23.11.1950
Efri deild: 24. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (1612)

95. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það eru fáein orð. Fyrst er þetta viðkomandi hálfu laununum til presta. Um það atriði hef ég það að segja, að ég skal ekki fullyrða, hvort til er lagaákvæði um þetta. En hinu get ég lýst yfir, að það er margra ára venja að hafa þetta svona, og annað er jafnvíst, að ég hef engan slíkan samning gert, síðan ég varð ráðh. þessara mála. Hitt er annað mál, að ég get athugað, hverju er hægt um að þoka, en það er ekki auðvelt, þegar búið er að gera slíka samninga við prestana, að fara að rifta þeim með samkomulagi og greiða þeim minna en gert hefur verið undanfarið, því að ég geri ráð fyrir, að eins sé yfirleitt varið með presta og aðra menn, að þeir séu nokkuð fastheldnir á fé. En það má athuga, hverju verði um þokað, en á undanförnum árum hefur ekki verið horft í það, þó að þessar greiðslur væru nokkuð háar.

Viðvíkjandi Árnesi, þá er nokkru auðveldara um að dæma en í að komast. Íbúum Árneshrepps þykir ekki gott, að Árnes fari í eyði, þar er gott æðarvarp og jörðin ein sú bezta í landinu, en hún er mjög stór, og presturinn á erfitt með að nytja hana, nema hann sé mikill búhöldur. Þar hefur því verið fylgt þeirri reglu að skipta stórum prestssetrum, og var það gert eftir tilmælum nýbýlastjórnar. Og sá kirkjan hér vel fyrir sínum hag. Þetta er einkum gert vegna þess, að prestssetrin eru viða stærstu og beztu jarðirnar í landinu, og eru mörg svo stór, að útilokað er, að einn bóndi hafi þörf fyrir alla jörðina í mörgum tilfellum, þegar byggt er á ræktun, en ekki rányrkju.

T.d. hefur Grenjaðarstað verið skipt í 3 eða 4 parta. Og það er orðið erfitt að fást við prestana, ef þeir vilja ekki búa þar, sem fátt er fólk og lítið félagslíf, og ekki heldur, ef byggðin eykst og þrengist um þá, og ekki heldur, þó að presturinn hafi alveg heillega og sjálfstæða jörð, eins og t.d. í Árnesi, og landrými nóg. Þá má nefna eitt dæmi til, þ.e. Prestsbakki í Vestur-Skaftafellssýslu, en það er stór jörð, sem allir eru sammála um að skipta og presturinn líka, og er fyrirsjáanlegt, að það verður gert, og því verður haldið áfram um prestssetrin, því að prestarnir þurfa ekki að nota allt land þeirra. Þá mætti nefna sem dæmi um það; hve sumir prestar eru gefnir fyrir búskap, að það er ekki lengra en tveir tímar síðan maður kom til mín varðandi prestssetrið í Súgandafirði. Presturinn þar vill ekki búa á jörðinni, en annar maður býr þar sem stendur, en hann vill ekkert gera jörðinni til góða, því að hún verður alltaf að vera laus, ef presturinn kynni að vilja taka hana til ábúðar. Á meðan svo er ástatt, verður ríkissjóður að leggja fram fé til að koma í veg fyrir, að jörðin fari í eyði af því, að presturinn vill ekki búa þar. Sama er að segja um Stað í Steingrímsfirði. Það er ágæt jörð, einkum nú, af því að þar er heilbrigður sauðfjárstofn. Þangað fæst nú enginn prestur, og situr presturinn á Hólmavík. Það verður því að leigja jörðina eitt og eitt ár í senn, og það gefur að skilja, að á meðan svo er ásfatt, þá vill ábúandinn ekki leggja fram fé jörðinni til góða. Og svo ætti ekki að vera leyfilegt meðan svo er háttað að láta bændur hafa hluta af jörðunum! Í Árnesi er jörðin húsalaus, og bóndinn hefur sagt: „Ég skal byggja, en ekki á meðan ég hef aðeins eins árs ábúð á jörðinni.“ Og þá var jörðinni skipt, eins og ég sagði áðan, og tel ég það tvímælalaust réttu leiðina. Þetta ástand er mjög mikið áhyggjuefni, þegar áhugi fyrir ræktun og búskap eykst og marga vantar jarðnæði, að láta prestssetrin liggja lítt notuð, því að þessar jarðir níðast niður, og gæti ég nefnt mörg átakanleg dæmi um slíkt, t.d. vestan úr Dalasýslu. - Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég þarf sérstaklega að taka fram, en ég tel eðlilegast, af því að hér er um viðkvæmt mál að ræða, að sem flest sjónarmið komi fram í málinu áður en það fer til n. Ég geri einnig ráð fyrir, að hv. n. hafi samráð við menn þá, er sömdu frv. þetta, og taki auk þess tillit til athugasemda þeirra, sem hér koma fram.