04.03.1951
Efri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

95. mál, skipun prestakalla

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er ekki rétt að lengja þessar umr. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það, sem ég hef sagt. En ég vil þó segja það, að það er alveg rétt hjá hv. þm. Barð., að það gengur of seint með húsbyggingar á prestssetrum. Það er ágætt, að hv. þm. Barð., sem er form. fjvn., minnist á þetta, og ég mun þá mega vænta þess sem kirkjumrh., að hann styðji mig í þessu máli. (GJ: Það er ekki víst, að ég verði það næst). Því að rétt áðan var hann að minnast á það, sem ég líka var rétt áðan að minnast á, að ekki væri greitt til þessara framkvæmda umfram ákvæði fjárlaga. Það má nefna það sem dæmi í þessu sambandi, að búið er að lofa því að byggja upp í Eydölum eystra (PZ: Það er byrjað á því.). sem er a.m.k. merkilegur staður í þessu landi, því að þaðan er einn af ágætustu ættstofnum, sem til er í þessu landi. svo sem flestum mun kunnugt. Og Eydalir eru einn merkasti staðurinn austanlands af prestssetursjörðum. Presturinn varð að flýja þaðan í tvö ár — þrátt fyrir vilyrðið um, að byggt yrði á jörðinni — vegna þess að það fennti inn um húsið.

Þessi prestaköll, sem ég vil leggja niður, eru flest þannig, að það er ekkí hægt að vera þar. Og ég er viss um, að það er betra fyrir sveitir landsins að hafa presta þar í samræmi við það, sem þörf er á, en gera sæmilega við prestana og sjá um, að byggt verði yfir þá og að þeir hafi peningshús á jörðunum og sjá um, að þeir geti búið sæmilegum búskap. Það er enginn ávinningur fyrir landið að hafa of marga presta, því að ef það er, þá verður afleiðingin sú, að illa er gert við þá suma, svo að þeir verða ekki sú stoð og stytta, ef illa er að þeim búið, sem þeir annars gætu verið, ef þannig væri að þeim búið, að prestsstarf verði eftirsótt starf fyrir dugandi menn. En við getum, því miður, ekki sagt nú, að eins og búið er að prestunum, þá séu prestarnir yfirleitt sérstakir leiðtogar á þeim stöðum, þar sem þeir eru í sveitum landsins, þó að þeir séu það nokkrir. Þess vegna er vitanlega nauðsynlegt, og það sá n., sem undirbjó málið, að um leið og prestum er fækkað í sveitum og tölu þeirra stillt í nokkurt hóf, þá er meiri von til þess að geta búið sæmilega að þeim prestum, sem eftir eru, og fá þangað góða og dugandi menn. En að láta fjölda prestssetra vera í fullkominni óreiðu, eins og nú er, getur ekki gengið áfram, og þess vegna álít ég það skref í rétta átt að byggja á þessari niðurstöðu. En það þurfti enginn að láta sér detta í hug, að þetta mál gæti gengið fram í fyrsta sinn, sem það er tekið fyrir, til þess er þetta allt of viðkvæmt mál, til þess þurfti vitanlega viðunandi áfanga. Viðkomandi Rafnseyri þá vil ég benda á það, að í 3. gr. stendur, að l. gangi ekki í gildi fyrr en 1. jan. 1952, og þar er gert ráð fyrir því, að endurskoðun á þessari löggjöf verði hafin bráðlega og þá er það að sjálfsögðu á valdi Prestafélags Íslands og biskups, sem telur sig hafa mikinn áhuga fyrir endurskoðun, hvað snemma er lokið þeirri endurskoðun, en væntanlega verður henni lokíð fyrir næsta þing, þannig að málið geti þá legið fyrir. A.m.k. verður nægur tími til þess að taka það mál til endurskoðunar fyrir 1. jan. 1952. Ég skal svo ekki, þó margt mætti um þetta mál segja, tefja tímann með því að lengja mál mitt.