20.02.1951
Efri deild: 75. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vildi segja nokkur orð út af fyrirspurnum hv. frsm. fjhn. í sambandi við aths. endurskoðenda við ríkisreikninginn. Það er þá fyrst spurningin um það, hvað hafi verið gert til að bæta innheimtufyrirkomulag á tekjum ríkisins. Þessu atriði var svarað, þegar ríkisreikningurinn 1947 lá hér fyrir deildinni, en hv. frsm. mun þá hafa verið fjarverandi. En þá greindi ég frá því, að á síðasta ári voru gerðar ráðstafanir til að bæta innheimtuna á söluskatti með löggjöf, sem um þetta var sett. Það lítur því út fyrir, að sú löggjöf muni bæta innheimtuna, en þó er ekki komin nein reynd á það enn þá. Hins vegar verð ég að hryggja hv. þdm. með því að upplýsa, að innheimta á tekjuskatti og söluskatti hefur gengið heldur illa, þrátt fyrir það, að ég hef fylgt því hart eftir, að ekki verði slakað til í þessum efnum. Væntanlega mun þó nýja löggjöfin koma þarna til hjálpar. Um rekstur útvarpsins, stjórnarráðið, utanríkismálin, dómgæzlu og lögreglustjórn og opinbert eftirlit vil ég taka fram, að það hefur verið reynt að koma í veg fyrir umframgreiðslur á þessum greinum og öðrum á síðasta ári, og hefur það borið nokkurn árangur, en um það munu koma nánari upplýsingar eftir nokkra daga. Ég get ekki svarað öðru um þessi atriði en því, er ég nú hef gert. Ég geri ráð fyrir, að þessar umframgreiðslur hafi að einhverju leyti stafað af því, að menn hafi ekki áætlað rétt, hvað kostnaður við hina ýmsu starfsemi mundi verða. T.d. mundi þá umframgreiðslan til utanríkismála stafa að einhverju leyti af því, að menn hafa ekki gert sér nægilega ljóst, hvað þyrfti að ráða af fólki við utanríkisþjónustuna og hvaða stofnunum þyrfti að koma upp. Annars hafa ekki verið rannsökuð þessi atriði frá 1948 og get ég ekki farið lengra út í það.

Um strandferðirnar er það að segja, að þær eru reknar með 2 stórum skipum og 2 smærri, og er sýnilegur halli á rekstrinum á því ári, og er líklegt, að á s.l. ári sé hann meiri en gert var ráð fyrir á fjárlögum, en þetta mun verða reynt að lagfæra. Annars á skipaútgerðin í vök að verjast. Það er keppt við hana bæði á landi og í lofti, og er afleiðingin sú, að skipin fara sama sem farþegalaus í kringum landið. En menn vilja samt hafa ferðirnar, og verður Alþingi að gera upp við sig hvort halda eigi uppí ferðum og hve miklu það vilji verja til þess.

Um nefndaskipanir skal ég geta þess, að reynt er að draga úr nefndum og n. hætta störfum og eru lagðar niður, en lítið er gert af að bæta nýjum nefndum við. En það er ómögulegt að komast hjá því að láta nefndir starfa að ýmsum verkefnum.

Varðandi það, að endurskoðendur vísa til aðgerða Alþingis, þá er ekkert við því að segja. Það er líklegt, að ef stjórnin, sem nú situr, væri sammála, gerði hún till. einnig að sinni till.

En það er ekki víst, að stjórnin sé á sama máli, og þá er ekkert við því að segja. Ef það er ekki þannig, er ekki von, að till. komi frá ráðh., og er ekki um annað að ræða en þetta detti dautt niður, eða endurskoðendur fái það tekið upp á Alþingi. Ef endurskoðendurnir eru ekki þingmenn, geta þeir fengið þingmenn til að taka málið upp á Alþingi.