01.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

151. mál, ríkisreikningurinn 1948

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að ég er ekkert móðgaður út af Otradal. Hæstv. ráðh. veit, að ég seldi jörðina síðar og fékk sama verð fyrir hana og ég ætlaði að selja ríkissjóði hana fyrir, og er það sönnun þess, að ég ætlaði ekkert að draga af ríkissjóði í þessum viðskiptum. — Hæstv. ráðh. sagði, að Jörundur Brynjólfsson hefði verið vel að erfðaábúðinni í Skálholti kominn. Ég neita því ekki, en það var samt sem áður lögleysa og var ein hnútan, sem Framsfl. veitir gæðingum sínum. Það var ólöglegt að veita manni æviábúð á jörð, sem ríkið ætlaði að nota til eigin þarfa, og það var hægt að gera vel við Jörund í Skálholti þangað til hann væri kominn á þann aldur, að hann drægi sig í hlé frá störfum, án þess að veita honum þar erfðaábúð, en það þurfti að nota þetta sem fleira sem kjötbein handa framsóknarþingmanni. Ég var ekki að gagnrýna, að fé væri veitt til undirbúnings skólahaldi í Skálholti, en ég gagnrýndi það, að búið er að verja á aðra millj. kr. í sambandi við þetta Skálholtsævintýri í heild. Og þessi hæstv. ráðh. hefur lagt hvað mest fram í sambandi við það hneyksli. Síðan var hann með útúrsnúninga í sambandi við það, sem ég hafði sagt, en þessi hæstv. ráðh. veit, að það er engin rangfærsla, að þetta ævintýri er búið að kosta á aðra millj. kr., og hann veit einnig, að allt það fé, hver einasti eyrir, hefur verið tekið úr ríkissjóði í heimildarleysi. — Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, þar sem ég er búinn með tíma minn, en ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að þegar neitað er um hækkun á taxta við út- og uppskipun, þá er full þörf rannsóknar, þegar tap við þetta nemur 400–500 þús. kr. og það er dómur verðlagseftirlitsins, að þetta sé rekið í sukki, og það verður að teljast hæstaréttardómur í þessu efni, og þetta er strangari dómur en ég hef lagt á það.