01.03.1951
Efri deild: 79. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 4. þm. Reykv. spurði, hvort ríkisstj. hefði í huga að afnema öll hámarksákvæði, vil ég segja það, að ég get ekki sagt, hvað ríkisstj. hefur í huga; um það hafa enn ekki verið teknar ákvarðanir, og get ég ekki gefið neina yfirlýsingu um það fyrir fram.

Um listana er það að segja, að þeir munu koma fram strax og hægt verður, og hygg ég, að það ætti að geta orðið upp úr helginni.

Um það, sem hann sagði, að ríkisstj. ætti að leita heimildar Alþingis um þessar ráðstafanir, enda þótt hún telji sig hafa fulla heimild til þeirra samkv. gildandi lögum, vil ég þá spyrja þennan hv. þm., hvort hann telji ekki, að ráðh. Alþfl., sem framkvæmdi ákvæðin um hrognapeningana, hafi fylgt þingræðinu, eða hvort hann hafi þá ekki brotið af sér á sama hátt og ríkisstj. gerir nú. En það bar ekki á því þá, að þessi hv. þm. hefði nokkuð við þetta að athuga, er þessi samþykkt var gerð, og er hún þó alveg sama eðlis og það, sem hér er um að ræða.

Hv. 1. landsk. bað mig að skýra aftur þá skilmála, sem væru í sambandi við þessa yfirdráttarheimild. Ég get ekki annað en endurtekið það, sem ég sagði áðan, að sú yfirdráttarheimild, sem notuð er, er gert ráð fyrir að greiðist þrem árum eftir að samningurinn fellur úr gildi, og ef maður reiknar með núgildandi samningi án framlengingar, þá verður það 1952, og þá fellur þessi yfirdráttarheimild þremur árum síðar í gjalddaga. Hins vegar má náttúrlega greiða þessa skuld hvenær sem er.

Ef aðeins eru teknar 3 milljónir, þá þarf ekki að greiða neitt sérstaklega af því í dollurum, en ef teknar eru næstu 3 millj., þá verður að greiða 20% af því í frjálsum dollurum. Við þyrftum þá, ef við notuðum þessar 4 millj., að greiða 200 þús. til bandalagsins. Þetta er gert til þess að hamla á móti því, að löndin noti meira af þessari heimild en nauðsyn krefur.