03.03.1951
Efri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

95. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins benda hæstv. ráðh. á, að í nál. á þskj. 714, frá menntmn. Nd., þar stendur, með leyfi hæstv. forseta, svo: „Ráðherrann hefur lagt áherzlu á, að málið gangi fram á þessu þingi. Biskup og kirkjuráð telja nauðsynlega gagngera endurskoðun á löggjöfinni um skipun prestakalla, áður en framkvæmd sé niðurlagning einstakra prestakalla, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Eftir ýtarlegar umræður í nefndinni náðist samkomulag um málið á þeim grundvelli, að nefndin mælir með afgreiðslu þess með eftirfarandi breytingum:“ . . . o.s.frv.

Það er m.ö.o. hæstv. ráðh., sem knýr málið fram, móti vilja biskups og kirkjuyfirvaldanna. Enda hefur biskup lýst yfir við mig hér á Alþ., þegar hann hlustaði á umr., að hann væri alveg mótfallinn meðferð málsins á þennan hátt, hann yrði bara að beygja sig fyrir hæstv. ráðh. — Nú er það ekki eingöngu vegna þess að biskup og kirkjuráð eru á móti þessu, að ég beiti mér fyrir þeirri meðferð á málinu, sem ég hef gert. Ég veit, að sóknarnefndirnar í landinu eru á móti þeirri meðferð málsins, sem hér virðist eiga að hafa á því. Og ég veit, að hæstv. ráðh. er svo kunnugt um baráttu þessa fólks, að hann veit, að því er ekki sama, hvort því er tryggður prestur eða ekki. Við vitum, að það hefur ekki verið mikil eftirsókn eftir prestaköllum oft á undanförnum árum. En nú er þetta að gerbreytast. Nú er að fjölga mikið í prestastéttinni. Og ég sé ekki, hvort hæstv. kirkjumrh. þarf að brjóta mikið lög, þó að hann setji presta í þessi embætti, þar sem prestaköll losna í ár, í stað þess að veita þau, þar til búið er að endurskoða lögin. Ég veit ekki betur en vitamálastjóri hafi sett mann í sitt embætti öll þau ár, sem hann sat í ráðherrastóli. Og sama hefur gilt um fleiri embætti, til þess að viðkomandi menn gætu horfið í þau aftur, ef þeir hafa viljað. — Ég fellst á rök hæstv. ráðh. um Auðkúlu, að það væri ekki vit í að veita það prestakall nú á ný. Og svo er um fleiri prestaköll á landinu. Hins vegar vil ég benda hæstv. ráðh. á, að prestssetur á ekki sök á því, að ekki er sótt um viðkomandi brauð, heldur er það mest Alþ. og ríkisvaldið. Því að það hefur ekki verið búið svo að prestssetrunum, að þeir hefðu skýli yfir höfuðið að hægt sé að segja, sem þar kynnu að hafa ætlað sér að vera, né möguleika til þess að búa á viðkomandi jörðum. T.d. er það svo um Sauðlauksdal, að þar er ekkert útihús, þar sem hægt sé að setja nokkra skepnu inn í, og hefur ekki verið síðan sr. Þorsteinn heitinn dó. Hann var ágætur prestur en hrökklaðist þaðan, af því að ráðun. neitaði honum um að byggja upp á jörðinni. Hann fékk lítillega aðstoð til þess að hlúa að sjálfum prestsbústaðnum, en meira ekki til endurbóta á húsum þar, en það, sem gert var við hann, er farið forgörðum nú og hefur skemmzt miklu meir en sem viðgerðinni nam, síðan flutt var af jörðinni, af því að enginn hefur verið þar. Og þetta er af því, að neitað hefur verið um tiltölulega litlar upphæðir til þess að koma upp útihúsum. Nú situr því presturinn, sem þarna þjónar, ekki í Sauðlauksdal, heldur í öðrum hreppi. Og fleiri prestssetur þekki ég enn fremur, t.d. Brjánslæk, sem hafa verið prestslaus árum saman, þannig að þar hefur ekki búið prestur. Og hvers vegna er það? Það er vegna þess m.a. að því er Brjánslæk snertir, að kirkjumrn., sem fór með þessi mál í forsætisráðherratíð hæstv. núv. kirkjumrh., byggði helminginn af þessari jörð ævilangt þeim, sem fékk hana á leigu, og útilokaði með því möguleikann fyrir því, að nokkur prestur sækti um að búa þar. Því að það að byggja prestssetur þannig, útilokar það, að nokkur prestur geti verið þannig í sambýli við nokkurn bónda — þó ekki sé talað um þá sjúkdóma, sem þarna hafa átt sér stað. — Þetta hafa kirkjuyfirvöldin gert. Og það er sorglegt með þá jörð, að fyrir þessar sakir skyldi vera gert ómögulegt, að prestur gæti sótt þangað, allan þann tíma, sem þessi háttur hefur verið hafður á um þessa jörð, þó að það sýnist svo, að það hefði verið hægt að bjarga þessu við. Og eftir að svo búið er að fara þannig að gagnvart þessu prestssetri, sem orsakar, að enginn prestur sækir þangað, er það nú lagt til, að þetta prestakall verði lagt niður. Og ég tel þetta mjög illa farið, ef þetta frv. nær fram að ganga. Þetta er gegn vilja og hagsmunum fólksins sem býr í þessu byggðarlagi. Og það er vitað, að þessar till. til breyt. á lögunum eru ekkert annað en kák. — Í sambandi við Kollafjarðarnes vil ég taka það fram, að tveir prestar hafa komið til mín, annar frá Stað í Steingrímsfirði, og sagt, að það væri hreinasta firra að hugsa sér að ráðstafa þannig prestaköllum á Ströndum eins og gert er ráð fyrir í frv. þessu, því að það sé útilokað, að einn prestur geti annað eins miklu á þeim stöðum og hér er gert ráð fyrir, og að það, sem ég lagði til. að sett yrði upp prestssetur á Drangsnesi og síðan yrði skipað sóknum þannig, að þarna séu áframhaldandi þrír prestar milli Árness- og Melstaðarsókna, sé það rétta.

En þrátt fyrir það, sem ég hef sagt um aðra staði hér, er mér langsárast um Rafnseyri, af þeim ástæðum, sem ég hef lýst. Og ég vildi spyrja hæstv. ráðh., — því að mér skilst, að ekki sé hægt að leggja Rafnseyrarprestakall niður á þessu ári, þó að frv. verði að lögum, — hvort hann sjái sér ekki fært að taka ekki fullnaðarákvörðun um það prestakall, sem Rafnseyri heyrir undir, heldur fresta þessari ráðstöfun þangað til búið er að endurskoða löggjöfina um skipun prestakalla. Því að ég er ekki einn um það að vilja ekki láta afnema Rafnseyri sem sérstakt prestakall.