20.02.1951
Efri deild: 75. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er vegna þeirra aths., sem fram hafa komið, að ég ætla að segja nokkur orð. Er það þá fyrst viðvíkjandi utanríkismálum. Það er bent á í aths. endurskoðenda, að umframgreiðsla sé röskar 1400 þús. kr. Það er nú vakin athygli á því í svari ráðuneytisins, að þessi aths. fær ekki staðizt. Þarna er sleppt 500 þús. kr. lið, sem var talinn með í áætlun fjárlaga og kom fram, en var færður öðruvísi í ríkisreikningnum. Það kom fram við fyrri meðferð málsins, að mönnum var ljós sú skekkja, sem þarna var gerð. Bróðurparturinn af því, sem eftir er, er kostnaður við húsnæði handa sendiráðunum í London og París. Í London var, eins og kunnugt er, hús, sem þurfti stórkostlegra endurbóta við, og var ekkert áætlað á fjárlögum til þeirra endurbóta, en það var ekki hægt að láta það standa eins og það var. Hér er því í raun og veru ekki um rekstrarkostnað að ræða, heldur endurbót á eign. Svo er það húsnæði sendiráðsins í París. Þegar þátttaka okkar í Efnahagssamvinnustofnuninni varð eins mikil og raun bar vitni um, varð að auka starfskraftana í París og kaupa leigurétt til nokkuð margra ára. Var það óhjákvæmileg ráðstöfun og gert með samþykki ríkisstj. Enn fremur kemur fram, að margir tugir þúsunda, sem eru skrifaðir hjá utanríkisþjónustunni, tilheyra henni alls ekki. Það eru önnur ráðuneyti, sem hafa ráðstafað þessu, án nokkurs samþykkis, og kemur það henni ekki við. Loks kemur í ljós, að 75 þús. kr. hækkunin við sendiráðið í Moskva er vegna hækkunar á rúblunni, en sú gengisbreyting var ófyrirsjáanleg.

Þegar þetta allt er athugað, sjá menn, að þær umframgreiðslur, sem orðið hafa, eru í rauninni minni en þær sýnast. Það er ef til vill hægt að segja, að ekki hefði átt að ráðast í húsakaupin í París og London. Í París var það alveg óhjákvæmilegt, og í London lá húsið undir skemmdum, ef ekki hefði veríð við það gert.

Svo er það varðandi aths. endurskoðenda um umframgreiðslu vegna dómgæzlu og lögreglustjórnar. Um það vildi ég segja, svo að vitað verði, hvað um er að ræða, að meiri hlutinn af þessari 800 þús. kr. umframgreiðslu kemur ekki dómgæzlunni við, heldur varðgæzlunni á sjó. Heyrir það undir annað ráðuneyti, en ekki dómsmrn. En þegar sagt er svona skýringalaust, að um umframgreiðslur sé að ræða, er það villandi.