02.03.1951
Efri deild: 81. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Forseti (BSt):

Út af ummælum hv. 1. landsk. um annað frv., sem liggur fyrir deildinni, vil ég taka þetta fram:

Hv. þm. spurði, hvort ég vildi lofa því, að þetta frv. yrði afgr. út úr deildinni. Þessu get ég að sjálfsögðu ekki lofað, því að það er ekki undir mér komið, heldur deildarmönnum, hvort þeir t.d. fella frv. eða ekki. Hinu skal ég lofa, að taka málið á dagskrá á mánudag, og er ég reiðubúinn til þess að halda fundi það lengi áfram, að málið fái einhver úrslit.

Um forsögu þessa máls er það að segja, að það hefur æði oft verið hér á dagskrá, en tekið aftur af henni þrisvar sinnum samkv. beiðni hæstv. ríkisstj., en nú í seinni tíð hafa önnur mál verið rædd það mikið á fundum deildarinnar, að ekki hefur unnizt tími til að ræða þetta mál, en þó hefur það tvívegis verið tekið fyrir.

Síðast í gær var ég reiðubúinn til að taka þetta mál fyrir, ef tími ynnist til, á báðum fundunum, en ég sá ekki annað fært en að slita síðari fundinum, vegna þess að augsýnilegt var, að óþolinmæði hafði gripið um sig meðal hv. þdm. við að sitja hér fund; þannig að ég get ómögulega viðurkennt, að það sé að öllu leyti mín sök, að frv. hefur ekki fengið afgreiðslu. Ég get t.d. ekki séð fyrir, að tiltölulega lítið mál taki svo til allan fundartímann við 1. umr., en það gerðist einmitt, er þetta mál var á dagskrá.

En málið skal verða tekið á dagskrá á mánudaginn, og er það þá auðvitað komið undir deildinni, hvaða afgreiðslu það fær. En ég skal ekki ganga fram hjá þessu máli þá.

Það getur verið, að haldinn verði smáfundur hér í deildinni á morgun, en ég vil ekki taka þetta mál fyrir þá, því að hann yrði þá væntanlega aðeins haldinn til þess að koma málum til nefndar.