26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

95. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem er til umr., kom fram snemma á þingi, síðari hlutann í nóvember, að mig minnir, og hefur legið til athugunar hjá menntmn. um tíma. Varð það úr, að n. treysti sér ekki til að styðja það eins og það lá fyrir, en var sammála um að gera breytingar á frv. og senda kirkjumálaráðuneytinu. Var það gert fyrir jól og eftir jól barst bréf frá kirkjumrn. Fellst það á till. n. að flestu leyti.

Tveir nm. voru fjarstaddir sökum veikinda, er málið var afgr., en aðrir nm. voru sammála um að bera það fram eins og það er nú á þskj. 529. Nefndin játar, að í raun og veru er það ofverk fyrir eina n. þingsins að gera allsherjar breytingu á skipun prestakalla í landinu. Þyrfti til þess milli þn. að öllum líkindum og miklu lengri tíma. En n. vildi ekki ganga fram hjá frv. og leggur því til, að þau prestaköll, sem enginn prestur situr í á þessum tíma, og eru þau mörg, sem hafa verið prestslaus um langan tíma, að þessi prestaköll verði sameinuð öðrum. Munu þau vera 9 alls. Má segja, að þessi prestaköll séu í niðurníðslu, og vantar þar flest til að messur geti verið fluttar. Getur verið, að kirkjur séu sums staðar í sæmilegu ástandi, en hús þarf víða að byggja upp eða eru á öðrum stöðum afar fornfáleg. Og þó að íbúðarhús séu sæmileg, þá þarf að byggja hús fyrir fénaðinn.

Þetta frv. var sent til umsagnar kirkjuráði, en hafði áður fengið umsögn Prestafélagsins. Kirkjuráð vill ekki prestakallafækkun, heldur fjölgun þeirra.

Í 3. lið þessarar umsagnar er þess getið, að við vitnum vitlaust til laga. Þetta hefur verið misskilið. Hér er um brtt. við frvgr. að ræða, en ekki lagagr. Þetta hafa þeir misskilið og sagt, að væri „óviðfelldið“. Væri óþarfi að ræða það frekar. — Vænti ég þess, að sá hæstv. ráðh., sem mestur þungi dagsins hvílir á, verði viðstaddur, en hann hefur hvarflað frá, en ég geri ráð fyrir, að hann komi aftur.

Ég þykist vita, að margar brtt. muni koma fram í sambandi við þetta mál. Er það oft svo, að menn vilja hafa hlutina svona, en ekki hins vegar. En einhvers staðar verður að hefja róðurinn. Ég geri ráð fyrir, að jafnvel þó þetta frv. komist ekki sitt endaskeið á þessu þingi, þá verði það tekið aftur upp á næsta þingi. Með þessu fyrirkomulagi eru launakjör presta mjög misjöfn. Svo ég nefni dæmi, þá hefur einn prestur hér hærri laun en nokkur embættismaður hér, að undanskildum forsetanum. Hann hefur 15 þúsund krónur auk verðlagsuppbótar, og auk þess 1500 króna skrifstofulaun. Eru þetta alls 16500 krónur að viðbættri verðlagsuppbót. Þessi ágæti maður er hafður til þess að halda við kristinni trú í Austur-Skaftafellssýslu. Auðséð er, að þessa hluti þarf að lagfæra, þó ekki væri nema jöfnun á launum presta. — Við höfum horft yfir landið og spurt kunnuga menn í þeim héruðum, þar sem fækkun er fyrirhuguð, og hygg ég, að þeir séu fáir, sem eru á móti þessari till. — Væri hæstv. ríkisstjórn heimilað að semja við annan nágrannaprest um, að hann gerði prestsverkin, svo að hann þyrfti ekki að hlíta ósanngjörnum kröfum. Mætti hann fá aðstoð annarra, ef á þyrfti að halda.

Margir sjá eftir því, ef gömul prestssetur eru lögð niður, og finnst úr sögunni sá vegur, sem hefur fylgt jörðinni sem prestssetri. Má segja, að þegar er horfið frá verndun búhags, og eru það margir prestar, sem hafa hvarflað frá jörðum sínum og leita til kaupstaðanna og halda sig þar, en leigja svo jörðina með vissum skilyrðum, sem ég veit ekki, hver eru. Sum prestaköllin hafa verið í auðn, og veit ég um eitt, sem er nærri mér, sem hefur verið í auðn á fjórða áratug, nema þrjú ár.

Ég held, að það verði enginn vábrestur fyrir kristna trú hér á landi, þótt fækkað verði prestssetrum, ef hægt er að gera að þeim prestssetrum, sem prestar sitja á, bæði húsa- og jarðabætur, ef þeir vilja búa og nýta jörðina. Þætti mér ekki lítilsvert að heyra raddir hv. þingmanna um, hvernig horfir um þetta mál, þótt ekki fáist þetta samþ., en það fer eftir því, hvað þing situr lengi.

Nú segja eflaust margir, að einstakir staðir séu svo veglegir, að ekki megi hætta að hafa þar prestssetur. En þó prestar séu ágætir menn, geta bændur alveg eins gert staðina veglega. Skal ekki langt seilzt um öxl, en t.d. Þingvellir hafa hafizt til enn meiri vegs eftir að þeir hættu að vera prestsjörð. Mætti svo lengi telja. Það getur verið, að sett verði fram brtt. um prestssetrafjölgun, en það verður að skeika að sköpuðu, og er ekki óeðlilegt að ræða málið frá þessum grundvelli.

Ég tel, að ekki muni allir vera viðhlæjendur mínir í þessu starfi mínu. Þessi kross er lagður mér á herðar, og verð ég að bera hann. Ég býst við, að hann þyki frekar lagður á bak en brjóst. N. er sammála um að fara ekki lengra í þessu máli en hóflegt þykir og svo að hv. þm. gætu fylgt okkur.

Ég sá hæstv. kirkjumrh. bregða hér fyrir, og vona ég, að hann komi hér inn og árétti og lagfæri mína framsögu, sem ég ætla ekki að hafa lengri.