23.11.1950
Efri deild: 24. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

95. mál, skipun prestakalla

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. 1. þm. N-M. vil ég taka það fram, að það er rétt, sem hv. þm. sagði, að fyrir einu eða tveim árum var samþ. hér í þinginu áskorun á ríkisstj. að láta undirbúa og semja heildarlöggjöf um embættismannabústaði. Skrifstofu þeirri, sem þetta heyrir undir, var svo falið að gera till. um þetta. Síðan var nokkuð að þessu starfað, og komu fram frumdrög að till. í þessu efni, sem þó var ekki hægt að byggja á. Þegar svo var komið málum, var stjórn sú, er þetta var falið, felld frá völdum, og síðan hefur lítið gerzt í þessu efni. En það er misskilningur, að þetta heyri undir dómsmrn., heldur frekar undir fjmrn. og þau ráðuneyti, sem þessi embætti heyra hvert um sig undir.

Ég er samt ekki að skjóta mér undan ábyrgð á þessum efnum, heldur mun ég ýta við þessu máli á ný, en það verður varla hægt á þessu þingi að leggja fyrir frv. um þessi efni, og væri eðlilegast, að það kæmi fram í sambandi við launalögin og lög um réttindi og skyldur embættismanna, því að þar á það heima. Ég vil taka það fram út af því, sem komið hefur fram hér í umr., að ég tel óvefengjanlegt, að eðlilegast sé að leggja niður þau prestaköll, sem enginn prestur hefur fengizt til í mörg ár. Reynslan er ólygnust, og hún sýnir, að engir prestar fást í þessi prestaköll, og því er heppilegast að leggja þau niður, en það haggar því ekki, sem hæstv. kirkjumrh. sagði og hv. þm. Barð. tók undir, að í einstökum tilfellum getur þetta ekki átt við. — Þá vil ég taka fram út af aths. hv. 1. þm. N–M., að ég var honum ekki sammála, aldrei þessu vant, þegar hann vildi láta prestana hætta að búa á sveitajörðum. Ég tel það einmitt verulegan þátt í starfi prestanna og muni auka þeim virðingu og aðstöðu til að verða til góðs, ef þeir halda áfram að búa á góðum jörðum og vera sveitarhöfðingjar, eins og þeir hafa verið margir hverjir á liðnum öldum, jafnhliða því sem þeir voru sálnahirðar, og væri þeim til stórvansa, ef þeir hætta að vera það.