23.11.1950
Efri deild: 24. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

95. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er nú ekki að undra þótt þetta mál sé nokkuð rætt hér í hv. d., svo viðkvæmt sem það er og svo ólíkar skoðanir sem menn hafa á málinu. Það hefur komið fram hér jafnvel hjá hæstv. ráðherrum, að hæstv. kirkjumrh. hefur allt aðra skoðun á málinu í heild en hæstv. dómsmrh. Og ég er sammála hæstv. kirkjumrh. um það, að það er ekki hægt að láta það vera ráðandi sjónarmið viðkomandi fækkun presta á landinu, að ekki hafi fengizt prestar í ákveðin brauð, sem viðkomandi sumum stöðum er m.a. af því, að það hefur verið búið þannig að þessum embættismönnum, að menn hafa ekki fengizt til þess að sækja þangað eða til þess að vera þar. Og á sumum stöðunum eru skepnuhús þannig, að það er ekki hægt að brúa á prestssetursjörðunum. Og m.a. vegna þess hefur ekki verið hægt að halda prestum þar. Sums staðar hefur helmingur jarðarinnar verið settur í lífstíðarábúð, sem orðið hefur til þess að útiloka, að prestur gæti fengið alla jörðina og til þess beinlínis að stjaka presti frá því að vera í prestakalli. Því að enginn prestur vill búa þannig á móti öðrum manni á jörð, hvernig sem hans skapgerð kann að vera að öðru leyti. Þetta hefur orðið til þess, að á sum prestssetur hafa ekki fengizt prestar. Og það er alveg rangt að láta slíkt verða síðar til þess, að prestssetur verði lögð niður. Það ber fremur að endurheimta þann rétt til prestssetursins, sem fenginn hefur verið ábúandanum á hálfri jörðinni. Á Brjánslæk hefur hálf jörðin verið sett í erfðaábúð, sem útilokar það, að nokkur prestur sæki um að vera þar. Á síðasta vori hefði fengizt prýðilegur ungur prestur þangað, ef ekki hefði verið búið að ráðstafa þannig jörðinni eins og ég hef lýst. Og svo ætti að leggja prestssetrið niður af þessum sökum. Nei, slíkt kemur ekki til mála.

En í sambandi við þetta mál vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. kirkjumrh., hvort það sé samkv. úrskurði ráðun. eða samkv. lagafyrirmælum að greiða presti hálf laun fyrir hvert prestakall, sem hann þjónar auk síns eigin prestakalls. Mér skilst, að þessu sé hagað þannig nú, að hver prestur, sem tekur að sér að þjóna prestakalli auk þess prestakalls, sem hann er skipaður í, fái hálf laun fyrir hvert prestakall, sem hann þjónar auk prestakallsins, sem hann er skipaður í, og ef hann þjónar t.d. þremur prestaköllum fyrir utan sitt prestakall, þá fái hann ein og hálf prestslaun fyrir utan full laun, sem hann fær fyrir að þjóna prestakallinu, sem hann er skipaður í. Nú vil ég spyrja hæstv. kirkjumrh., hvort hann telji ekki, að hægt sé að ráðstafa þessu heppilegar fyrir ríkissjóð, þangað til þessu verði eitthvað breytt ákveðið. Hæstv. ráðh. hefur að vísu upplýst, að svona sé ekki um Þingvallaprestakall, heldur kosti það sáralítið fé að fá tvo presta til þess að þjóna Þingvallaprestakalli. Og ef hægt er að ráðstafa einu prestakalli þannig, að hægt er að fá prest eða presta til að þjóna þar fyrir lífið gjald, hvers vegna er þá ekki hægt að hafa þetta þannig um fleiri prestaköll? Því að ef hægt er að semja við núverandi presta um að gegna þannig prestaköllum, þar til búið er að koma lagalegri skipan á þetta, þá er það ekki lítið spursmál fyrir ríkissjóð. — Ég harma það, að ekki skuli hafa verið tekið fastar á málum af hæstv. ríkisstjórn viðkomandi þessum tveimur prestaköllum, Rafnseyri og Þingvöllum. Ég hef ekki séð, hvað það kostar að þjóna Þingvöllum. En mér er ljóst, að það er engin sæmd að láta Þingvelli vera prestslausa og láta þá vera útkirkju frá öðrum prestssetrum. Og það má tryggja það, að þangað komi enginn vandræðaprestur. Það má gera með sérstökum l., til þess að setja þar heiðursprest, sem ákveðið væri, að skipaður væri af ríkisstj., en ekki kosinn af söfnuðinum. Og ég álít, að það þurfi ekki að kosta neitt verulegt fé. Það eru einmitt þær ástæður nú, að mjög auðvelt er að koma þessari breyt. á. Og ég teldi, að það væri mjög mikið til sóma fyrir landið, að það væri gert. Ég viðurkenni, að það er ákaflega erfitt að gera þetta á Rafnseyri. En þó er það svo, að ef farið væri inn á þessa braut, sem hæstv. dómsmrh. minntist á, að binda meir en gert hefur verið saman starf prestanna og fræðslustarf, þá mætti koma þar upp og starfrækja heimavistarbarnaskóla eða einhverja aðra fræðslustofnun, þar sem hægt væri að gera hvort tveggja, að láta prestinn starfa við þá stofnun samtímís því, sem hann rækti prestsembætti sitt. Það er ekki til sóma að láta þetta býli, Rafnseyri, traðkast niður og gera það þá síðar e.t.v. að eyðibýli, en hreyfa hvorki hönd né fót til þess að bjarga því sem býli frá glötun. — Ég vona, að n., sem fær þetta mál til athugunar, athugi, hvort ekki er hægt að gera eitthvað fyrir þessa staði annað en að gera þá báða að útkirkjum.