02.03.1951
Efri deild: 81. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. 1. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Ég heyri, að það eru nokkrir ákveðnir þm. — og þó sérstaklega einn —, sem ætla að greiða atkv. á móti þessari till. vegna forms, en ekki efnisatriða, og ef hæstv. forseti úrskurðar, að frv. geti ekki komið til atkvgr. í deildinni, þegar búið er að afgreiða þessa brtt., þá virðist mér vera úr vöndu að ráða, því að hugsazt gæti, að þessi brtt. yrði felld, þótt meiri hluti sé fyrir málinu hér í deildinni. En það yrði þá til þess, — að mér skilst, — að ekki væri hægt að taka málið fyrir.

Ef hæstv. forseti heldur fast við úrskurð sinn, neyðist ég til þess að taka till. aftur, í trausti þess, að forseti sjái svo um og geri allt, sem í hans valdi stendur, til þess að málið fái afgreiðslu.