02.03.1951
Efri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

95. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur tekið allverulegum breyt. í hv. Nd. Það er komið nú í það horf, að hér er um að ræða að vísu víðtækar breyt. á prestakallaskipuninni í landinu, án þess að samráð hafi um það verið haft við kirkjuyfirvöldin, biskup eða viðkomandi sóknarnefndir. Um málið hefur orðið töluvert ósamkomulag í hv. Nd., en verið þó sætzt á að afgr. það eins og það liggur fyrir á þskj. 726, og er þess getið í nál., að það sé gert til þess að fá samkomulag við ráðherra. sem gerir það að ákaflega miklu kappsmáli að fá málið fram nú, án þess að láta þá athugun fara fram um það, sem gert er ráð fyrir í bráðabirgðaákvæði frv. Það, sem eftir er af frv., er það, að það má ekki gera neinar breyt. á prestakallaskipuninni á árinu 1951, en frv., ef að l. verður, getur ekki komið til framkvæmda fyrr en eftir næstu áramót. Hins vegar hefur verið sett bráðabirgðaákvæði í frv. um, að ríkisstjórnin skuli nú þegar efna til endurskoðunar á löggjöfinni um skipun prestakalla, og skuli þá kostað kapps um að ljúka endurskoðuninni svo fljótt, að frv. um heildarskipun prestakalla verði lagt fyrir Alþingi næsta haust.

Þetta bráðabirgðaákvæði sýnir, að það þykir einmitt nauðsynlegt að breyta ekki skipun prestakalla í landinu, nema að undangenginni þeirri athugun, sem gert er ráð fyrir hér í bráðabirgðaákvæðinu. Þegar svo litið er á það, að ekkert af þessu, sem í frv. er lagt til að lögfesta, má koma til framkvæmda, að því er breyt. við kemur, á þessu ári og ekki fyrr en á næsta ári, þá er mér a.m.k. alveg óskiljanlegt það kapp, sem liggur hér á bak við það að fá þetta frv. gert að lögum á þessu þingi, sem þó verða ekkert annað en pappírsgagn allan þann tíma, sem rannsóknin á að fara fram á, og væntanlega nokkurn tíma eftir það, þar til nýtt frv. kemur fram um málið. — Ég hef því borið fram brtt. við frv., um að 1.–3. gr. frv. falli niður og að fyrri málsgr. brbákv. falli niður, en að það, sem haldist eftir í frv., verði síðari málsgr. brbákv., og enn fremur hef ég lagt til, að fyrirsögn frv. verði breytt, þannig að í stað „breyting á lögum“ komi: viðauka við lög. Það eru ekki eins dæmi, að samþ. sé sem lagabreyt. eða sem viðauki við lög, að ákveðið sé að fela ríkisstj. að láta fara fram rannsókn á gildandi lögum og að leggja fyrir Alþ. innan viss tíma tillögur um breyt. á þeim lögum, og skal ég nefna sem dæmi, að það var sett inn í l. um almannatryggingar, þegar það þótti dragast úr hófi fram, að endurskoðun færi fram á þeim, bráðabirgðaákvæði um, að það skyldi fara fram endurskoðun á þeim l. innan ákveðins tíma. Og það lá þá fyrir, að það var það eina, sem dugði til þess að knýja fram endurskoðun á þeim lögum þá. Eftir minni till., ef brtt. mín væri samþ., þá þýddi samþ. hennar það að knýja fram endurskoðun á lögunum um skipun prestakalla á þann hátt, sem telja má sanngjarnan og viturlegan. Því að ég tel ekki viturlegt það, sem hæstv. kirkjumrh. vill, sem einn hér slær í borðið og vill knýja þetta mál fram nú, þrátt fyrir vilja biskups og kirkjuráðs, og þrátt fyrir vilja meiri hl. menntmn., eins og nál. sýnir, sem eins og ég vill ekki, nema að betur athuguðu máli, leggja til meiri fækkun prestakalla en samkv. till. meiri hl., og þrátt fyrir vilja annarra aðila, sem um þetta mál eiga að fjalla að réttu lagi. — Þess vegna vænti ég þess, að mín brtt. verði samþ.

Vil ég svo í sambandi við málið sjálft benda á, að ég tel það ákaflega illa að farið, hvað sem öðru líður, að leggja niður prestssetur á Rafnseyri. Ég tel, að með því sé allt of lítil virðing sýnd minningu Jóns Sigurðssonar og minningunni um það, að hann var þar fóstraður og að þetta er sá staður, þar sem hann stundaði sitt nám í föðurgarði allt fram að stúdentsprófi, ef á að fara að leggja þetta prestssetur niður og þessi kirkja á að vera útkirkja annars prests, sem ekki býr þar. Þetta getur ekki verið fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð undir neinum kringumstæðum, og ég tel ósæmilegt fyrir Íslendinga að leggja niður prestssetur þarna. Ég viðurkenni það, að þessi hreppur, sem Rafnseyri er í, er fámennur. Þar eru þrettán býli í eyði. En það er aðeins stundarfyrirbrigði. Þar eru að vísu ágætar jarðir í eyði. En komi það til framkvæmda, sem ég veit, að muni verða áður en mjög langur tími líður, að virkjaðir verði Dynjandisfossar og fleiri vatnsföll í þessum hreppi, þá munu verða straumhvörf í sambandi við fólksfjölgun í þeim hreppi. Auk þess minni ég á, að úr þessum fámenna og fátæka hreppi hafa komið margir ágætismenn í sjómannastétt landsins. Það er illa farið, að það skuli fást nokkurt fylgi með því að leggja niður þetta prestakall, því að prestur, sem þar væri, mundi verða mönnum þarna stoð og stytta í lífsbaráttu fólksins. Ég tel því alveg óviðeigandi að fara þannig að eins og hér er gert, og sérstaklega óviðeigandi af hæstv. kirkjumrh. að berjast fyrir því eins og hann gerir. — Vænti ég, að mín brtt. verði samþ.