12.02.1951
Neðri deild: 66. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég vildi við þessa umr. segja nokkur orð um þetta mál og fyrst og fremst til þess að lýsa undrun minni yfir framkomu þessa frv. Ég hafði satt að segja ekki búizt við því, að hæstv. ríkisstj. mundi á þessu stigi málsins fara þess á leit við Alþ. að fá að taka talsvert stórfelld erlend lán, og sízt hafði ég þó búizt við því, að hæstv. fjmrh. færi inn á þessa braut, því að mér hefur alltaf skilizt á honum, að hann teldi það vandræðalausn á þessum málum að taka útlend lán til ríkisins. Að vísu má segja um það lán, sem taka á vegna togarakaupanna, að þar sé um viðbót að ræða við það bráðabirgðalán, sem tekið var í fyrra. Mér er þó ekki ljóst, hvort hægt hefði verið að semja um framlengingu þess láns áfram og fá til viðbótar þær 40 millj. króna, sem talið er að þurfi til að fullnægja þeirri fjárþörf, sem skapazt hefur vegna kaupa á nýju togurunum. Í grg. fyrir frv. segir, að það þurfi allt að 25 millj. króna til togarakaupanna, og þar sé innifalið 46 millj., sem nota á til að endurgreiða bráða birgðalánið frá í fyrra, og enn fremur, að það geti komið til mála, að ekki þurfi alveg svo háa fjárhæð. Ég mundi ekki geta haft neitt út á það að setja, þótt hæstv. ríkisstj. færi fram á það að fá lagaheimild til annars tveggja, að framlengja bráðabirgðalánið frá í fyrra auk þess að fá 9 millj. kr. viðbótarlán eða þá að fá nýtt lán til þessara þarfa. En ég verð að segja það, að ég er undrandi yfir framhaldinu, eins og ég mun víkja nánar að á eftir. Það getur verið fullkominn rökstuðningur fyrir því að taka erlend lán til kaupa á stórvirkum framleiðslutækjum, eins og togararnir eru. Það er vert að vekja athygli á því, að nýju togararnir hafa nú á tæpum hálfum öðrum mánuði selt í Englandi fyrir um 25 millj. íslenzkra króna, eða sem næst þeirri upphæð, sem álitið er, að þurfi að taka að láni vegna þeirra. Það er því ekkert óeðlilegt, þótt tekið sé lán erlendis til kaupa á svo stórvirkum framleiðslutækjum sem togararnir eru, tækjum, sem afla beinlínis sjálf mikils gjaldeyris. Og þó svo vilji verða, að gjaldeyristekjur togaranna séu ekki alltaf jafnmiklar og nú að undanförnu, þá er þetta dæmi þó talandi tákn um það, að ástæða er til að taka erlend lán til kaupa á slíkum tækjum. Því hef ég ekkert út á það að setja, þótt hæstv. ríkisstj. fari fram á heimild til lántöku vegna togaranna, þó það hefði máske verið heppilegra að „konvertera“ bráðabirgðalánið og fá þá til viðbótar því nýtt lán allt að 9 millj. króna. Veit ég þó ekkert um, hvort það hefði verið hægt eða ekki.

