03.03.1951
Neðri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 754 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

193. mál, verðlag og dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það hefur gengið fljótlega með afgreiðslu þessa máls, en það hefur engan veginn verið vandlega gert. Ég minntist á það við 1. umr. og tek fram á nál. á þskj. 794, að það hefði átt að skipta þessu máli í þrennt. 1. gr. er aðalatriðið og ætti að vera áfram undir þessari fyrirsögn. 2. gr. ætti að vera sérstakt frv. eða skeytt aftan við lántökuheimildina, og 3. gr. ætti að vera breyt. á l. út af fyrir sig. Það er óviðkunnanlegt að hafa þetta svona. Það væri nær en að hafa það eins og nú, að aftan við l. komi bráðabirgðaákvæði um 4 millj. dollara yfirdrátt, næst á eftír kaflanum um verðlagsdóm. Það er ekki vansalaust að afgr. þetta svona, — það er óhæft, og má ekkí svo til ganga. Ég sá mér þó ekki fært að koma með slíka brtt., því að meiri hl. vildi ekki skipta frv.

Ég hef þegar tekið fram, að ég legg til, að 1. gr. verði felld. Í fyrsta lagi er ég andvígur því að fella niður verðlagsákvæði. Í öðru lagi tel ég, að gr. gefi of víðtæka heimild með því að geta fellt hámarksverð á hvaða vöru sem er um 15% af innflutningi. Ég álít ófært að veita fjárhagsráði heimild til að fella niður hámarksverð á vörum. Í þriðja lagi felst ekkert að mínu áliti í 1. gr., er stj. ætlar að nota sem heimild til sérstakrar álagningar á bátalistavörurnar. Þetta felst ekki í l. um fjárhagsráð, og í 12. gr. er fyrirskipað að haga innflutningnum á sem hagkvæmastan hátt. Tilgangur stj. er að leyfa aukna álagningu á þessar vörur. Það er engin heimild fyrir þessu í l. og er því beint brot hjá stj. Ég vek athygli á því, að stj. fer fram á heimild, sem hún getur ekki fengið. Hún fer fram á að fá þetta frv. samþ., en þetta flaustursverk á ekki að eiga sér stað. Ég er ekki að segja þetta til að tefja málið, en ég kynni betur við, að hún gerði sér ljóst, hvaða heimild hún þarf að fá.

Viðvíkjandi 2. gr. vil ég, að á eftir orðunum „4 millj. dollara“ komi: til kaupa á framleiðslutækjum, efnivörum til framleiðslutækja og byggingarefni. — Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta, en bendi á, að gjafafé frá Marshallstofnuninni og Marshalllán hefur stj. fengið sem nemur 500 millj. kr. Það er fróðlegt að athuga, hve litlu af þessu er varið til gjaldeyrisskapandi fyrirtækja, nema það sem lagt er til áburðarverksmiðjunnar. Ég held, að það sé ógætilegt að verja mestu af þessu fé til að kaupa neyzluvörur. Það þyrfti fyrst og fremst að kaupa framleiðslutæki og byggingarvörur. Ég vil minna á, að það er engin frjáls verzlun og samkeppni hugsanleg með 1. gr. Bátalistavörurnar eru einokaðar við útflutningsafurðirnar. Það er enginn möguleiki fyrir frjálsa samkeppni, nema samvinnufélögin hafi aðstöðu til að kaupa þessar útflutningsvörur. En þessi möguleiki er ekki fyrir hendi fyrir samvinnufélögin. Stj. bannar samkeppnina og bannar landsmönnum að útvega sér þessar vörur í skjóli einokunar á útflutningi. Ég vil taka fram, að af þessum ástæðum er ekki hægt að tala um frjálsa samkeppni, sem myndar verðlagið. Að afnema hámarksákvæði er ekki að leyfa frjálsa samkeppni. Hv. þm. hafa heyrt þetta, en þetta var það, sem ég vildi, að kæmi fram.