02.03.1951
Efri deild: 81. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. 1. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Hér hefur legið fyrir d. frv. til breyt. á l. um fjárhagsráð á þskj. 170. Það er nú liðið talsvert mikið á annan mánuð síðan þetta frv. var afgr. í n., og n. var sammála um að mæla með samþykkt þess, enda þótt einstakir nefndarmenn hafi áskilið sér rétt til þess að bera fram brtt. og gert það. Þetta mál hefur verið margsinnis á dagskrá og aldrei komizt að, en nú er það ekki á dagskrá í dag. Ég er þess vegna farinn að óttast mjög um það, þar sem nú liður að þingslitum, að það sé meiningin að hefta framgang þessa máls og beinlínis sjá um, að þetta mál komi ekki til afgreiðslu á þessu þingi. Ég vil reyna að koma í veg fyrir þetta, því að frv. snertir mjög efni þess frv., sem hér liggur fyrir nú, og ekki sízt þá brtt., sem ég var með við 2. gr. og er náskyld því efni, sem hér er til umr. Þar sem þetta frv. er um breyt. á tvennum lögum og auk þess til viðbótar ný lagafyrirmæli, þá sé ég ekki neitt því til fyrirstöðu, að till. um breyt. á þriðju lögunum verði skeytt hér við, alveg sérstaklega þegar hún er um það, sem er miklu skyldara aðalefni frv. en ýmislegt, sem í því er. — Ef hæstv. forseti vill lofa því ótvírætt, að þetta frv., sem ég gat um, um breyt. á l. um fjárhagsráð, verði afgr. úr d., og vill tryggja það, sem ég trúi ekki öðru en hann geri, þá mun ég bíða átekta, en ef hæstv. forseti lofar því ekki, þá mun ég við þessa umr. ber a fram brtt. um að fella það frv. inn í þetta frv., sem hér er til umr.

Ég sé nú ekki neina sérstaka ástæðu til þess að gera frekari athugasemdir við það, sem fram hefur komið í umr. um þetta mál.

Hv. þm. Barð. sagði hér við 2. umr., að reynslan hefði sýnt, að verðlagið lækkaði, þegar verðlagseftirlitið er fellt niður. Það má nú vera makalaust verðlagseftirlit! Hvers vegna hefur þá ekki hv. þm. barizt skeleggar á móti verðlagseftirlitinu og móti því, að það yrði nokkurn tíma leitt í lög, úr því að hann er svona sannfærður um, að það hafi orðið til þess að hækka verðlagið í landinu? Það er mikill skaði, að hv. þm. hefur ekki getað komið þeim meiri hl., sem hann tilheyrir, í skilning um það að vera ekki að burðast með svona geysilega skaðlega löggjöf. Annars var það aðalverkefni hæstv. ríkisstj. að lækka verðlagið, að því er hún sjálf taldi, þó að henni hafi ekki tekizt það betur en raun er á, en auðvitað ruglar hv. þm. hér saman. Verðlagið getur ekki lækkað vegna þess, að verðlagseftirlit sé fellt niður, hversu lélegt sem það er, heldur aðeins vegna aukins framboðs. Það er t.d. ekki verðlagseftirliti að kenna, hvað það er hátt verð á svartamarkaðsvörum og smyglvörum, og nógu eru þær dýrar samt.

Þá sagði hv. þm., að fólkið hefði ekki áhuga á því, að varan lækkaði, þegar kaupið hækkaði með vaxandi dýrtíð. Nú hefur vísitalan verið bundin undanfarin ár, og raunin er sú, að aldrei hafa verið gífurlegri verðhækkanir en einmitt nú síðan vísitalan var bundin. Undanfarið hefur raunverulegt kaupgjald sífellt farið stórlega lækkandi. Aftur á móti hefur verðlagið hækkað, og þess vegna hefur aðalkrafa verkalýðssamtakanna verið, að verðlagið yrði lækkað. Og alltaf hefur krafan um hækkað kaupgjald verið gagnráðstöfun gegn taumlausri hækkun á verðlaginu, og það er svo enn. — Hv. þm. minntist á verðlagið í Sovétríkjunum, en þar hafi einmitt launin verið hækkuð samfara verðlagslækkunum. — Hv. þm. segir, að ráðið til þess að lækka verðlagið sé að auka framleiðsluna og lækka tilkostnaðinn, eins og átt hafi sér stað í Sovétríkjunum. Þetta er mikið rétt. Og einmitt þetta var stefna hæstv. ríkisstj., bætti þm. við. Er hv. þm. að gera grín að hæstv. ríkisstj.? Hann hefur stundum gert það áður. Ég held, að hv. þm. hafi meint þetta, því að það er alveg eftir honum. Hv. þm. er stundum anzi ótuktarlegur við hæstv. ríkisstj. Frá því árið 1948 hefur útflutningsverðmæti lækkað um þriðjung og s.l. ár minnkaði útflutningur á freðfiski um helming og ísfiski um 3/4, og svo kemur útgerðarmannagjaldeyririnn, þar sem gert er ráð fyrir 50–60% aukaálagningu.

Þá spurði þm., hvort það væri skaði að taka lán til kaupa á olíu og veiðarfærum. Ef ekki er til gjaldeyrir fyrir almennum rekstrarvörum, þá er það skammgóður vermir að taka lán, því að gjaldeyrisafstaðan yrði enn þá verri, er lánið þrýtur. En ef ástandið er svo illt, að ekki er hægt að kaupa veiðarfæri og olíu, þá eru það upplýsingar, sem stangast allharkalega á við digurmæli ríkisstj. þess efnis, að gjaldeyrisástandið hafi farið stórum batnandi undanfarið og sé nú orðið tiltölulega gott. En ef svo væri, að við gætum ekki keypt hinar nauðsynlegustu rekstrarvörur, þá hlyti það að verða fyrsta viðbragð ábyrgrar ríkisstj. að koma á allsherjarvöruskömmtun, því að flest annað yrðum við fyrr að spara við okkur en hinar nauðsynlegustu rekstrarvörur, sem allt okkar líf byggist raunverulega á.

En ég vil fyrst og fremst fá svar hæstv. forseta viðvíkjandi fyrirspurn minni, því að á hans svari veltur það, hvort ég ber fram mína brtt. eða ekki.