21.11.1950
Efri deild: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

95. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að hafa tekið málið af dagskrá í gær til þess að gefa hæstv. ráðh. tækifæri til að vera viðstaddur 1. umr. og segja nokkur orð um frv. Jafnframt vil ég þakka hæstv. ráðh. fyrir að hafa skýrt frv. fyrir d.

Eins og hæstv. ráðh. minntist á, er þetta mjög viðkvæmt mál, og þess má vænta, að einstakir þm. vilji hafa nokkur afskipti af því, áður en gengið verður endanlega frá frv.

Það hefur verið búið svo að prestssetrum úti á landi, að það er meginástæðan fyrir því, að ekki hafa fengizt prestar til þeirra árum saman, vegna þess að prestshúsin og peningshúsin á jörðinni hafa verið í svo mikilli niðurníðslu, að engir ungir og félitlir prestar hafa treyst sér til að byggja þau upp með þeim kjörum, sem ætlazt er til, að þeir reisi húsin fyrir. Á sama tíma hefur prestum fjölgað mjög í Reykjavík, sem eðlilegt er, því að hingað hefur fólkið safnazt, svo og á Akureyri, sem hefur vaxið á síðari árum. — Sú stefna, sem hér er tekin með fækkun prestakalla, verður enn eitt meðalið til þess að draga fólkið úr sveitunum og íþyngja þeim, sem þar eru eftir í baráttunni við að lifa við sómasamleg lífskjör. Það er að vísu rétt hjá hæstv. ráðh., að bættar samgöngur hafa einnig orðið til þess, að raddir hafa komið fram um, að nú sé hægt að fækka prestssetrum, vegna þess að prestar eigi nú hægara um vik með að sinna embætti sínu, og um það skal ég ekki deila. En mér finnst annar mælikvarði koma hér og til greina, og hann er sá, að prestsembættinu fylgir annað en að sinna ákveðnum prestsverkum, og það eru hin andlegu og hvetjandi áhrif, sem prestar eiga að hafa á sóknarbörn sín. Ef sá mælikvarði er hafður í huga, þá hafa bættar samgöngur lítið að segja. Það er nú svo komið í mörgum héruðum úti á landi, að þar er enginn menntamaður eftir nema presturinn, og ef hann flyzt í burtu, hygg ég, að það sé ekki svo litið atriði fyrir fólkið, sem eftir er. Að vísu eru þar einnig sýslumaðurinn og læknirinn, þar sem þeir sitja, en presturinn hefur minna umdæmi og er því í nánari tengslum við fólkið, og það er verið að ráðast á þann garðinn hér. Þetta er stórt atriði, og ég hygg, að hv. menntmn. verði að athuga þetta mjög gaumgæfilega, áður en lagt er til að fækka prestssetrum, svo sem nú er lagt til. Ég er þó ekki að segja með þessu, að ekki megi að einhverju leyti færa saman prestsþjónustuna, en við verðum að fara mjög varlega út í þau mál og miklu varlegar en hér er gert í frv.

Nú mætti ætla, að þetta frv., sem gert er af skipulagsn. prestssetra, en í henni eiga sæti skrifstofustjóri dómsmrn., hr. Gústav A. Jónasson, ritari biskups, hr. Sveinn Víkingur, og landnámsstjóri, hr. Pálmi Einarsson; nú skyldi maður ætla, að hinir tveir fyrstnefndu væru gagnkunnugir þessum málum, svo að ekki hefði þurft að tala um, að þá skorti þá þekkingu, sem hæstv. ráðh. sagðist ekki hafa og að ekki væri fyrir hendi í ráðun. En ef athuguð er uppbygging frv. í heild, undrast maður yfir því, hvernig slíkt frv. hefur getað komið frá þessum mönnum, því að ekki hefur tekizt að stíla frv. við réttar gr. í upphaflegu l. Frv. eins og það er lagt fyrir er stílað við l. nr. 45 10. nóv. 1907, en við þau l. hafa verið gerðar ýmsar breyt., og ég hygg, ef n. ber það saman við l. sjálf frá 1907, muni hún komast að raun um, — eins og hv. 1. þm. N-M. sagði í gær — að þetta frv. er stílað við l., eftir að gerðar höfðu verið á þeim breyt. og þau prentuð upp í lagasafni árið 4947, en ekki við l. í sinni upphaflegu mynd frá 1907. Þetta er að vísu aukaatriði, sem má lagfæra, og kemur þá til greina og til athugunar fyrir þá n., sem fær málið til athugunar, hvort ekki sé nauðsynlegt að orða alla 1. gr. um.

Þá vil ég leyfa mér að benda á nokkur atriði í sambandi við þær breyt., sem hér á að gera. — Það er lagt til, að Stóra-Núpsprestakall, sem í eru 600 manns, eigi að fella niður og sameina það Hrunaprestakalli. Ég held, að ekki verði um það deilt, að mjög erfitt verði að fella svo stórt prestakall undir aðra sókn, og ég er ekki í vafa um það, að slíkt muni mæta mjög mikilli andstöðu, og ég hygg, ef hæstv. ráðh. kynnir sér þetta, að hann muni sjá, að ekki sé heppilegt eða auðvelt að samþ. þessar breyt. á skipun prestakalla.

Enn fremur er gert ráð fyrir að fella niður Rafnseyrarprestakall. Nú er það að vísu rétt, að í því er í dag búsettur 91 maður samkvæmt því, sem getið er í grg. En er hæstv. ráðh. viss um, að meiri hl. þm. vilji gera fæðingarstað Jóns Sigurðssonar að annexíu? Ég verð fyrir mitt leyti að harma það, ef slíkt verður gert. Ég tel, þótt þar sé fátt fólk, að það eigi að búa svo að þeim stað að gera hann að sérstöku heiðursprestakalli.

Sama er að segja um Þingvelli. Það hefur verið látið viðgangast á þeim sögulega stað og þar sem kristni var lögtekin á Íslandi, að hafa staðinn prestslausan um mörg ár, þó án nokkurs fjárhagslegs hagnaðar fyrir ríkissjóð, því að ég veit ekki betur en að sá kostnaður, sem hefði runnið til prestsembættis á Þingvöllum hafi gengið til annarra presta. Ég tel sjálfsagt, ef það á að gera breyt. á skipun prestakalla, þá eigi að setja þar prest og hafa þar prestssetur og gera staðinn að heiðursprestssetri. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Er þetta ekki ein ástæðan til þess, að prestslaust er í Árnesi, að farið hefur verið þannig með prestssetrið? Þetta er meginástæðan fyrir þessu á Brjánslæk, að farið hefur verið þannig með prestssetrið þar. [Frh.]