01.03.1951
Neðri deild: 76. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

79. mál, ríkisborgararéttur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Árn., frsm. allshn., gerði áðan grein fyrir afstöðu n. til afgreiðslu málsins. Ég vil fyrir mitt leyti taka undir hvert orð af því, sem hann sagði. Það er alveg rétt, að þessi afgreiðslumáti er ófær sem „prinsip“, og þess vegna er rétt, að það komi fram í þessari hv. d., eins og kom líka hjá hv. þm. N-Ísf., mótmæli gegn því. Nú er það svo, að þetta frv. var á síðasta þingi fyrst hjá okkur í Nd. og var afgr. héðan með að ég held samróma atkv. Voru þá nöfn margra manna á frv., sem ekki vorn fæddir á Norðurlöndum. Þetta frv. stöðvaðist í Ed. og náði ekki samþykki. Veit ég, að margt þeirra manna, sem á því frv. voru, mundi hafa fylgi hér í hv. d. til borgararéttar. En ef farið væri að reyna að bæta þeim inn í, má hins vegar búast við því, eins og hv. frsm. allshn. gat réttilega um, að málið verði stöðvað aftur í Ed. og þeir menn, sem nú eru á lista, 17 talsins, verði að bíða. Ég held þess vegna, að við verðum, vegna þess ofurkapps, sem er í Ed. í þessu máli, heldur að sætta okkur við að afgr. málið eins og það er, þó að illt sé fyrir aðra d. þingsins að búa við slíkt, og freista þess á næsta þingi að skapa rétt til handa þessum mönnum, en sú viðleitni yrði líklega nú að engu. Ég mundi vilja leggja til við hv. þm. N-Ísf., af því að það eru ýmsir menn, sem ég og fleiri bera fyrir brjósti, eins og hann gerir, að hann taki till. sína til baka við 2. umr., svo að allshn. gæfist kostur milli umr. að bræða sig saman aftur um það. hvort henni þyki fært að breyta um stefnu og taka upp þá áhættu, sem hún nú með mjög viturlegum forsendum hefur verið að reyna að forðast. Ég álít ákaflega óheppilegt, ef við tækjum nokkra menn upp og skildum nokkra eftir, sem hafa sömu verðleika. Við þurfum að framkvæma það rétta í. þessu máli og það á þann hátt að spilla ekki fyrir þeim, sem hafa sloppið gegnum hreinsunareld Ed., en mundu líka brenna í honum, ef frv. yrði sent til Ed. aftur.