16.02.1951
Neðri deild: 70. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð vegna fyrirspurna hv. 2. þm. Reykv. — Um fjárfestingaráætlunina er það að segja, að hún er ekki mjög langt komin, og er ekki búið að gera sér almennilega grein fyrir henni. — Um endurskoðun bankalöggjafarinnar, þá er ekki ástæða fyrir mig að ræða hana, hún er ekki á starfssviði ríkisstj. Á hv. 2. þm. Reykv. að ræða við viðskmn. og senda fyrirspurnina til hennar. — Vil ég ekki lengja þessar umr. með því að tala um þær löngu ræður, sem hér hafa verið fluttar. En ég ætla að segja örfá orð vegna þess misskilnings hjá hv. 2. þm. Reykv., að við viljum stofna til verðbólgu vegna landbúnaðarins, en fara ætti þá leið, sem hann stakk upp á, að láta landbúnaðinn fá fé um Landsbankann. Ekki treysti ég mér til að styðja þessa leið, og þess vegna er ekki að svo stöddu önnur leið en að leita eftir erlendu láni. Hitt er annað mál, að ástandið getur breytzt, svo að hægt verði að fá innlent lán til þessara framkvæmda, án þess að eiga á hættu að auka verðbólguna, ef hægt væri að koma iðnaðarkostnaði í landsskuldabréf. Ég veit ekki, hvort hv. 2. þm. Reykv. meinti alvarlega, að hægt væri að bæta úr þessu með því að auka seðlaútgáfu Landsbankans. Sé ég ekki ástæðu til að ræða það. Finnst mér það fjarstæða og trúi ekki, að hann meini þetta í raun og veru.

Hv. 3. landsk. þm. talaði í gær eða fyrradag um þetta mál. Mun ég ekki svara honum miklu, en aðeins minnast á tvö atriði. Annars vegar sagði hann, að ekki ætti að taka erlend lán. Þetta er hans skoðun. Það fer nú eftir því, hvernig er litið á málið almennt, og getur verið um það deilt, eftir því hversu ástandið er alvarlegt og fjárþörf aðkallandi. Er það skoðunaratriði. En ég vil benda á, að á undanförnum tímum hafa verið samþ. lántökur erlendis og ekki heyrzt raddir frá herbúðum þessa flokks til varnar. Þær raddir, sem nú heyrast úr þeim herbúðum, hljóta því að vekja tortryggni, þegar þær eru á móti erlendum lántökum til landbúnaðarins. Það leikur grunur á, að það sé vegna þess, en ekki af ótta við erlenda lántöku, ekki sízt, þegar þess er gætt, hve 15 millj. kr. er lítil fjárhæð miðað við þau stórkostlegu lán, sem hafa verið tekin til annarra framkvæmda. Þetta er hreinasti hégómi og furðulegt, að það skuli heyrast nokkur rödd til að andmæla því. — Sannleikurinn er sá, að hér er aðeins ætlað að leysa til bráðabirgða sárustu þörf landbúnaðarins fyrir aukið lánsfé, en það þyrfti á næstu árum að afla þeim atvinnuvegi marga tugi milljóna króna í nýju lánsfé. Það er augljóst af þeim gögnum, sem fyrir liggja, að þetta muni þurfa. Þess vegna getur vel svo farið, að við verðum á næstu árum að taka meira lán erlendis en þetta handa okkar landbúnaði, og ég væri ekkert hræddur við að nefna í því sambandi hærri tölur en hér er talað um. Það er sannfæring mín, að við getum ekki varið þeim peningum betur en til að efla landbúnaðinn. Ég held, að það verði íslenzku þjóðinni sízt af öllu að fótakefli, þó að hún taki nokkurra millj. kr. lán til landbúnaðarins. Hann mun skila því aftur, bæði beint með því að framleiða vörur, sem seljanlegar eru fyrir erlendan gjaldeyri, og óbeint með því að framleiða nauðsynjavörur, sem þjóðin annars þyrfti að kaupa. Ég held, að það bezta, sem við getum gert við peningana, sé að leggja þá í ræktun landsins til að bæta það og auka framleiðsluna. Mér finnst þess vegna bæði sorglegt og gremjulegt að heyra þennan söng í sambandi við þessa lítilfjörlegu lántöku, sem fyrirhuguð er handa landbúnaðinum. Þegar talað er um að bera saman, hvað gert hefur verið fyrir aðrar atvinnugreinar og að rannsaka þurfi lánsfjörþörf landbúnaðarins áður en þessi voðalega ákvörðun er tekin, að verja 45 millj. kr. til landbúnaðarins, þá hljómar það broslega í mín eyru, þegar ég hugsa um, að á undanförnum árum hafa verið samþ. lántökur fyrir aðrar atvinnugreinar, sem nema hundruð millj. króna, og það hefur ekki verið í hvert skipti talað um, að rannsaka þyrfti lánsfjárþörf þeirra.

