01.03.1951
Neðri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

79. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég get að mestu látið nægja að vísa til nál. á þskj. 708. Þó að allshn. legði til, að frv. yrði samþ. óbreytt eins og það barst þessari hv. d. frá Ed., þá er það engan veginn sakir þess, að n. sé ánægð með þá afgreiðslu, sem frv. fékk í hv. Ed., heldur mælir n. með samþykkt frv. í því formi sem það er eingöngu vegna þess, hve áliðið er orðið þingtímans, og n. sýndist að ef breyt. yrði gerð á frv., þá mundi það orsaka það, að málið gengi ekki fram í neinni mynd, og n. vildi ekki stuðla að því af sinni hálfu — og sérstaklega þá vegna þess, að á síðasta þingi varð engin afgreiðsla á þessum málum hér á Alþ.

Þó að það í sjálfu sér varði ekki miklu, — eða jafnvel má kannske segja, að það varði engu gagnvart ríkinu, — hvort slík mál fái afgreiðslu á þessu þinginu eða hinu, þá er því þó þannig háttað um það fólk, sem dvalið hefur hér langdvölum og sækir um ríkisborgararétt, að það á í raun og veru ekkert föðurland orðið, en þar sem það hefur dvalið hér lengi, hefur það tekið ástfóstri við þetta land og skoðað það sem sitt föðurland. Og ef það er þekkt að góðu einu og ekkert út á framferði þess eða hegðun að setja, þá er það ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að veita því þessi réttindi. Ekki á það sízt við um það fólk, sem dvalið hefur hér langdvölum, og þar sem um menn er að ræða, sem kvæntir eru íslenzkum konum, og fólk, sem á hér uppkomin börn, sem notið hafa uppeldis og fræðslu hér á landi og eru hér orðin fulltíða og fullvinnandi fólk og eins gott og gagnlegt þessu þjóðfélagi og þess eigin þegnar, og þegar svo er, tel ég í raun og veru ekki hægt annað af siðferðislegum ástæðum en að veita þessu fólki þau þegnréttindi, sem það óskar eftir. En þessi regla hefur nú alls ekki gilt um meðferð þessa máls í hv. Ed., heldur hefur þar verið farið eftir þjóðerni og fólk, sem er af íslenzku bergi brotið, tekið upp í frv. og slíkt er ekki aðfinnsluvert — og svo hefur verið tekið með fólk, sem ættað hefur verið af Norðurlöndum, ef um það hefur verið gott eitt að segja, og er það heldur ekki aðfinnsluvert. En lengra hefur það ekki náð hjá hv. Ed., því að umsóknum þess fólks um íslenzkan ríkisborgararétt hefur verið synjað, sem er af öðru bergi brotið. Erindum þess fólks hefur af hv. Ed. ekki verið sinnt.

Allshn. þessarar hv. d. getur ekki á þetta sjónarmið fallizt, og það hefur ekki heldur gilt sú regla, það sem ég þekki til, þegar um veitingu slíkra mannréttinda hefur verið að ræða á hæstv. Alþ. Ég tel, að það sé hvorki réttmætt né æskilegt, að sá háttur verði hafður á um afgreiðslu þessara mála í framtíðinni. En það er aðeins af þeirri ástæðu, sem fram kemur í nál., að ef breyta ætti frv. nú, mundi enginn öðlast ríkisborgararétt á þessu þingi, að allshn. þessarar hv. d. beygir sig og leggur til eftir atvikum, að frv. verði samþ. óbreytt og ekki bætt nöfnum þarna við, sem mundi þýða stöðvun málsins á þessu þingi.

Á þskj. 725 er borin fram brtt. við frv. af hv. þm. N-Ísf. Ég get þegar tekið fram, að ég efast ekkert um, að það séu góðar og gildar ástæður fyrir því að veita þessu fólki ríkisborgararétt, sem sá hv. þm. fer fram á, að sá réttur verði veittur, svo að frá því sjónarmiði væri vafalaust ekki ósanngjarnt að veita því fólki þann rétt. En allshn. leggur á móti því, að gerð sé nokkur breyt. á frv., af þeim ástæðum, sem ég hef greint. Og það skulu hv. þm. vita, að verði nú gerð breyt. á frv. við þessa umr., þá koma fram fleiri brtt. við það, því að það er margt fólk, sem hefur sótt um að fá íslenzkan ríkisborgararétt, og sumt af því hefur dvalið hér lengi, jafnvel upp undir tuttugu ár, og það fólk, sem kunnugt er að góðu einu, á hér uppkomin börn og væri í alla staði sanngjarnt að veita ríkisborgararétt hér. Mér er kunnugt, að þessi erindi nær öll lágu fyrir hv. Ed., og það varð að samkomulagi í n. í þeirri hv. d. að afgr. frv. til þessarar hv. d. í því formi, sem það nú hefur, og í því formi kemur það hingað, en ágreiningur var í þeirri hv. d. um hverja einustu umsókn aðra, hvort taka skyldi til greina í frv. Af því geta hv. þm. ráðið, hvaða móttökur það mundi fá í hv. Ed., ef þessi hv. d. færi að breyta frv. nú. Þessu öllu var allshn. þessarar hv. d. kunnug, og einungis vegna þess bar n. ekki fram neina brtt. við frv. — En ég mun ekki sætta mig við það, ef ég á í framtíðinni um þessi mál að fjalla, að höfð verði slík afgreiðsla á þessum málum síðar meir, og vitna ég þar um til þeirra orða, sem ég hef látið hér falla um það efni. Ég álít þá reglu, sem farið hefur verið eftir um upptöku beiðna manna um ríkisborgararétt í þetta frv., óréttláta og óskynsamlega og ekki á þeim grundvelli, sem taka eigi til greina umsóknir manna um þennan rétt.