02.03.1951
Efri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. 2. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ekki getað verið sammála hv. meiri hl. fjhn. í þessu máli, því að ég tel ekki sæmandi að afgreiða frv. í því formi, sem á því er. Meiri hl. n. mun einnig vera á þeirri skoðun, þótt hann vilji láta nægja að sneiða af því stærstu agnúana. Mér er kunnugt um það, að form. n. ræddi í dag við hæstv. ráðh. og óskaði eftir því, að hann féllist á breyt. á frv., sem meiri hl. var sammála um, að æskileg væri. Á þetta vildi ráðh. ekki fallast, heldur vildi hann hafa það eins og það var sent inn í deildina, en á það get ég ekki fallizt. Frv. sjálft er borið fram sem breyt. á lögum nr. 35 27. apríl 1950, en aðeins 1. gr. snertir þó nokkuð efnislega þau lög. Það er því eðlilegt, að 1. gr. sé borin fram í þessu frv. Ég er efnislega samþykkur, að sú gr. verði samþ. Ég tel hæstv. ráðh. fara með rétt mál, er hann óskar eftir því, að í stað orðanna „skal ákveða“ komi: getur ákveðið. — Ég tel rétt að taka allan vafa af um það. Hins vegar tel ég síðustu málsgr. 1. gr. óþarfa. Það er vitanlega sjálfsagt, að fjárhagsráð getur afnumið verðlagsákvarðanir sínar með auglýsingu, ef það getur komið þeim á með auglýsingu. En þessi gr. er skýrari svona, og er þá girt fyrir allan ágreining, sem annars kynni að hafa orðið um hana, og þótt ég telji síðustu málsgr. óþarfa, þá er hún að sjálfsögðu ekki til tjóns, og geri ég því engan ágreining út af henni. Og ég er sammála ráðh. í því efni, að ég álít, að hann hefði ekki þurft að leita þessarar heimildar, sem 1. gr. kveður á um, því að ég álit, að hún hafi verið fyrir í lögum. Hins vegar er það að sjálfsögðu æskilegt, að sá háttur sé hafður á, þegar um vafaatriði í lögum er að ræða, að leitað sé úrskurðar Alþ. með því að fá þau skýrari í sérstökum lögum. En ég mun ekki ræða það frekar.

Um 2. gr. er það að segja, að hún er alveg óskyld 1. gr. og á því alls ekki heima í þessu frv. Að vísu mætti kannske tengja hana skammlítið aftan við sem bráðabirgðaákvæði, en það væri þó hreint ekki til fyrirmyndar og Alþ. ekki sæmandi, þar sem málið er alveg óskylt frv. Ég hef því lagt til, að þessi gr. falli niður úr frv., og geri ég það ekki vegna þess, að ég sé henni andstæður efnislega, því að ég tel rétt, að ráðh. fái þessa heimild, sem hún fer fram á. En ég álít, að fjhn. ætti að bera hana fram sem sérstakt mál í öðru frv.

Um 3. gr. vildi ég segja það, að ég sé ekki, að hún komi þessum málum nokkurn skapaðan hlut við. Hún kemur fram sem breyt. á lögum nr. 112 15. des. 4950, sem eru framlenging á gildi III. kafla laga nr. 100 1948, um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna. En eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, þá er III. kafli þeirra laga fallinn úr gildi að öðru leyti en þær línur, sem voru framlengdar með lögum nr. 112 frá 1950. Það er því sýnilegt, að þessi formgalli er svo mikill, að það er ekki hægt að láta málið ganga þannig í gegnum þingið. Og ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvers konar spekingar í stjórnarráðinu það eiginlega væru, sem semdu slík frv., og hvað þeir fái fyrir það. Ég spyr að þessu vegna þess, að ríkisstj. hefur haft það til siðs að láta ýmsa menn semja fyrir sig frv. og láta svo ekkert uppi um það, hvað hún borgar þeim fyrir það. Ég held það hefði verið betra að biðja fjhn. að semja þetta frv., því að það hefði verið bæði þinginu og ríkisstj. til sóma, en þessi leið er til vansæmdar. Og þá menn, sem ekki kunna skil á A og D, er ekki hægt að láta vaða hér uppi. Þeim væri sæmst að draga sig í hlé. Ég teldi bezt, að hæstv. ráðh. lýsti því yfir, að hann fylgdi minni till. Og ég er viss um, að hv. form. fjhn. mundi geta fallizt á að boða til fundar til þess að koma þessu máli í rétt form, því að þessari hv. lávarðadeild er ekki til sóma slík meðferð á máli; enda er meiri hl. sammála mér í því atriði, að ekki sé hægt að afgreiða málið í því formi, sem það kom í inn í deildina, en hann vill hins vegar láta nægja að lappa upp á það. Veit ég þó ekki, hvort ráðh. getur gengið inn á þá breyt., því að hann lýsti því yfir í morgun, að hann gæti ekki fallizt á neina breyt. á frv. En það væri gott að heyra það, hvort hann vildi fallast á breyt. meiri hl.

