01.03.1951
Efri deild: 79. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það er ekki æskilegt, að komið verði á vöruskiptaverzlun við hvert einstakt land. Tilgangurinn með Greiðslubandalagi Evrópu er sá að reyna að koma því þannig fyrir varðandi viðskipti milli landa, að við getum keypt okkar nauðsynjar þar, sem þær eru ódýrastar og hagkvæmastar, og selt útflutningsafurðir okkar í þeim löndum, sem okkur er hagkvæmast. Um þetta eru allir sammála. Hitt er því augljóst, að ef við höfum möguleika á að selja okkar vörur í viðskiptalöndum innan bandalagsins, þar sem við fáum bezt verð fyrir þær, þá mega þau ekki torvelda með hömlum innflutning á okkar þýðingarmestu vörum þangað, og það er m.ö.o. þess að vænta, að eins og við setjum á frílista hjá okkur þýðingarmestu vörur viðkomandi viðskiptalands, þá setji það á frílista hjá sér okkar þýðingarmestu útflutningsvörur á viðskiptaárinu. Þess vegna beindi ég þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort okkar þýðingarmestu vörur væru á frílista hjá þeim löndum, sem við kaupum vörur frá, og harma ég, að hann hefur ekki getað svarað henni.