21.11.1950
Efri deild: 23. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

95. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson (frh.):

Mér skildist á hæstv. ráðh., að meginástæðan fyrir því að gera nýja skipan á prestaköllunum væri sú að reyna að spara allverulegt fé fyrir ríkissjóð, og er þá litið í burt frá því, hvort hin andlegu mál þjóðarinnar líði við það eða ekki. Skal ég taka þá hlið málsins til athugunar.

Hér er farið fram á að sameina nokkurn hluta þeirra prestakalla, sem setin eru, annars vegar, og hin, sem ekkí fást prestar í, en nærliggjandi prestar verða að þjóna og hafa, að mér skilst, allveruleg laun fyrir hvert prestakall, sem þeir þjóna. Þó að þetta frv. verði að l., þá skilst mér ekki, að fyrir liggi neinn sparnaður í þessa átt, vegna þess að það er ekki hugsað að skipa þessu fyrr en þeir prestar eru farnir úr sínum embættum, sem sitja í aðalprestaköllunum og taka 11/2 laun, þannig að enginn sparnaður yrði að þessu fyrst um sinn, og í mörgum þeim prestaköllum sitja jafnvel ungir menn. Ég hefði því viljað spyrja hæstv. ráðh., hvort ekki mætti gera aðrar skjótari breytingar til sparnaðar fyrir ríkissjóð, og vildi spyrja, eftir hvaða lögum og reglum fer um laun þessara presta, sem nú taka tvöföld laun fyrir slíka þjónustu, og sé það hugsað, að þegar þetta verður veitt næst, þá eigi ekki að greiða viðkomandi prestum, sem þá kynnu að sækja um embættin, meira en prestum er greitt almennt, hvers vegna er þá ekki hægt að komast að samkomulagi við prestana eða bjóða með l., að þeir skuli gegna meira en þessu án þess að fá tvöföld laun? Mér sýnist a.m.k. erfitt að eiga að fyrirskipa það með l. að fá prest til þess að gegna embætti, sem hann þarf að fá tvöföld laun fyrir; ég held það yrði erfitt að fá presta í slík embætti, og gæti það orðið til þess, að prestssetrin legðust í eyði. Þetta finnst mér vera mjög athyglisvert.

Það er rétt, sem ráðh. sagði, að það eru önnur prestsembætti, sem ætti að leggja niður frekar en þessi í frv. Hér er t.d. ekki minnzt á að sameina tvö prestaköll í mínu kjördæmi, þ.e. annars vegar Brjánslæk og Flatey hins vegar. Í Flatey situr nú prestur með eina kirkju og aðeins nokkur hundruð manns. Hin kirkjan, sem á að vera í prestakallinu, á Múla í Múlasveit, hefur ekki verið þar í s.l. 15 ár og hefur þess vegna enga aðra sókn en Flatey eina, og hefur presturinn þar í mörg ár þjónað Haga annars vegar og Brjánslæk hins vegar, samfara sinni heimakirkju í Flatey. Fyrir þetta hefur hann haft 11/2 prestslaun, eins og aðrir prestar fá fyrir að þjóna sókn, sem þeir hafa ekki fengið veitingu fyrir. — Það er ekkert minnzt á, að þetta skuli sameina, og tel ég þó, að eigi að fara inn á þessa braut, sé nær að sameina þessi tvö prestaköll en sumt, sem hér er farið fram á, og tel ég, að ætti mjög að athuga það. — Mér er líka kunnugt um það, að presturinn, sem sat nú síðast í Sauðlauksdal, flutti í burtu aðeins vegna þess, að hann fékk enga áheyrn hjá kirkjumálastjórninni um nauðsynleg peningshús á jörðinni, þannig að þessi fádæma góða jörð hefur verið í eyði og grotnar niður bara vegna þess, að ekki eru uppfylltar þær nauðsynlegu kröfur að byggja hlöðu og fjárhús, þannig að sá ungi prestur, sem nú er kominn þar, hafði engu að að hverfa. Presturinn verður að hírast í öðrum hreppi og hefur enga von um viðreisn á staðnum, svo að þar verði fært að dvelja. En á meðan svo er, að prestar verða víða að sæta slíkum kjörum, þá er ekki von, að vel gangi að fá menn til starfsins.

