30.01.1951
Efri deild: 58. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

95. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil ekki teygja lopann mikið um þetta mál og sé ekki ástæðu til að svara frekar skeytum, sem kynni að verða beint að því nú á eftir í umræðunum. En ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér aftur hljóðs, er sú, að ég gleymdi að skýra frá þeim brtt., sem nefndin ber fram á þskj. 580. Varð nefndin sammála um allar breytingar, sem þar koma fram, en þær eru gerðar samkv. ýmsum bendingum, sem n. hefur fengið, m.a. frá 1. þm. N-M. Sú fyrsta er þess efnis, að í stað Hólma í Reyðarfirði komi Eskifjörður, en þar mun búið að skipta um prest og þótti rétt að flytja prestakallið til Eskifjarðar. Sama er að segja um Hof í Álftafirði, að presturinn er fluttur þaðan til Djúpavogs. Um Garða á Akranesi er svipaða sögu að segja, að það mun vera komið upp prestshús á Akranesi, og þótti því rétt að kenna prestakallið við Akranes. Um Eyrar, áður Vatneyri og Geirseyri, er hið sama að segja, að okkur þótti rétt að kenna prestakallið við Patreksfjörð. Um 5. brtt. er það að segja, að n. vildi taka það fram, að Blönduóskauptún skuli framvegis vera allt í sömu kirkjusókn, en áður var það svo, að Blanda klauf það í tvær sóknir, en síðan brúin kom á ána virðist ekki rétt annað en hafa kauptúnið allt í sömu sókn, enda ólíkt styttra fyrir sóknarbörnin að fara yfir brúna en að þurfa að sækja kirkju að Holtastöðum í Langadal. Nú var það, að þegar búið er að reisa prestssetur á Hólum, þá vildum við ekki ganga fram hjá því lögboði og vildum því kenna Viðvíkurprestakall við Hóla. Þá var það talið eftir nokkra athugun fjarri lagi, að Lundarbrekkusóknum skyldi þjónað úr Mývatnssveit, en rétt væri, að þær fylgdu Þóroddsstaðaprestakalli, sem væri þó rétt að kenna við Vatnsenda, því að þar mun presturinn búa. — Og hvað sem annars má segja um verk okkar, býst ég við, að þessar brtt. okkar verði ekki mikið krítiseraðar. Ég hef svo ekki meira við þetta að bæta og mun ekki taka frekar til máls í málinu.