23.10.1950
Efri deild: 7. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

36. mál, togarakaup ríkisins (lántökuheimild)

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur rætt mál þetta á einum fundi. Ástæðan til þess, að beðið er um að hækka lánveitinguna í 16 millj. kr., er sú, að skipunum hefur ekki enn verið úthlutað, svo að væntanlegir kaupendur hafa ekki enn greitt neitt inn á þau. En byggingu þeirra er nú svo langt komið, að nauðsynlegt er fyrir ríkisstj. að hafa þetta fé handbært, og er því nauðsynlegt að fá þetta samþ., og það er eina leiðin fyrir ríkisstj. að taka lán í þessu skyni, þar til kaupendurnir hafa greitt eitthvað. Hæstv. fjmrh. hefur lýst þessu hér áður og eins í sambandi við fjárl., og sé ég því ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, en n. leggur til, að þetta verði samþ. Einn hv. nm., hv. 1. landsk., var ekki á fundi þegar málið var afgreitt, og mun hann að sjálfsögðu gera grein fyrir afstöðu sinni, ef hún er önnur en annarra nm. Ég orðlengi þetta svo ekki meira, en endurtek, að n. mælir með, að frv. verði samþ. óbreytt.