Svo að ég víki ögn að hv. 1. landsk., þá tel ég, að 4. gr. komi ekki til að skapa það öngþveiti, sem hann vildi halda fram, að hún mundi gera. Hann gat m.a. um, að menn yrðu líklega að fara að hætta að kaupa föt. Ég vil nú spyrja hv. þm.: Hvernig hefur ástandið í þessum málum verið að undanförnu í landinu? Öll undanfarin ár hefur þessum málum verið hagað þannig í höndum fjárhagsráðs, að það hefur ekki verið fluttur inn annar fatnaður en sá, sem hefur gengið keðjuverzlun, tilbúinn fatnaður, sem fyrst hefur gengið til heildsalanna og síðan til smásalanna, og efnið hefur farið allt til iðnfyrirtækjanna og síðan til smásalanna, svo að allur unninn fatnaður hefur verið margfalt dýrari en hann hefði þurft að vera; svo að keðjuverzlun yrði ekkert nýtt fyrirbæri, því að hún hefur verið stunduð hér undanfarin ár. Konum hefur verið neitað um efni til að sauma sjálfar utan á sina fjölskyldu. Það hefur allt farið til ákveðinna fyrirtækja, sem síðan hafa grætt á því, og ég er viss um, að hækkun á fatnaði má nema miklu, ef hún á að skapa eins slæmt ástand í þessu efni og það hefur verið undanfarin ár. Og ég vil benda hv. 1. landsk. á, að ef hann hefur fylgzt með því, sem hefur gerzt í heiminum, þá hefur reynslan verið sú, að þar sem verzlunarhöftin hafa verið minnst, hefur verðið fallið af sjálfu sér. — Menn hafa ekki haft tilhneigingu til að ganga á móti verðlækkunum. Ég sá í Þjóðviljanum nú á dögunum, að þar stóð með stórum stöfum, að stórfelldar verðlækkanir hafi orðið í Sovétríkjunum. Í greinargerð sovétstjórnarinnar segir, að aukin framleiðsla og lækkaður tilkostnaður á undanförnu ári hafi gert verðlækkunina mögulega. Var það ekki þetta, sem Sjálfstfl. var að reyna að keppa að, að auka framleiðsluna og lækka tilkostnaðinn? Í Rússlandi þykir nauðsynlegt að auka framleiðsluna og lækka þannig tilkostnaðinn, en ekki að ætla að koma á lækkun með sífelldum stöðvunum og launakröfum. Hvers vegna berst þá Sósfl. gegn þessu hér á Íslandi? Þetta þykir ágætt austan járntjaldsins, þótt það sé fordæmt hér á Íslandi. Ég er samþykkur því, að ráðh. fái þessa heimild, og get ekki fallizt á rök hv. 1. landsk. þm., að þetta verði til að koma öllu í öngþveiti í landinu. Hann sagði, að ef lán væri ekki notað til aukinnar fjárfestingar, væri það til ills. Hugsum okkur, að það væri notað til kaupa á olíu, veiðarfærum og öðru slíku. Væri það til að koma öllu í öngþveiti í landinu? — Það var annað, sem hv. 1. landsk. þm. sagði og var játning, að ef hægt væri að flytja inn nægilegt byggingarefni, þá lækkaði verðið. Gildir ekki hið sama um aðrar vörur? Það getur verið betra að lækka verð á öðrum sviðum, þó að það væri ágætt að lækka verð á byggingarefni. Mér finnst, að þm. ætti að snúa við blaðinu. — Í sambandi við 3. gr., þá álít ég ekki sanngjarnt að setja þennan skatt. Hann leiðir af sér óreiðu í viðskiptalífinu. Eru margir, sem eiga bíla, en hafa þá á annars nafni til að komast hjá því að greiða skattinn. Svo er alltaf, þegar lagður er á óeðlilegur skattur. — Ég er samþykkur því, að frv. nái fram að ganga, en legg til, að 2. og 3. gr. verði felldar niður, og er það einungis vegna formsins.