24.10.1950
Neðri deild: 8. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

36. mál, togarakaup ríkisins (lántökuheimild)

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt að minna á það, sem ég upplýsti við 1. umr. fjárl., að ríkisstj. ætlast til þess, að togararnir verði seldir einhverjum aðilum innanlands, eins og ráðgert er í l. um togarakaup ríkisins og frá upphafi var gert ráð fyrir. Það hafa staðið yfir viðræður við nokkuð marga aðila, sem hafa pantað togara, um sölu á togurum til þeirra. En engir af þeim aðilum hafa enn þá verið reiðubúnir til þess að ganga endanlega frá samningum. Þeir samningar standa því yfir nú, og ríkisstj. gerir sér vonir um að geta áður en langt líður a.m.k. gefið Alþ. skýrslu um það, hvernig þau mál standa. En í dag er ekki hægt að segja annað um þetta en að umleitanir og samningar hafa staðið yfir, en enn þá hefur ekki endanlega verið gengið frá neinum framsölum í þessum efnum eða neinum samningum til hlítar. Mun hæstv. Alþ. verða látið fylgjast með því, þegar nokkuð er af þessum samningagerðum að frétta.

Og ríkisstj. hefur verið ljóst það, sem hv. 2. þm. Reykv. tók fram, að það þyrfti að ljúka einhverju af þessum samningum sem allra fyrst; svo að ekki yrðu tafir á því að afhenda togarana til tilvonandi eigenda og hefja rekstur þeirra, er þeir koma, þess vegna, að þessum samningum væri ekki lokið. Það er ráðgert, að í þessum yfirstandandi eða í næsta mánuði verði fyrsta skipið af þessum togurum tilbúið, þannig að ríkisstj. hefur hinn mesta áhuga fyrir að hraða þessu.