02.03.1951
Efri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

95. mál, skipun prestakalla

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef innan menntmn., síðan ég kom hingað, haft sérstöðu um þetta mál. Þegar það var afgr. héðan úr d., þá greiddi ég atkv. á móti því, en hafði ekki haft aðstöðu til að fylgjast með því innan n. áður. Nú hefur, eins og hv. frsm., 11. landsk., tók fram í sinni framsöguræðu, á þessum eina fundi, sem menntmn. hélt, verið samþ. að koma ekki með brtt. við frv. eins og það kom frá Nd., en ég hafði þá sérstöðu í þessu máli, að ég var því mótfallinn. — Ég vil ekki lengja umr. um þetta mál mikið úr þessu, því ég get ekki fært rök fyrir þessu áliti nema í löngu máli, og þetta er svo mikið rætt. Ég hef orðið var við það, að prestar og fleiri menn álíta óráðlegt að láta þetta mál ganga fram á þessu stigi eins og það liggur fyrir. Ég vil í tilefni af því, sem hæstv. kirkjumrh. sagði í sinni fyrri ræðu, aðeins benda á, að hann minntist á, að þetta frv. hefði verið undirbúið af prestakalla nefnd. Þetta er rétt, en ég vil í því sambandi benda á, að þessi n. fór langtum víðtækara út í þetta mál, hún minntist t.d. á sjóðsstofnun, ræktun á prestssetursjörðum og hýsingu á prestssetrum, bæði íbúðarhús og peningshús, til þess að gera prestunum viðunandi að búa á þessum jörðum. En það, sem mér finnst hafa vakað fyrir þessari n., það er að koma allsherjar lögum og betri skipan á þessi mál en nú er, og mér finnst, að þeir hafi lagt áherzlu á, að það þyrfti að gera prestunum mögulegt að búa á jörðunum. En svo hafa þeir líka getað hugsað sér það að fórna einhverju í þessu skyni, og þá fara þeir inn á þá braut að fækka prestssetrum, en frv. tekur aðeins til meðferðar fækkun prestakalla og annað ekki. Ég vildi aðeins benda á þetta um leið og ég geri grein fyrir afstöðu minni. Ég lýsti því yfir í menntmn., að ég mundi ekki koma með brtt., þó að ég væri mótfallinn málinu, en ég vil lýsa því yfir um leið, að ég mun greiða brtt. hv. þm. Barð., á þskj. 735, atkv., þar sem það er sama og að fella málið, ef sú till. er samþ.