15.02.1951
Neðri deild: 69. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Allmikið hefur verið um þetta frv. rætt og það mikið gagnrýnt af hv. 8. landsk. og hv. þm. Hafnf. Þarf engu að bæta við þeirra rök, og skal ég ekki endurtaka það, sem þeir hafa þegar sagt. — En að einu atriði finnst mér ekki hafa verið vikið svo sem ástæða væri til.

Meginmunur er á erlendri lántöku til togarakaupanna annars vegar og lána til landbúnaðar og iðnaðar hins vegar. En þessar 43 millj. eiga sumpart að ganga til togaranna nýju og sumpart til landbúnaðar og iðnaðar. Á þessu er frá fjármálalegu sjónarmiði séð mikill eðlismunur. Í fyrsta lagi er að geta þess, að af þeim 25 millj., sem fara eiga til togarakaupa, fara 16 millj. til endurgreiðslu á gömlu láni, og er því aðeins um 9 millj. kr. nýtt lán til þeirra að ræða. Hinn hluti lánsins fer til landbúnaðar og iðnaðar. Um togarakaupin er það að segja, að þar er um að ræða kaup á gjaldeyrisskapandi tækjum, sem enginn ágreiningur mun vera um, að rétt sé að kaupa.

Hvað snertir erlenda lánið til framkvæmda í þágu landbúnaðarins, þá skiptir meginmáli, hvort nota á þetta erlenda lán til þess eingöngu að greiða erlendan kostnað, eða hvort það á líka að standa undir innlendum kostnaði, þar á meðal vinnulaunum við framkvæmdirnar.

Svo að ég víki að iðnaðarláninu, þá liggja engar upplýsingar fyrir um það, til hvers á að nota það fé. En engri ríkisstj. er stætt á að fara fram á heimild til slíkrar lántöku án þess að gera grein fyrir því, hvort um stofnlán eða rekstrarlán sé að ræða. Það hefur svo ólík áhrif, að upplýsingar um það verða að liggja fyrir.

Að því er snertir landbúnaðarlánið er mjög hliðstæðra spurninga að spyrja. Í fyrsta lagi: Eiga þessi lán að ganga til ræktunarsjóðs eða byggingarsjóðs? Það hlýtur að skipta nokkru máli, hvor deild Búnaðarbankans á að fá féð og hvernig því á að verja. En hitt skiptir þó meginmáli, og á það legg ég höfuðáherzlu: Á féð einungis að nota til að greiða erlendan kostnað, eða á það að nota einnig til að greiða innlendan kostnað? Og ég skal nú fara fáeinum orðum um þýðingu þess, hvor leiðin farin yrði.

Ef lánið á að nota til að greiða bæði erlendan og innlendan kostnað, þá verður að nota afganginn af þeim erlenda gjaldeyri, sem fæst, til að kaupa og flytja inn neyzluvörur, ef verðbólga á ekki að aukast. Það er augljóst, að nota verður helming lánsins til að kaupa fyrir neyzluvörur til að mæta þeirri auknu kaupgetu, sem framkvæmdirnar hafa í för með sér. Verði ekkert af láninu notað til að mæta hinni auknu eftirspurn eftir neyzluvörum innanlands, er augljóst mál, að slíkt hlýtur að leiða til verðbólgu, sakir aukinnar kaupgetu. — Þá er það hinn möguleikinn, að ætlunin sé að nota þetta allt til að mæta erlendum kostnaði við framkvæmdirnar. Sé það svo, verður að vera til fé innanlands til þess að greiða innlendan kostnað, svo sem vinnulaun, og eins og nú er ástatt, er það ekki hægt nema með aukinni lánsfjárþenslu og þar af leiðandi aukinni verðbólgu, nema tilætlunin sé sú, að draga jafnmikið úr framkvæmdum á öðrum sviðum, t.d. byggingum í bæjunum. Að vísu má benda á tvennt, sem draga mundi úr verðbólguáhrifunum. Þ.e. að bændur vinni svo mikið að framkvæmdum sínum sjálfir, og að lántakan verði til að bæta úr atvinnuleysi, svo að þar notist vinnuafl, sem annars væri látið ónotað, en ég tel, að atvinnuleysinu eigi að útrýma með því að taka í notkun þau atvinnutæki, sem til eru og ónotuð, t.d. hraðfrystihúsin.

