02.03.1951
Efri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Fjhn. fékk mál þetta til meðferðar í gærkvöld og hafði fund um það í morgun. Frv. var að sjálfsögðu borið saman við þau lagaákvæði, sem það snertir og á að breyta, og svo var það rætt efnislega. Það kom í ljós, að nm. gátu ekki orðið samferða í afgreiðslu þess, eins og hér liggur líka fyrir í þrem nál., sem útbýtt er í þessari andrá. Hv. 1. landsk. var mótfallinn 1. og 2. gr. frv. og flytur við þær brtt. í nál. sínu á þskj. 762. Hinir nm. voru að mestu leyti sammála um málið efnislega, en hv. þm. Barð. vildi breyta því að forminu til mjög verulega, eins og kemur fram í nál. hans á þskj. 764 og brtt. Hann vildi láta skipta frv. í þrjú frv. Ég segi fyrir mig, að ég er á sama máli, og ég held ég segi það fyrir hönd þeirra, sem hafa orðið samferða um nál. á þskj. 763, að við töldum, að vel mætti á því fara, að efni frv. hefði komið fram í þrem sjálfstæðum frv. Hins vegar töldum við þrír, sem stöndum saman, ekki ástæðu til þess, úr því að frv. hefur komið fram í því formi, sem það er, að kljúfa það í þrennt. Við lítum svo á, að hægt væri að breyta því þannig, að sæmilega færi á, að þau atriði, sem þar koma fram, væru í einu frv. Dæmi þess eru mörg í löggjöf, að það hafi verið gefið út eitt frv. og ein lög, sem breytt hafa fleiri lögum en einum, og tengt hefur verið saman alveg óskylt efni. Kunnustu dæmin og kannske sterkustu, sem þá má nefna, eru löggjöf um höggorm og bandorm, eins og kunnugt er. Og þar sem nú er mjög áliðið þings og á að hraða störfum þess, þá þótti meiri hl. ekki rétt að tefja tíma þingsins með þess háttar mótbáru og stofna til þess, að fara þyrftu fram tólf umr. um tvö ný frv., með allri þeirri fyrirhöfn, sem í kringum slíkt er fyrir Alþ. og starfsfólk þess.

Eins og nál. okkar þriggja ber með sér, þá höfum við orðið samferða, en hv. 14. landsk. (ÞÞ) hefur þá sérstöðu, að hann er andvígur 3. gr. frv., þ.e. að afnema skattinn af bílasölu innanlands. Við leggjum til, að á frv. verði gerðar lítils háttar formsbreyt., sem við teljum nauðsynlegar. Þegar við bárum frv. saman við þau lagaákvæði, sem breyta á, þá voru á því smágallar, og enn fremur verður að líta svo á, að eðlilegt sé, að það nýmæli, sem 2. gr. felur í sér, komi fram sem viðbót við þau lög, sem það á að tengjast við, og sem bráðabirgðaákvæði, því að efni gr. er tímabundið og er því í eðli sínu bráðabirgðaákvæði. — Við leggjum til, eins og hér sést á þskj. 763, að framan við meginmál 2. gr. bætist: „Aftan við 20. gr. sömu laga bætist svo hljóðandi bráðabirgðaákvæði.“ Svo kemur gr. á eftir eins og hún er óbreytt hér í frv. — Þá leggjum við til, að lítils háttar breyt. sé gerð á 3. gr., af því að þessi ákvæði, sem í frv. segir, að úr gildi skuli numin, eru í sjálfu sér dauð í l. frá 1948, en hafa verið framlengd í 1. gr. l. nr. 112 1950, og það er það, sem brottnámið á við. Þess vegna leggjum við til, að gr. orðist svo: „Fyrir orðin „skulu gilda“ í 1. gr. l. nr. 112 4950 kemur: skulu, önnur en 31. gr., gilda.“ Breyt. er þá sú, að gildi 31. gr. í framlengingarl. er fellt niður. — Þá er það, að af því að frv. nær til fleiri laga en laga um verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm, þá eru orðin „og fleira“ ekkert táknandi um það, til hvers þau grípa, en rétt er, þar sem því verður við komið, að hafa fyrirsögnina þannig, að hún segi til um það, um hvaða lagaatriði er að ræða. Það er miklu þægilegra fyrir þá, sem þurfa að finna l., að geta þannig gengið að þeim eftir fyrirsögnum. Þess vegna leggjum við til, að fyrirsögninni verði breytt þannig, að fyrir orðin „o.fl.“ kemur: og l. nr. 112 1950, um framlenging á gildi III. kafla laga nr. 100 1948, um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna.

Við í meiri hl. væntum þess, að hv. d. geti fallizt á þessar breyt., og jafnvel líka, að hæstv. ríkisstj. geti fallizt á þær, því að þetta eru formsatriði, sem eru til bóta, en engin efnisbreyt. Efnislega ætla ég að láta vera að ræða um frv., því að ég tel, að hæstv. viðskmrh. hafi í gær gert svo rækilega grein fyrir tilgangi frv. og efni, að það sé ekki ástæða til fyrir þá, sem eru í meiri hl. og eru frv. efnislega samþykkir, að bæta neinu við þá grg., sem þar kom fram. En hins vegar þykist ég vera búinn að gera grein fyrir þeim brtt., sem meiri hl. vill gera á frv.