóður þurfi ekki að óttast mikið tap vegna þessarar ábyrgðar, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh., enda þótt hann hafi orðið í bráð að leggja nokkurt fé út fyrir hlutafélagið.

Í sambandi við þá upphæð, sem talið er, að ríkissjóður hafi í árslok 1947 lagt út vegna rafveitu Stykkishólms, vil ég taka fram, að sú upphæð var greidd að fullu árið 1949. En eftir upplýsingum, sem ég hef nýlega fengið frá rn., þá mun Stykkishólmshreppur í dag skulda um 77 þús. kr. vegna ábyrgða, sem ríkissjóður er í fyrir rafveituna og vatnsveituna. En þess ber að gæta í sambandi við þessar greiðslur ríkissjóðs vegna Stykkishólmshrepps, að þá á þessi hreppur í raun og veru kröfur á hendur Alþ. og ríkissjóði um greiðslu til vatnsveitu Stykkishólmshrepps, sem mun vera álíka há og sú upphæð, sem Stykkishólmshreppur skuldar ríkissjóði. Svo að þegar Alþ. hefur samþ. fjárveitingu til hreppsins vegna vatnsveitu, sem hreppurinn á í rauninni kröfu á samkv. gildandi l., tel ég, að hreppurinn geti greitt að fullu þær upphæðir, sem ríkissjóður hefur lagt út vegna þessara fyrirtækja, sem sé vatnsveitunnar og rafveitunnar. — Ég vildi aðeins gefa hv. þm. upplýsingar um þetta efni, því það hefur orðið töluvert tíðrætt um það, fyrst frá hv. þm. V-Húnv. og nú í ræðu hæstv. fjmrh.