01.03.1951
Efri deild: 79. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Stjórnin hefur lagt hér fram frv., sem fjallar um þrjú óskyld atriði.

Í fyrsta lagi er breyting á l. nr. 35/1950, um verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm. Ágreiningur hefur orðið um, hvernig skilja skuli orðalagið á 1. málsgr. 4. gr. þessara laga, og hafa góðir lögfræðingar skipazt þar bæði með og móti. Er lögin voru sett, var það tilgangurinn með þeim, að fjárhagsráð hefði heimild til þess að ákveða hámarksverð á hvaða vörur sem væri, en ekki skyldi fjárhagsráð þó ákveða hámarksverð á allar vörur. Þess vegna er það tilgangurinn með þessu frv., að tekinn sé af allur vafi um, hvernig skilja beri þessa grein, og um leið getur fjárhagsráð afnumið þau verðlagsákvæði, sem það sjálft hefur ákveðið. Ég skal taka fram í sambandi við þetta og samkv. yfirlýsingu ríkisstj., að hún hefur komizt að samkomulagi við útvegsmenn á þeim grundvelli, að þeir fái hlunnindi af sérstökum vöruinnflutningi, og komi þær vörur, sem settar verða í því skyni á sérstakan frílista, ekki undir verðlagsákvæði. Mun stjórnin sjá um, að þetta samkomulag verði haldið, þótt það sé ekki sett í lög. Í öðru lagi óskar ríkisstj. eftir því að fá að nota þá yfirdráttarheimild, sem Ísland hefur fengið með samningi hjá Greiðslubandalagi Evrópu sem þátttakandi í þeirri stofnun. Á þessari stundu ætlar ríkisstj. ekki að nota þessa heimild, en vill þó hafa hana til taks, ef hún álítur nauðsynlegt að grípa til hennar. En ég vil taka það skýrt fram, að þetta á ekki á nokkurn hátt að verða eyðslueyrir.

Sá erlendi gjaldeyrir, sem bankarnir fengju til umráða frá Greiðslubandalaginu, yrði greiddur í íslenzkum krónum og andvirðið sett á sérstakan reikning í Landsbanka Íslands og varið til að endurgreiða yfirdráttarlánið, er gjaldeyrisástæður leyfa, enda má ekki nota féð til annars. — Þessi yfirdráttarheimild, sem flest ríki fengu, sem í bandalaginu eru, byggist á því, að fyrstu 3 millj. dollara, sem teknar eru, er hægt að fá án þess að greiða jafnhliða í gulldollurum. En er komið er yfir 3 millj. dollara skal greiða 20% í gulldollurum. Þannig þyrfti. ef þessi heimild yrði notuð, að greiða 200 þús. kr. í gulldollurum. Á þessi greiðsluheimild að greiðast frá 1. júlí 1952 með þriggja ára greiðslufresti, svo að það samsvarar 4 ára greiðslufresti, og þarf að greiða 23/4% í vexti. Er gengið út frá því, að þau lönd, sem nota slíka yfirdráttarheimild, geri samninga við lönd, sem eru í bandalaginu, þegar samningsfresturinn er útrunninn, en ef samningar takast ekki, koma í gildi þeir þriggja ára greiðslufrestir, sem ég gat um. — Ríkisstj. gerir ekki ráð fyrir, að hún þurfi að grípa til þessa, en vill hafa þessa heimild samt sem áður, ef hún telur nauðsyn bera til að nota hana.

Hið þriðja atriði er, að ríkisstj. leggur til, að 31. gr. i. nr. 100 29. des. 1948 verði lögð niður. En þessi grein fjallar um 20% gjald af matsverði bifreiða, sem seldar eru innanlands.

Er þetta gjald var sett, var áberandi svartur markaður á bifreiðasölu, og var þetta gjald bæði sett til þess að hefta svarta markaðinn og til þess að ríkið fengi hlutdeild í þessum gróða. En þessi skattur hefur bæði brugðizt að mestu leyti og verið ákaflega óvinsæll, og það virðist einnig mega segja, að svartur markaður á þessari vöru sé að hverfa, því að bílar hafa hækkað svo í verði, að þeir eru komnir upp í það verð nú, sem gilti, er svarti markaðurinn var í algleymingi. Auk þess hafa bifreiðavarahlutir verið settir á lista þann, sem útvegsmönnum er ætlaður, og má gera ráð fyrir, að þeir hækki eitthvað í verði. Þykir því sanngjarnt, að þessi skattur verði leystur af bifreiðaeigendum.

Ég ætla svo ekki að þessu sinni að segja meir þessu frv. til skýringar. Ég legg til, að því verði vísað til 2. umr. og fjhn. að þessari umr. lokinni, og vegna þess, að gert er ráð fyrir, að þinginu verði slitið næstu daga, og þær ráðstafanir, sem bundnar eru við þetta, þurfa að komast í gegn, vil ég mælast til, að þetta mál verði tekið fyrir hér í deildinni á morgun og þá afgr. út úr deildinni, svo framarlega sem fundur verður í þessari hv. deild á morgun.