15.02.1951
Neðri deild: 69. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (1767)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér áður til umræðu, hafði ég kvatt mér hljóðs út af ummælum hæstv. fjmrh. um ræður, sem ég og hv. þm. Hafnf. fluttum hér áður. Nú í millitíðinni hefur hv. 3. landsk. tekið ýmislegt fram af því, sem ég hefði annars viljað segja, og get ég því þess vegna stytt ræðu mína að mun. Ég hlýt þó að fara nokkrum orðum um ræðu þá, sem hæstv. fjmrh. flutti, þar sem hann svaraði mér og hv. þm. Hafnf.

Hæstv. ráðh. sagði í fyrsta lagi að við og okkar flokkur hefðum verið ósparir á að veita samþykki okkar til að taka erlend lán, t.d. Marshalllánið. Það er rétt, að sú stjórn, sem þá sat að völdum, kom sér saman um að taka lán til vissra framkvæmda. Sú stjórn gerði um leið áætlanir, á hvern hátt bezt væri að ráðstafa þessu fé, sem tekið væri að láni. Sú áætlun, sem þá var gengið frá, náði alllangt fram í tímann, og m.a. var þá komið áleiðis þýðingarmiklum fyrirtækjum, svo sem áburðarverksmiðjunni og fleirum. Varðandi Marshalllánið þá er ólíku saman að jafna og svo hins vegar þessi lántaka. Það er alkunnugt, að Marshalllánið var fengið með mjög góðum kjörum, lágum vöxtum og afborgunarlaust fyrstu árin. Og mér skildist á hæstv. fjmrh., að ríkisstj. hefði enn enga vissu fyrir því, að hægt verði að fá það lán, sem hún leitar eftir. Ég geri þó frekar ráð fyrir, að leitað verði til Stóra-Bretlands í þessu skyni. Maður veit ekki, hvernig það muni ganga, þó að þar hafi fengizt lán vegna þeirra togara, sem þar hafa verið smíðaðir og þá beinlínis fyrir atgöngu skipasmíðastöðvanna, t.d. munu Norðmenn hafa samið um lán í Englandi í sambandi við byggingu verzlunarflota síns, og getur það auðvitað verið góð og gild ástæða, og eins ef nota á lánið til kaupa á togurum eða þvílíkum framleiðslutækjum.

Í öðru lagi sagði hæstv. fjmrh., og það var grunntónninn í ræðu hans, að Alþýðufl. væri andvígur landbúnaðinum og þess vegna andmælti hann þessu frv. Þetta er nú svo ódýr röksemdafærsla, að það tekur vart að svara þessu. — Ég vil þá fyrst benda á. að hv. þm. Hafnf. taldi, að það væri vafasamt að taka þannig lán út í loftið til iðnaðarins, og hið sama á við um lánið til landbúnaðarins, og ég hygg, að enginn geti borið hv. þm. Hafnf. það á brýn, að hann vilji ekki greiða götu iðnaðarins, jafnmikinn áhuga eins og hann hefur sýnt málefnum iðnaðarins — og þó mælir hann gegn þessu frv.

