20.02.1951
Efri deild: 75. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þeirri aths., sem hv. þm. Barð. gerði við mína framsögu. Hann taldi, að ég hefði veigrað mér við að minnast á 19. og 20. aths. í ríkisreikningunum, og átti það víst að vera vegna þess, að þær aths. kæmu einhverjum þeim illa, sem mér væri annt um, því að ekki gæti þessi aths. snert mig persónulega á neinn hátt.

Þetta er nú misskilningur hjá hv. þm., því að ég talaði hér eingöngu fyrir n. hönd. Og það, sem n. fól mér að gera, stendur í nál., sem hv. þm. Barð. hefur sjálfur skrifað undir. — Í 2. málsgr. nál. stendur: „Nefndin leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Hins vegar óskar hún eftir upplýsingum frá ráðh. í sambandi við þær aths. endurskoðenda, sem þeir telja „til eftirbreytni“ eða „athugunar framvegis“.“ — Í sambandi við þessi orð í nál. minntist ég eingöngu á þær aths. endurskoðenda, sem þeir að fengnum svörum ráðh. telja til eftirbreytni eða athugunar framvegis. En ályktun yfirskoðunarmanna út af 19. og 20. aths. er á þá leið: „Verður við svo búið að standa.“ — Ég taldi það ekki mitt hlutverk sem frsm. n. að ræða sérstaklega um þessa aths. Ég mundi vel eftir því, að hv. þm. Barð. hreyfði því í n., að honum þættu svörin við þessari aths. ófullnægjandi, en svona er þetta í nál. — Ég skal nú játa það, að mig brestur þekkingu á þessu Skálholtsmáli, til þess að ganga inn á það efnislega. Sumt af því, sem hv. þm. Barð. sagði um þetta mál, fannst mér nú nokkuð hart að orði kveðið og dálítið vafasamt, en vitanlega talaði hv. þm. frá eigin brjósti, en ekki fyrir hönd n., enda vil ég ekki, að það sé skilið svo, að allt, sem hv. þm. sagði um þetta, hafi verið frá n. hendi sagt. Ég skal aðeins benda á eitt atriði, þar sem hann minntist á kaupverð og fasteignamatsverð, að það muni æði miklu á því. Ég held, að það sé venjulegt, að það muni miklu á fasteignamatsverði og kaupverði og meira en um er að ræða á þeim eignum, sem þarna eru í Skálholti.

Ég veit mörg dæmi þess, að fasteignir hafi verið seldar meira en 10–földu fasteignamatsverði, enda sá Alþ. það t.d. í sambandi við stóreignaskattinn, að það þótti ekki annað fært en að hækka fasteignamatið til þess, að það kæmi nokkur rétt mynd eða í áttina við rétta mynd af sannri eign manna. Það vita allir, að fasteignir eru miklu meira virði en þær eru metnar til skatts. Þess vegna verður annaðhvort að fella það niður að taka fasteignamatsverðið til skatts eða að breyta því í samræmi við verð eignarinnar.

Ég skal ekki leggja dóm á það, hvort rétt hefði verið að stofna til búrekstrar í Skálholti eða ekki. Ég get gengið inn á það, að það mundi hafa verið mjög vafasamt. Það hefði verið hægt að leigja jörðina, þar til búnaðarskólinn tók til starfa. (GJ: Hún var í leigu.) Að vísu var hún í leigu, en hún var í lífstíðarábúð, og það var ekki hægt að losa hana hvenær sem var. Það gat verið erfitt að fá mann til að leigja jörðina til eins eða tveggja ára. Þrátt fyrir það, þó að mér finnist þetta vafasamt, þá held ég, að sumt hafi verið ofsagt hjá hv. þm., eins og t.d. hvað hann lagði þungan dóm á það að kaupa bústofn, sem vitað var, að ætti að skera niður. Ég er ekki viss um, að niðurskurður á Suðurlandi hafi verið svo ákveðinn, þegar þetta var gert, og allur bústofninn verður meira en sauðfé, en það var sauðfé, sem átti að skera niður.

Hvað snertir það, sem hv. þm. Barð. lagði áherzlu á, að óviðeigandi væri að forstjórar svöruðu aths. yfirskoðunarmanna, þá vil ég ekki heldur, að svo einhæfur skilningur á þessu komi fram fyrir hönd n., því að mér fannst það eðlilegt, þegar aths. komu fram, að ráðh. sneri sér til forstjóra viðkomandi stofnana til að fá upplýsingar. — Hitt er annað mál, ef ráðh. hefur ekki viljað bera ábyrgð á svörum forstjóranna, þá átti hann, um leið og hann birti þeirra svör, að gefa sjálfur út sitt eigið álit. — Að öðru leyti er ég, eins og fram kom í minni framsöguræðu, sammála hv. þm. Barð. um margt. T.d. er aðalatriðið, að það þarf að fá eitthvert fast form á það, með hverjum hætti fjhn. á að kvitta fyrir meðferð ríkisstj. á fjármálum ríkisins, og þetta hefur frá því að Alþingi fyrst fékk fjárveitingavald verið ófullnægjandi. Eiginlega hefur allri ábyrgðinni verið varpað yfir á yfirskoðunarmennina, og þegar þeir hafa svo vísað til Alþingis, þá hefur ekkert verið að gert. Og mér finnst það vafasamt, að það sé ríkisstj. að gera till. til aðgerða í þessu. En það er líka rétt, að einstakir þm. geta tekið málið upp, en það er nú svo, að ef engum ber skylda til að taka það upp, þá er engin trygging fyrir því, að það verði gert. Þess vegna á að slá því föstu, að það séu vissir aðilar, sem eiga að taka þessi mál upp. Og mér finnst, þegar svo stendur á, að yfirskoðunarmenn eiga sæti á Alþingi, þá mætti vænta þess, að þeir gerðu það. Eða hverjum stendur það nær? Nú er það vitað, að það er engin skylda að kjósa sem yfirskoðunarmenn alþingismenn, og þá hlýtur það að vera skylda fjvn. eða fjmrh. að skipa viðeigandi aðila að þessu máli.

Það hafa nú farið fram óvenjumiklar umr. um þetta mál, þó að engu væri sérstaklega vísað til Alþingis. Ég vona, að upp úr þeim umr. komi, að því verði á einhvern hátt slegið föstu, hvernig með þessi mál eigi að fara, þegar þeim er vísað til Alþingis, því að það er nauðsynlegt, að slík mál falli ekki niður, því að ég minnist þess ekki, að nokkurn tíma hafi orðið málarekstur út af skilagrein á fjárreiðum ríkisins, og þó hefur það verið frá upphafi vega, að greitt hefur verið yfir fjárlög, — í smáum stíl fyrst, meðan tekjur og greiðslur voru minni, en svo hækkandi með hækkandi reikningum, og þá er það oft álitamál, hvort ástæða er til þess að greiða fram yfir það, sem fjárlög heimila til þess. Og það er sjálfsagt, úr því að Alþingi hefur fjvn. og á að kvitta ríkisreikninginn, að það sé vitað, að ráðh. og ríkisstj. geti átt eitthvað á hættu, ef ekki er staðið við sett fjárlög. Um þetta erum við hv. þm. Barð. sammála, og ég vildi gjarnan ræða það atriði nánar við hann, t.d. í fjhn. þessarar hv. d., því að mér finnst það nauðsynlegt, að föstu skipulagi sé komið á þetta.