30.01.1951
Efri deild: 58. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

95. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef ekki margt að segja um þetta mál frá því sem var við 2. umr. þess. Það er náttúrlega ýmislegt, sem hægt væri að svara úr hinni hógværu ræðu hv. þm. Barð., en ég var að nokkru leyti búinn að minnast á þá hluti við 2. umr. málsins. Því er þannig farið með þetta mál, að það er ekki ætlunin að tjalda nema til einnar nætur með þessu frv., sem hér liggur fyrir, og eins og ég hef tekið fram áður, er aðaltilgangur þess sparnaður og að kirkjumálaráðuneytið hafi frjálsar hendur til ráðstöfunar á þeim prestaköllum, sem nú eru laus, og að það sé ekki bundið á annan hátt af ríkissjóði. Nú veit ég, að það hafa verið uppi raddir um að fjölga prestaköllum, þar sem fólkið hefur sótt að, og meira að segja hafa tveir nm. uppi óskir um það, að prestaköllum fjölgaði; það eru þeir hv. uppbótarþingmaður G-K. og hv. þm. Reykv. í nefndinni. En samt sem áður hafa þessir 2 þingmenn litið svo á, að það væri rétt að láta þetta frv. ganga fram. Við nm. erum sammála um það, að það verður að fara fram endurskoðun á þessum málum síðar, en slík endurskoðun var síðast gerð 1905, og var þá sett milliþinganefnd til að rannsaka þetta mál, því að það er svo mikilsvert. Því tók nefndin það ráð nú að taka aðeins þau prestaköll og leggja niður, sem minnstur styr stóð um og þar sem fólkinu hafði fækkað mjög og viðkomandi þm. óskaði ekki sérstaklega eftir, að því yrði haldið. Ef á annað borð er ætlunin að spara með því að fækka embættismönnum, þá verður þessi leið ekki sniðgengin. Í því kjördæmi, sem ég tel mig vera nokkuð riðinn við, á að fækka prestaköllunum um eitt, og ég segi fyrir mig, að ég geng ekki glaður til fylgis við það atriði, þótt ég telji rétt að fækka þannig heldur um embættismenn. Um dagskrártill. hv. þm. Barð. vil ég segja það, að mér finnst í sambandi við heiðursprestaköllin, að það efni ætti frekar heima í sérstöku frv., og ef ætti að fara að ræða það á annað borð, þá væri naumast hægt að ganga fram hjá jörðinni Skálholti í því sambandi. Og sama er að segja um Hóla í Hjaltadal, að þar ætti þá líka að vera heiðursprestakall. Í sambandi við hugmynd hv. þm. um hlutverk heiðursprestsins á Þingvöllum, þá skilst mér, að það geti orðið þröngt fyrir dyrum hjá prestinum, ef hinir tignu erlendu gestir eiga að troða sér inn í bústað hans. Ég hygg það mundi þá vera heppilegra að byggja yfir þá sérstaklega. Ég tel, að hv. þm. hafi ýmislegt til síns máls, en eins og hér er komið málum, tel ég heppilegra, að hann spyrni nú ekki á móti þessari sparnaðarráðstöfun með því að blanda till. sinni um heiðursprestaköll inn í þetta mál. Það getur svo komið tími til ráða um það, hvað gera eigi í þessu máli um heiðursprestaköllin. Annars finnst mér, að það gætu þá verið vígslubiskupar, sem á þeim sætu, og þeirra hlutverk gæti þá verið m.a. að greiða götu útlendinga. Ég held, að verði nú farið að elta uppi allar sóknarnefndir til að fá umsagnir þeirra, þá muni það bera lítinn árangur. Við vitum, að það mundi fara svo, að þær æstu sig upp saman gegn málinu, og það eina svar sem við fengjum frá þeim, yrði bláköld neitun. Þetta vitum við ósköp vel. Nú, við biskup erum við löglega afsakaðir, að spyrja hann ekki ráða, því að hann mun nú kominn vestur og suður í Mexíkó.

En plagg það, sem frv. þetta er byggt á, er þó komið frá fulltrúa hans á biskupsskrifstofunni. Því held ég það væri heppilegra fyrir hv. þm. Barð. að fylgja nú þessu frv., jafnvel þótt það nái ekki til ríkis hans, og ég skil ósköp vel hans þenkimáta og lái honum ekki, þótt honum þætti skemmtilegt að sjá veglegar byggingar blasa við á Rafnseyri, er hann sigldi inn Patreksfjörðinn, og vita, að þar situr höfuðklerkur í stóli. Ég skil þetta sjónarmið hans, en ég held það væri þó réttara, að hann léði frv. fylgi og tæki aftur dagskrártill. sína. Því að hvort sem þetta frv. nær fram að ganga eða ekki, hvort sem það verður svæft í Nd. eða ekki, ef það kemst þá með lífsmarki frá hv. þm. Barð., þá er samt rétt og sjálfsagt að vinna að frekari breyt. á skipun prestakalla frá því, sem nú er. Og ég vil taka fram, að með þessu frv. er alls ekki ætlunin að stugga neinum presti úr sínu prestakalli. Það á ekki að ýta við eldri prestum, nema þá þeir sjálfir eða sóknarbörn þeirra óski eftir því, en hins vegar leggja þau prestaköll niður, sem enginn sækir um og enginn prestur hefur verið í um langt skeið og byggingar máske orðnar óhæfar. Og ef þetta frv. nær ekki fram að ganga, þá sýnir það sáralítinn vilja hjá Alþingi til að spara í embættisrekstrinum, og hefur þó stundum kveðið við annan tón, þegar um hefur verið að ræða hærri laun eða skipun nýrra embætta.- Þetta vildi ég segja nú um þetta frv. og hef þar engu við að bæta. Það verður að láta guð skipta giftu um það, hver örlög þess verða, hvort það nær samþykki hér í þessari deild og hvað hv. Nd. gerir svo við það.