20.02.1951
Efri deild: 75. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á síðasta atriðinu, sem hv. þm. minntist á, þ.e. 19.–20. aths. Endurskoðunarmenn gera þar aths. um, að kostnaður við að koma upp búi í Skálholti eftir að Jörundur Brynjólfsson fluttist þaðan, sé færður á reikning Skálholtsskóla. Fyrir þessu er gerð grein í svarinu, þar sem segir, að þarna eigi að reka alhliða búskap og koma á fót góðu búi, sem geti orðið skólabú. Þetta er sem sé rökstutt, og mér finnst svarið gefa tæmandi upplýsingar um afstöðu landbúnaðarráðuneytisins í þessu efni. Hitt er annað mál, að menn getur greint á um, hvort þarna hafi átt að setja á stofn búskap, og um það er ég ekki dómbær, en mér sýnist, að það hafi verið óhjákvæmilegt að koma þarna á fót búskap, sem gæti orðið samboðinn skólanum. Ég hef hér ekki á reiðum höndum svar við því, hve miklu fé hefur verið varið til að koma þarna búi á fót, ég hafði ekki hugmynd um, að þessi fyrirspurn mundi koma, það getur vel verið, að það hafi verið varið til þess meira fé en er á ríkisreikningnum 1948, en í honum stendur, hve miklu fé búið var þá að verja til þess, en það er sjálfsagt, að ég upplýsi það seinna, ef hv. þm. hafa áhuga á því. Hv. þm. Barð. gerðist nokkuð harðorður í sambandi við þetta og sagði, að þessu „sukki“ hefði verið leynt með því að fella reikningana ekki strax inn í ríkisbókhaldið. Ég get ekki séð neina afsökun fyrir þessum stóru orðum hv. þm. Það hefur verið farið hér öðruvísi að en á að gera, það á að senda slíka reikninga inn í ríkisbókhaldið, en það gefur ekki tilefni til að viðhafa slík stóryrði og hv. þm. hafði. Reikningur, sem kemst í endurskoðunardeild fjármálaráðuneytisins, kemst í bókhaldið. Mér skilst, að hér hafi verið um að kenna ókunnugleik þeirrar nefndar, sem gerði reikningana, á, hver hin rétta boðleið er, en annað hafi ekki gerzt.

Hv. þm. sagði, að óleyfilegu fé hafi verið varið til að kaupa eignirnar í Skálholti, og varð þá einnig stórorður, en ég vil benda hv. þm. á, að þetta er byggt á misskilningi hjá honum. Skálholt var ákveðið í lögum sem skólastaður, og þaðan þurfti ábúandinn að víkja. Þegar fráfarandi fer frá jörð, á hann heimtingu á, að eignir hans á jörðinni séu keyptar af eiganda hennar, ef þær eru ekki keyptar af öðrum. Nú vildi ríkið nota jörðina sjálft, og þá varð það að kaupa þessar eignir eftir mati, svo að hv. þm. hefur talað af sér í þessu sambandi, og ég veit, að hann sér þetta, þegar honum er bent á það.

Þá kem ég að öðrum aths. Ýmislegt af því, sem hv. þm. sagði, finnst mér hafa við rök að styðjast, en ég vil benda honum á, að athugasemdirnar, margar hverjar eru lélegar. Svörin eru reyndar léleg líka, — það fer hvort eftir öðru. Flestar aths. eru þannig, að svo og svo miklu hafi verið eytt fram yfir fjárlög. Þetta er það, sem allir sjá, sem lesa reikningana, það er sagt, að þetta fé hafi verið notað svona og svona, og svo er spurt: Hver er ástæðan? — Hvað á ráðuneytið að gera, þegar það fær aths. eins og þá, sem þarna er um kennslumálin og á ríkisreikningnum eru hundruð undirliðir? Ég tek það fram, þó að það skipti engu máli í þessu sambandi, að ég var menntmrh. og kirkjumrh. 1948, og þá voru þessi svör ráðun. ekki borin undir mig, heldur voru þau gerð af ráðuneytinu nú fyrir jólin. Ég játa, að ég stúderaði ekki, hvernig þessi svör eru vaxin. Ég bjóst við, að þau væru sómasamleg. En ég veit ekki, hvort á að lá menntmrn., þó að það svari aths. eins og ég sagði áðan, að hún gæfi ekki tilefni til svars. Það getur verið, að það hefði verið réttara fyrir ráðun. að skýra nánar, hverjar umframgreiðslurnar voru. Mér finnst þessi svör ófullkomin, en aths. er líka þannig, að það er ekki hægt að svara þeim nema hálfgert út í hött. Ég veit, að hv. þm. Barð. er mér sammála um það, þó að hann kysi heldur að draga fram gallana á svörunum. Það var ekki óeðlilegt frá hans sjónarmiði, þó að hann legði áherzlu á það í sinni ræðu.