Mér skilst, að ef frv. þetta nær fram að ganga, þá verði nauðsynlegt að setja sem svarar á aðra milljón í nýja prestsbústaði. Ef til dæmis á að flytjast prestur að Hólum, þá þarf þar að byggja fyrir að minnsta kosti 300–400 þús. kr. Eins er það, ef flytja á prestssetur að Selfossi frá Hraungerði, að þá þýðir það, að þar verður að reisa nýja byggingu — enda þótt vel sé um prestinn búið þar, sem hann er, og aðeins nokkurra mínútna akstur í bíl að Selfossi þaðan. En samt á að rífa hann upp þaðan þarna og flytja að Selfossi og afhenda svo sjálfsagt prestssetrið einhverjum bónda til búsetu. En þetta er ekki að mínu áliti til hagsbóta fyrir ríkissjóð né heldur að öðru leyti sérstakt hagræði.

Hæstv. ráðh. minntist á, að ýmsar aðrar breytingar en frv. gerir ráð fyrir mundu vera nauðsynlegar, en kvaðst ekki hafa næga staðarþekkingu til þess að gera tillögur um þær. En að mínu áliti hafa þeir, sem að frv. standa, heldur ekki haft næga staðarþekkingu eftir tillögum þeirra að dæma. Og það hlýtur raunverulega að vaka eitthvað annað fyrir n. en hún lætur í veðri vaka. Það skín í gegn, að tilgangurinn er sá, að fá ákveðið fé í sjóð, er kirkjan ráði síðan yfir í framtíðinni. Slík leið er mjög athugaverð, enda upplýsti hæstv. ráðh., að hann vildi ekki, að inn á þá braut væri farið. Ég hygg það væri nú ráð að undirbúa nú betur þetta mál fyrir næsta Alþingi. Það er viðurkennt af hæstv. ráðh., að aðrar breyt. séu nauðsynlegar, og ég hef bent á, að ef gera eigi breyt., þá eigi önnur prestssetur að ganga fyrir en þau, sem n. tekur helzt til. Málið þarf sem sagt undirbúning miklu betri en þann, sem það hefur enn fengið. Ég tel, að hægt sé að skaðlausu að færa saman prestssetur og gera fleiri ráðstafanir, sem nemi til sparnaðar nokkrum tugum þúsunda. En í frv. er ekki um það að ræða. Og um allt slíkt þarf enn fremur að leita náins samkomulags við þá, sem byggja viðkomandi héruð.

Ég leyfi mér að óska þess, að n. taki gaumgæfilega til athugunar, hvort hún sjái sér ekki fært að leggja til, að Rafnseyri verði t.d. sköpuð einhver önnur kjör en að leggja þar niður prestssetur, slíkur staður sem hún hefur verið í sögu þjóðarinnar. Fyrir nú utan það t.d., að sá staður er tengdur minningu Jóns Sigurðssonar forseta, þá hefur þar um langt skeið setið merkisprestur og haldið skála, sem hefur útskrifað ýmsa beztu menn þjóðarinnar. Og þar eru miklir möguleikar til að skapa einhver þau verkefni, or verða mættu þjóðinni til blessunar.

Þá vildi ég einnig heyra frá n., hvort hún gæti ekki fallizt á, að rétt væri að flytja aftur prestssetur að Þingvöllum. Það þarf ekki að kosta ríkissjóðinn neitt meira en það kostar nú að halda þar uppi prestsþjónustu. Sömu launin eru nú greidd öðrum, sem geta ekki rækt starfið í hjáverkum eins og til verður að ætlast, þar sem ýmis verkefni bíða prests á þessum stað. — Þetta þótti mér rétt að láta koma fram, því að ég á ekki sæti í n. Og ég vænti þess, að hún taki þetta til athugunar. Og sem verandi formaður Þingvallanefndar vildi ég gjarnan hafa fulla samvinnu í sambandi við þetta mál við hv. menntmn.