26.02.1951
Efri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Gísli Jónsson:

Mér þykir leitt, ef hæstv. forseti sér sér ekki fært að fresta þessari umr. um 5. dagskrármálið, þar til hæstv. fjmrh. er við, sumpart vegna þess, að hæstv. ráðh. óskaði mjög eftir því sjálfur að vera við þessa umr., og sumpart vegna þess, að hér vildi ég ræða um sérstakt mál, sem ég sé ekki annað en að sé sjálfsagt að hæstv. ráðh. sé við. Það er ákaflega leiðinlegt að vera neyddur til að ræða svona mál án þess að viðkomandi ráðh. sé til að svara fyrirspurnum og öðru í sambandi við málið. En úr því hæstv. forseti vill flýta málinu, þá á ég ekki annars kost en að ræða það við hann sem frsm., ef hann vill taka að sér að flytja þær aths., sem ég geri, til ráðh. Ég vil þó enn gera þá fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort hann telur ekki sjálfsagt að fresta málinu, þar til hæstv. ráðh. verður við. Hér er um að ræða fleiri hundruð þúsund kr. greiðslur án nokkurrar heimildar, og það er ákaflega leitt, ef ekki er hægt að fá að ræða það mál opinberlega við viðkomandi ráðh. Hér hefur 245 þús. kr. verið eytt og aldrei verið gerð tilraun til að leita samþykkis Alþ. fyrir þeirri greiðslu, og ég geri það ekki nema ég sé neyddur til að tala yfir tómum ráðherrastólum, þegar svo stendur á. Ég vil því eindregið beina því til hæstv. forseta, að hann fresti þessu máli, þar til hæstv. ráðh. verður við til að svara fyrir þessi mál.