Við 5. gr., þar sem umframgreiðslur eru kr. 564.847,89, er aths. „gefur ekki tilefni til svars“. Hv. þm. finnst þetta lélegt svar. En athugum nú, hvernig þetta liggur fyrir. Endurskoðendurnir vita, hver kostnaðurinn er, og í stað þess að gagnrýna einstaka liði, þá segja þeir bara, hvað umframgreiðslurnar eru samtals. Hvernig á nú að svara þessu? Það eru 6 ráðun., sem hlut eiga að máli, og mörg hundruð undirliðir, og aths. um þetta er bara, að samtals séu umframgreiðslur þessar. Endurskoðendurnir þurfa ekki að gera grein fyrir því, hverjar af umframgreiðslunum hafa verið óumflýjanlegar. Og mér finnst það nokkurt vorkunnarmál, þó að svörin hafi orðið á þessa lund, því að ég sé ekki, hvernig hægt var að svara þessu öðruvísi.

Um aths. við fjárhagsráð er það að segja, að þeim er svarað af fjárhagsráði sjálfu. Fjárhagsráð bendir á, að þessi kostnaður hafi reynzt eins og hann var áætlaður fyrir fram, en sú áætlun var ekki tekin til greina. Þegar aðilar svara sjálfir, eins og fjárhagsráð, og engin aths. fylgir til viðbótar frá ráðun., þá verður að líta svo á, að ráðun. hafi engu við að bæta. Ef ráðun. hefur annað um þetta að segja, þá á það að taka það fram, annars verður að líta svo á, að ráðun. taki gildar þær ástæður, sem forstöðumenn greina frá. Í þessu tilfelli lítur það svo út, að það hafi ekki verið hægt að komast hjá því að hafa kostnaðinn eins og hann var.

Hv. þm. ræddi nokkuð strandferðirnar í þessu sambandi. Ég vil benda honum á, að strandferðakostnaðurinn hefur farið minnkandi, og ber það ekki vott um, að illa sé haldið á þeim málum, heldur hið gagnstæða. En það mun vera vegna þess, að Alþ. og ríkisstj. hafa lagt til tvö ágæt skip, sem reynzt hafa vel, og í þessu hafa menn notið framsýni góðra tillagna frá forstöðumanns stofnunarinnar. En það er sjálfsagt að athuga, hvort ekki er hægt að koma þessu enn betur fyrir, og eru sjálfsagt stjórnin og forstöðumaður sífellt að athuga það. En ég sé ekki, að sérstök ástæða sé til að rannsaka þann rekstur umfram það, sem gert er, nema síður væri. — Ég held, að ég hafi minnzt á höfuðatriði í ræðu hv. þm. Ég mun reyna, í samráði við mína starfsmenn og stjórn, að vinna að því að laga þessi mál. Árangurinn verður að sýna sig, þegar þar að kemur.

Það er tvennt sem þarf til þess að koma á samræmi milli fjárl. og landsreiknings. Annað er, að undirbúningur fjárl. sé góður og nákvæmlega upplýst, hvað þarf að greiða og ekki verður hægt að komast hjá að greiða, og taka það til greina. Menn kinoka sér við að taka á fjárl. það, sem fyrirsjáanlegt er, að þarf að greiða. — Hitt er það, að gera ekki nýjar ákvarðanir um greiðslur utan fjárl., nema ekki sé hægt með nokkru móti að komast hjá því, þar til ný fjárl. yrðu gerð. Vinna að því með atorku, að hver starfsgrein fáist til þess að leggja sig fram með að fara ekki fram úr fjárl. Þessu er ekki hægt að koma í kring, nema með miklum fortölum og samvinnu milli allra ráðuneytanna og embættismanna. Til þess að þetta geti orðið framkvæmanlegt, þarf beinlínis að fá nýjan anda í þetta allt, ef það á að heppnast.

Ég verð að segja það, að mínir samstarfsmenn í ríkisstj. hafa verið skilningsgóðir í þessum efnum. Ég hef ekki heldur yfir embættismönnunum að kvarta í þessu sambandi, og ég vil undirstrika það, að mér finnst vera löngun hjá þeim til þess að bæta úr, einmitt í þessari grein, frá því á undanförnum árum.

Ég vil svo fara þess á leit við hæstv. forseta, að þessari umr. verði frestað.