01.03.1951
Efri deild: 79. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (1661)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða þetta frv. efnislega. En það var út af ummælum hv. 4. þm. Reykv., sem ég vildi segja nokkur orð. Hann sagði, að þetta fyrirkomulag mundi raska töluvert innflutningi frá viðskiptalöndum okkar, nema það væri tryggt, að fiskur væri á frílista hjá viðkomandi landi. Hvernig er það, ef þetta verður samþykkt? Er þá ekki hætta á, að við getum ekki skipt við þau lönd, þar sem aðalútflutningsvörur okkar eru ekki á frílista? Og er nokkur trygging fyrir því, að mörg þau lönd, sem við verðum að kaupa af vörur, muni kaupa af okkur þær vörur, sem við þurfum að losna við? Ég vil sem dæmi um þetta segja það, að eitt af viðskiptalöndum okkar, Danmörk, sem við höfum keypt svo og svo mikið af vörum frá, hefur keypt mjög takmarkað af okkur. Árið 4948 áttum við að kaupa af þeim vörur fyrir 22 millj., en þeir áttu að kaupa af okkur fyrir 20 millj. Þetta fór nú svo, að við keyptum af þeim vörur fyrir 42 milljónir, en þeir af okkur fyrir ekki nema 7 milljónir. Ég bar fram í sambandi við þetta þáltill. á Alþingi um að kippa þessu í lag, en síðan hef ég heyrt, að við höfum keypt af þeim sjöfalt á við það, sem við höfum getað selt þeim. Og nú nýlega var búið að semja um hagstæða sölu á sjávarafurðum, þar á meðal 2000 tonnum af hraðfrystum fiski, en þessi kaup urðu að ganga til baka vegna þess, að Danir vildu ekki greiða þetta nema inn á einhverja frosna sjóði í Landsbankanum. Hvað gerir ríkisstj. við þessum viðskiptum? Þessi kontó hjá Landsbankanum var mynduð vegna þvingunar frá Dönum, og hvað hefur ríkisstj. gert til þess að kippa þessu í lag? Ef þetta hefur verið hagstætt, hvers vegna er þá ekki hægt að selja gullvörur, svo sem fiskimjöl? Ég tel, að þetta mál sé svo alvarlegt, að það verði að taka það til rækilegrar athugunar í sambandi við þetta mál.