Þótt óskýrt hafi verið um það talað, hefur mér skilizt, að tilætlunin sé að fara hina síðari leið, þ.e. að nota 18 millj. allar aðeins til að greiða erlenda kostnaðinn, en ég hef sýnt fram á, að afleiðingin af þeirri ráðstöfun mundi væntanlega vera aukin verðbólga, meiri kaupgeta án aukins vöruframboðs. Slíkt er í ósamræmi við yfirlýsta stefnu núv. ríkisstj. Ég vil í þessu sambandi einnig minna á það ákvæði gengislækkunarlaganna, að nota skuli hagnaðinn af gengislækkuninni til lánveitinga. Það var alveg hliðstæð ráðstöfun. Erlendir fjármálasérfræðingar ýmsir munu hafa orðið forviða á þeirri ráðstöfun, enda mun hún vera einsdæmi, a.m.k. í nálægum löndum, og ég hygg, að erlendir sérfræðingar muni ekki síður reka upp stór augu, ef nota á allt það fé, sem hér er um að ræða, til að greiða erlenda kostnaðinn, án sérstakra ráðstafana innanlands. En ef ekki á að nota allt lánið til að greiða erlenda kostnaðinn, þá er í rauninni verið að taka lán til neyzluvörukaupa. Ég skal ekki eyða mörgum orðum að því, að hér er röng stefna á ferðinni og varhugaverð, en sem betur fer ný. — Ef þetta frv. verður samþ., hlýtur það að kalla á önnur frv. hliðstæð þessu, og þar munu koma fram kröfur um erlendar lántökur til framkvæmda, sem ekki þykja síður nauðsynlegar en þessar.

Þessu frv. hér hefur ekki verið andmælt af mér né alþýðuflokksþingmönnum vegna þess, að við höfum vantrú á landbúnaðinum. Það er síður en svo. En við viljum hins vegar vara við því að taka erlend lán til framkvæmda, bæði í landbúnaðinum og öðrum atvinnugreinum, þegar aðstæður eru eins og þær eru nú í dag. Skuldasöfnun er alltaf varhugaverð og ekki sízt, þegar hætta er á að hún hafi óheilbrigð áhrif á fjármálakerfið innanlands.

Hæstv. fjmrh. lét þess getið í næstsíðustu ræðu sinni, að úr fjárskortinum til framkvæmda væri nú ekki hægt að bæta nema með erlendri lántöku. Þetta væri því aðeins rétt, að til væri í landinu ónotað vinnuafl og fjármagn, sem ekki væri hægt að nota nema með því að taka erlent lán, en slíkt ástand er alls ekki hér fyrir hendi, og þess vegna hafa hinar erlendu lántökur verðbólguáhrif, ef þær eru notaðar til þess að flytja inn fjárfestingarvörur. Lánið hefur enn fremur verið réttlætt með því, að auka megi fjárfestinguna í landbúnaðinum, og eftirspurnin eftir lánum í Búnaðarbankanum sé mjög mikil. Lánsfjárþörf landbúnaðarins sé sérstaklega mikil. Auðvitað er þörfin mikil, en við verðum að gera okkur ljóst, að benda má á mikla fjárþörf á fjöldamörgum fleiri sviðum. Ég nefni t.d. húsnæðismál bæjanna. Húsnæðisskorturinn hér í Reykjavík er ægilegur, og á bænum er á þessu sviði smánarblettur, sem þvo verður af sem fyrst, þ.e. braggarnir. Það er því lítill vandi að benda á verkefni, sem hægt væri að nota lánsfé til að leysa. Varðandi hitt atriðið, að eftirspurnin eftir lánum í Búnaðarbankanum sé mikil, þá er það bein afleiðing af þeirri vaxtapólitík, sem Búnaðarbankinn rekur — að lána út með vöxtum, sem eru 2% og 21/2% — og það þarf því engan að undra, þótt eftirspurnin eftir slíkum lánum sé mikil. Það mætti lengi halda áfram að taka erlend lán og lána hér innanlands, ef bjóða á þau með slíkum kjörum. Þessi vaxtapólitík hlýtur því að þýða skömmtun á lánsfé, og öll skömmtun er erfið, en menn verða að taka því. — Ég vildi í þessu sambandi gjarnan spyrja, hversu mikið af starfsfé Búnaðarbankans er bundið í landbúnaðinum og hversu mikið í öðru. Það verður ekki séð á reikningum Búnaðarbankans, hvernig lánsfénu er skipt, og væri það þó æskilegt. Niðurstaða mín varðandi lántökuna er sú, að hér er um tvo möguleika að ræða: 1) Að nota lánið til greiðslu á erlendum og innlendum kostnaði. Það verður þá að vera sumpart neyzluvörulán, ef lántakan á ekki að hafa nokkur verðbólguáhrif. Ef þetta er ætlun hæstv. ríkisstj., þá er að standa við það og játa það. 2) Ef nota á lánið einungis til greiðslu á erlendum kostnaði, þá verður hér um verðbólguáhrif að ræða, nema gerðar verði sérstakar ráðstafanir til takmörkunar á annarri fjárfestingu innanlands. Ég vil að vísu biðja menn að skilja ekki orð mín svo, að ég álíti, að hér sé um einhver ósköp að ræða, því að þetta er auðvitað ekki mikið fé. En stefnan er í eðli sínu jafnröng fyrir það. Það var að halda á ranga braut, þegar hagnaðinum af gjaldeyriseign bankanna við gengislækkunina var varið til lánveitinga. Og nú á að stíga annað sporið á þessari röngu braut. Ef hæstv. ríkisstj. helzt þetta uppi, getur svo farið, að hún stigi þriðja sporið, — og það spor verði stærst og verst.