Þá mælti hæstv. ráðh. á þá leið, að það væri sjálfsagt að taka lán til skynsamlegra fyrirtækja. Á þessum ummælum furða ég mig mjög. Ég hafði haldið, að það ætti að stinga fótum við um erlendar lántökur, en nú er talið sjálfsagt að taka lán til allra skynsamlegra fyrirtækja, sem þörf er á. Landið okkar er lítt numið, og við vitum, að við getum ekki stigið öll þau risaskref, sem þarf að stíga, á örstuttum tíma, því að þá mundum við binda myllustein um háls okkar. Við erum lítil þjóð og höfum lítið fjármagn og getum ekki orðið við óskum eða kröfum allra, sem mundu geta rökstutt, að þetta væri þarft eða skynsamlegt fyrirtæki. Hvað eru skynsamleg fyrirtæki? Þau eru víst æðimörg, sem telja mætti upp. Í sambandi við Marshall-áætlunina var talað um þessi stóru fyrirtæki: Sogs- og Laxárvirkjanirnar, síldarverksmiðjur, lýsisherzlustöð, aukinn kaupskipaflota, fiskiðjuver, hraðfrystihús, þurrkví, vélar til landbúnaðarins, vélar til að virkja vatnsaflið, áburðarverksmiðju, sementsverksmiðju, kornmyllu o.s.frv. Þetta eru allt skynsamleg fyrirtæki, og það er ósk allra, að þau komist sem allra fyrst upp, en geta okkar er takmörkuð og við getum ekki fengið allt á skömmum tíma. Ef út á þá braut væri farið að taka lán til allra skynsamlegra framkvæmda, þá yrði það ekki lítið fé. Þörfin fyrir lánsfé í landinu er geysimikil. Ef t.d. nú á að taka erlent lán fyrir stofnlánadeild Búnaðarbankans og annar hluti þess fer til ræktunardeildarinnar, en hinn til húsabyggingardeildarinnar, þá yrði þeim lánum varið til húsabygginga í sveitum. Auðvitað er mikil þörf á húsabyggingum í sveitum, en ég verð að segja það, að það er víðar þörf á húsabyggingum og að sumu leyti ekki minni. meðfram strandlengju landsins. Sé það rétt, að leyfa eigi fjárfestingu 300 íbúða hér í Reykjavík, þá er það einu sinni ekki nóg til þess að Reykjavík geti staðið í stað. Svo ör er heimilafjölgun orðin í Reykjavík, að þetta hrykki vart til að halda í sama horfinu. Það væri því full þörf á að afla fjár til að leggja í íbúðabyggingar bæði í sveit og við sjó. Hvort á nú að taka erlent lán í þessu skyni og er rétt að minnast þess. að lítið var gert að þessu fyrir stríð? Ég hef verið í vafa um þetta af sömu ástæðum og ég hef gagnrýnt þetta frv., — en svo er sagt, að það eigi að taka lán til skynsamlegra fyrirtækja. Það þarf í rauninni ekki að eyða orðum að þessari nýstárlegu kenningu. — Hæstv. fjmrh. segir, að þegar fjárfestingin sé of mikil, geti verið ástæða til að taka lán erlendis og auka með henni fiárfestinguna. Hv. 3. landsk. minntist á þetta atriði, og er ég honum sammála og þarf engu að bæta þar við. — Niðurstaða mín hér er hin sama og var í fyrri ræðu. Þetta er það, sem er varhugavert, og þarf að athuga það gaumgæfilega, eins þegar þetta er til óákveðinna framkvæmda, bæði hvað snertir landbúnaðinn og lánið til iðnaðarins. Þótt annar hluti stofnlánadeildarinnar sé bundinn við ræktun og hinn við húsabyggingar, og síðan 3 millj. kr. lán til iðnaðarins, þá er þetta alveg út í bláinn, — þar sem um óákveðnar framkvæmdir er að ræða. Hér þarf mikla varúð og verður að stinga við fæti. Ég vildi fyrir mitt leyti leggja hæstv. ríkisstj. mitt lið til þess að það væri hægt, ef þess væri kostur, að fá fé innanlands til stofnlánadeildar Búnaðarbankans. — Það er nú svo, eins og hæstv. fjmrh. benti á, að hvorki á innlendum markaði né á lánamarkaðinum erlendis, t.d. í Stóra-Bretlandi, er hægt að fá lán með þeim kjörum, sem stofnlánadeild Búnaðarbankans jafnan lánar með til bændanna. Það verður því, eins og um stofnlánin til verkamannabústaðanna, að hafa það svo, að stofnlánadeildin greiði mismuninn á kostnaði þessara lána, vöxtunum, annars vegar, sem greiðast eiga til stofnlánadeildarinnar frá lántakendum, og hins vegar því, sem borgað er af stofnlánadeildinni fyrir lánin, sem hún tekur til rekstrar síns, eftir lögum og reglum, sem um það gilda. Og þó tekið væri lán innanlands með 6% vöxtum til Búnaðarbankans, þá yrði að standa undir vaxtamismuninum af þeim sjóðum, sem myndazt hafa, stofnsjóðum. Ég vildi ljá hæstv. ríkisstj. mitt lið til þess, að slík lán yrðu tekin innanlands, af því að ég sé mikla þörf á því, þó ég vilji líka benda á, að þörf er á fleiri lánveitingum og þá þar með lántökum innanlands, og kannske ekki minni að mörgu leyti. Því að hvað sem við kemur allri framleiðslu í landinu á vörum, þá er þó kynslóðin, sem er að alast upp á hverjum tíma, sú dýrmætasta eign þjóðfélagsins. Og ef við þurfum að láta ótal ungbörn og unglinga búa við svo léleg húsakynni, að þessi ungmenni fyrir þær sakir glati að einhverju leyti heilsu sinni og fái minni þroska en ella, þá er lán, sem tekið væri til að koma í veg fyrir slíkt eða bæta úr því, sannarlega lán, sem þjóðinni er þörf á að taka. Og hvort sem þessar slæmu íbúðir eru í sveit eða við sjó, er ástæða til að gera alla gangskör að því, sem unnt er, að bæta úr þessum vandræðum. — Ég væri hæstv. ríkisstj. mjög þakklátur, ef hún vildi reyna að afla meira fjár innanlands í þessu skyni, svo að hægt væri að reisa fleiri ódýrar íbúðir, þar sem mest er þörfin fyrir það hér á landi. En að leita til útlanda í því skyni og binda framtíðinni þá bagga, sem með því væri gert, tel ég ekki viturlegt. Og því hef ég komið fram með þessar aths. við frv. það, sem hér liggur fyrir.