26.01.1951
Efri deild: 56. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

95. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég þakka n. fyrir að hafa komið þessu í aðgengilegra horf en þegar það kom frá hæstv. ríkisstjórn. Er ég í aðalatriðum sammála. En eitt atriði er það samt, sem ég hefði kunnað betur við öðruvísi. Það, að hún kallar prestaköllin eftir gömlu prestssetrunum, t.d. Þóroddsstaðaprestakall, þegar búið er að byggja á Vatnsenda og presturinn er þar. Ég vil, að það sé kallað Vatnsendaprestakall. Og svo t.d. Viðvíkurprestakall, prestssetrið er nú flutt að Hólum, því ekki að kalla það Hólaprestakall? Einnig er óviðeigandi að kenna prestssetrið við Þykkvabæ. Það er langt síðan presturinn flutti að Ásum, og nú er verið að byggja þar, og þar mun prestssetrið verða.

Þetta vildi ég biðja nefndina að athuga. Ég kann betur við, að prestaköllin séu nefnd eftir þeim stað, sem presturinn býr á, og telja svo upp sóknirnar á eftir. Hví skyldi kenna þau við eldri staði, sem búnir eru að vera? — Þetta vil ég biðja n. að athuga og lagfæra til 3. umr. Það fer betur á því að kenna prestaköllin við núverandi prestssetur, en ekki þau, sem einu sinni voru, t. d í tíð foreldra okkar eða afa og ömmu.