En þegar þessu efni sleppir og við komum að öðrum atriðum frv., þá er það, sem ég vil lýsa undrun minni. Ég skal þó ekki draga í efa, að bændur óski eftir frekari lánum til bygginga og ræktunar, né heldur það, að þeim sé full þörf á að fá aukið lánsfé í þessu skyni, og ég álít nauðsynlegt að bæta úr fyrir bændum í þessu efni eftir því, sem ástæður leyfa. En ég tel mjög vafasamt að fara þessa leið út úr þeim vandræðum, sem hér er lagt til, að farin verði. Hæstv. fjmrh. sagði, að verufeg eftirspurn væri nú eftir láni til framkvæmda í sveitum og að hann áliti, að þeirri eftirspurn þyrfti að fullnægja. Ég dreg ekki í efa, að eftirspurnin er mikil, en ég vil bæta því við, að það er nú víðar eftirspurn eftir lánum til framkvæmda, sem ekki er hægt að fullnægja öllum á stuttum tíma. Ég er að því leyti sammála hæstv. ríkisstj. varðandi fjárfestinguna, að það beri að gæta þess með atbeina almannavaldsins, að hún verði ekki of ör á hverjum tíma, svo að ekki komi til alvarlegrar aukinnar verðbólgu. Þó vil ég taka það fram, að það á ekki aðeins að haga fjárfestingunni þannig, að hindruð verði aukin verðbólga, heldur einnig svo, að ekki komi til atvinnuleysis. Alls staðar erlendis, þar sem skipulag er á þessum málum, t.d. í Bretlandi, er þess gætt að hefta fjárfestinguna ekki svo, að atvinnuleysi skapist í löndunum. Þetta vildi ég brýna fyrir hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál, og virðist mér hún ætti að gæta vel að þessu atriði nú á þessum síðustu og verstu tímum. Ég hefði því talið, að farið verði inn á mjög hæpna leið, ef farið verður að taka erlent lán til Búnaðarbankans, sem síðan verði veitt til framkvæmda í sveitum. Það er svo, að með okkar takmarkaða fjármætti er varið nokkru fé á ári hverju til ræktunar og bygginga í sveitum, og ég veit ekki betur en við sjáum á hverju ári fasta liði í fjárlögunum, sem renna til þessara framkvæmda, þ.e. 2,5 millj. kr. til landnámssjóðs og 2,5 millj. í byggingarsjóð, og er það fjarri mér að telja það framlag eftir. Sem sagt, ég lýsi undrun minni yfir lántökufyrirætlunum ríkisstj. til landbúnaðarins, og ekki sízt vegna þess, að eftirspurn eftír lánum til ýmissa annarra framkvæmda, engu síður nauðsynlegra, er mjög mikil, og hefur hún aukizt mjög mikið á síðasta ári vegna gengisfellingarinnar. Hófleg lán til iðnaðarins, útgerðarinnar og verzlunarinnar til þess að halda rekstrinum í horfinu þurfa að vera mun hærri nú en fyrir ári síðan. Og bankarnir munu eiga fullt í fangi með að veita lán, svo að hægt sé að halda uppi innflutningi nauðsynlegustu vörutegunda til landsins. Það er því víðar eftirspurn eftir lánum en hjá landbúnaðinum og iðnaðinum, og ég hefði haldið, að bankarnir teldu það hæpið að fara nú að taka erlend lán til að bæta þar úr, meðan hægt væri að komast hjá því. — Að lokum eru það svo 3 millj. króna lán, sem ríkisstj. fer fram á að fá leyfi til að taka handa iðnaðinum — og algerlega út í bláinn. Það er ekkert getið um það, hver eigi að fá það fé til ráðstöfunar eða með hvaða kjörum, og löggjöf um þetta atriði er engin til. Það er einu sinni ekki gert ráð fyrir því, að þetta fé gangi til þess litla vísis af iðnlánasjóði, sem til er í landinu. Ég þykist vita, að þegar fara átti að taka erlent lán á annað borð, þá hafi einhverjum ráðh. þótt viðeigandi að fara fram á að fá eitthvað handa öllum atvinnuvegunum, svo að segja mætti, að lánið hafi verið tekið handa öllum aðalatvinnuvegunum, sjávarútveginum, landbúnaðinum og iðnaðinum. En þrátt fyrir það, , að þörf mun fyrir stofnlánasjóð handa íðnaðinum, þá álít ég ekki rétt að byrja á því að fara að taka erlend lán í þessu skyni. Að undanförnu hefur legið fyrir Alþ. frv. til l. um stofnun iðnaðarbanka, og það virðist nú augljóst, að hæstv. ríkisstj. hefur komið sér saman um að svæfa það frv. og færir þær ástæður fyrir, að nú standi fyrir dyrum allsherjarathugun og endurskoðun á bankakerfi landsins. Ég er síður en svo mótfallinn því, að slík endurskoðun fari fram, og ég er þakklátur ríkisstj. fyrir þær fyrirætlanir. Það er að mínu viti mjög tímabært að endurskoða bankalöggjöfina, en það er önnur saga, sem ef til vill gefst tækifæri til að ræða síðar.

Ég mun svo ekki hafa þessi orð miklu fleiri, en eins og ég hef áður sagt, er ég mjög undrandi yfir aðgerðum og aðferðum hæstv. ríkisstj. í þessum efnum, að stofna til stórfelldra erlendra skulda á þann veg, sem frv. fer fram á og ég hef nú skýrt. Ég tel því mikla þörf á, að þetta mál verði grandskoðað, áður en nokkur ákvörðun í því er tekin, og að það verði vel athugað, hvort ekki þurfi að breyta því frv., sem hér liggur fyrir.