12.02.1951
Neðri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Jón Pálmason:

Herra forseti. Áður en þessi ríkisreikningur fer hér út úr þessari hv. þd., þykir mér rétt að segja örfá orð, ekki sízt vegna þess, að hv. frsm. fjvn. flutti hér a.m.k. hálfrar klst. ræðu út af fylgihnetti þessa ríkisreiknings, fjáraukalögunum fyrir árið 1948, í hv. Sþ., og hefði þá, eftir því sem útlit var fyrir við þá umr., farið allur sá dagur í umr. um það mál, ef umr. hefði ekki verið frestað um málið. — Nú er það svo, eins og kunnugt er, að fjáraukalög fylgja hverjum ríkisreikningi, og er það orðið talið sjálfsagt, og hefur samþykkt þeirra laga ekki neina praktiska þýðingu, hellur er hún til þess að fylgja formi. En ríkisreikningurinn sker úr um það, hvernig farið hefur verið með fé af hálfu ríkisstj. á því ári, sem um er að ræða.

Ég hef nokkuð orðið þess var, að sumum mönnum finnst, að við yfirskoðunarmenn ríkisreikningsins höfum verið nokkuð vægir í aths. út af þessum ríkisreikningi, enda er hann sá hæsti, sem nokkurn tíma hefur verið lagður fram hér á hæstv. Alþ. En fyrir hví. að við höfum ekki gengið harðar að í aths. út af ríkisreikningnum, eru nokkuð margar ástæður. og ekki sízt sú, sem við höfum rekið okkur á, að á undanförnum árum hefur yfirleitt ekki verið gert neitt með aths. yfirskoðunarmanna ríkisreikningsins hér á Alþ. Í öðru lagi eru þessir reikningar, eins og fleira, orðnir nokkuð á eftir áætlun. Í þriðja lagi er það, að sú ríkisstjórn, sem hlut á að máli og var ráðandi yfir þetta tímabil, sem reikningurinn fjallar um. er dauð sem slík — og svo er oftast, þegar ríkisreikningarnir eru afgr. hér á Alþ.

Aðalatriði í þessum ríkisreikningi eru þau, að umframareiðslur umfram fjárlög eru nokkuð yfir 100 millj. kr., og skuldir hafa á þessu ári, sem reikningurinn tekur til, safnazt um 70 millj. kr. Það er því út af þessum reikningi nokkurt tilefni til athugasemda. Og þó ekki sé ástæða til að lengja þetta mál hér, vil ég víkja að einu atriði, sem gerði það að verkum, að ég kvaddi mér hljóðs. — Það hefur á undanförnum árum nokkrum sinnum verið kastað hnútum að okkur yfirskoðunarmönnum ríkisreikningsins fyrir það, hve við værum seint fyrir með okkar aths. Við höfum svarað þessu alltaf á undanförnum árum með því, sem eðlilegt er, að við gætum ekki hlaupið alveg á undan hinni umboðslegu endurskoðun. Nú höfum við þó gert það og birtum um það skýrslu, sem er í aths., sem ég geri ráð fyrir, að hv. alþm. hafi lesið. Þannig stendur þetta, samkv. þessari skýrslu, sem þar er prentuð, að það eru 154 stofnanir og starfsgreinar, sem heyra undir okkar yfirskoðun, og teljum við, að þá sé allt talið. Þegar við lukum yfirskoðun í nóvembermán. s.l., þá var umboðslega endurskoðunin búin um 79 stofnanir og starfsgreinar fyrir árið 1948. Í 8 stofnunum var endurskoðunin langt komin, en í 67 stofnunum og starfsgreinum var hún ókláruð, og í sumum þeirra lengra á eftir. Þetta sýnir það nokkurn veginn glöggt, að við höfum hér e.t.v. gengið lengra en okkur bar að gera. En það er nú gert samt, eins og ég hef tekið hér fram áður við annað tækifæri, í samráði við hæstv. fjmrh. að skila þessum aths., þó að svona sé ástatt.

Hv. fjhn. leggur nú til, að ríkisreikningurinn verði samþ., og væntanlega verður það gert. En ég tel — og við yfirskoðunarmennirnir höfum hvað eftír annað gert aths. og flutt fram áskoranir um það, — að það verði að koma á þetta öðru lagi heldur en nú er. Og ég neita því fyrir mig og mína samstarfsmenn, að þessi dráttur sé okkur að kenna.

Að öðru leyti skal ég ekki fara mörgum orðum um þennan reikning, enda þótt ástæða væri til þess, margra hluta vegna, bæði vegna þess, hver eyðslan hefur verið, og líka vegna þess, hvernig sum svörin hafa verið, sem við höfum fengið frá hæstv. ríkisstjórn.