Þá eru örfá orð út af því, sem hv. 3. landsk. þm. sagði um verðbólguna. Ég held, að hann hafi misskilið mig nokkuð. Mér fannst hann telja, að ég hefði sagt, að fjárfesting gæti aukizt frá því, sem var í fyrra, ef erlent lán fengist. Þetta voru ekki mín orð. Ég sagði, að fjárfesting gæti orðið meiri en ella, ef þetta erlenda fé kæmi inn. Við höfum ekki annað til að standa undir okkar fjárfestingu en sparnað og þetta erlenda fé, og ég held, að fjárfestingin í heild verði að vera minni en í fyrra, en ef okkur tækist að útvega þessar 15 millj., gæti hún orðið meiri en ella. Allar raddir um, að það geti orðið verðbólguaukning, ef þessar 15 millj. eru teknar til láns erlendis og notaðar til nýrra framkvæmda, virðast mér vera út í bláinn. Mér finnst það ekki á neinn hátt geta orðið til að auka verðbólguna, því vitanlega mundi verða farið þannig að, ef þetta fé væri ekki allt notað til að greiða erlendan gjaldeyri, þá mundi verða gert ráð fyrir því, þegar fjárfestingaráætlunin er sett upp. Auk þess er þess að vænta, að þetta fé verði lánað út eftir reglum ræktunarsjóðs, og þá efast ég um, að nokkurn tíma sé lánað meira en sem svarar erlenda efninu, sem gengur til hverrar framkvæmdar um sig, þegar allt er tekið til athugunar. Þetta mundi því í reyndinni svara til hins erlenda hluta þeirrar framkvæmdar, sem um væri að gera, og þá mundi ekki koma til mála, að þetta væri verðbólguaukandi vegna þess, að það yrðu íslenzkir peningar, sem kæmu til viðbótar, og þá yrði dregið úr öðrum fjárfestingum sem svaraði þeim hluta. Þetta yrði tekið inn í fjárfestingaráætlunina í heild sinni. Þess vegna eru allar þessar bollaleggingar í sambandi við þetta 45 millj. kr. lán heldur broslegar, hvernig sem á þetta er litið. Það er einmitt þannig að þessu farið, að það þurfi ekki að valda verðbólgu, þó að sinnt sé sárustu þörf landbúnaðarins.

Svo vil ég aðeins minnast á ummæli hv. 8. landsk. þm. Hann sagði, að ég hefði sagt, að það ætti að taka lán erlendis til allra skynsamlegra framkvæmda. Eins og þessi hv. þm. lagði út af orðum mínum, þá var það byggt á misskilningi. Ég sagði, að Íslendingar gætu ekki komizt hjá að taka erlend lán til ýmissa fyrirtækja, sem þeir þurfa að koma í framkvæmd. Þetta er mín skoðun, ég álít það hreina fjarstæðu, að við getum byggt okkar fyrirtæki upp án þess að taka erlend lán. Við höfum reynslu af þessu, og það hefur gefizt okkur vel. Þar með er alls ekki sagt, að við verðum að taka lán til allra fyrirtækja okkar, því fer vitanlega alls fjarri. Við verðum að gera eins mikið af skynsamlegum, nauðsynlegum framkvæmdum fyrir okkar fé og við getum, en til viðbótar verðum við að fá talsvert mikið af erlendu fé.

Að lokum vil ég minnast á það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. Hann sagðist sakna þess, að þessir hlutir væru lítið „planaðir“ eða lítil yfirsýn yfir þá. Hér væri farið fram á að taka lán vegna landbúnaðarins, en ekki um leið til að taka stærri lán til að koma upp fyrirtækjum, sem staðið gætu undir lánum landbúnaðarins. Ég vil benda þessum hv. þm. á, að við höfum nú í takinu 3 stórfyrirtæki, sem kosta samtals 300 millj. kr., en það eru Sogsvirkjunin, Laxárvirkjunin og áburðarverksmiðjan. Það er því ekki yfir því að kvarta, að þessi litla lántaka til landbúnaðarins sé sú eina framkvæmd, sem við Íslendingar höfum nú á prjónunum. Því fer alls fjarri. Við höfum fangið fullt af verkefnum, og við verðum að taka mikið lán erlendis til að halda áfram með þessi stóru fyrirtæki, og við ráðum ekki við meira á næstunni fyrir utan margar smærri framkvæmdir, sem við þurfum að sinna. Ég vil leyfa mér að benda þessum hv. þm. á þetta. Hann þarf því ekki að undrast, þó að ekki sé komið með í viðbót ný, stór „plön“ upp á hundruð milljóna kr. til nýrra, stórra framkvæmda af öðrum toga. Þetta er aðeins einn lítill liður í þeirri framkvæmdakeðju, sem við erum nú með milli handanna, og mætti nefna fleira í því sambandi en þetta þrennt, t.d. togarana nýju, — það er áður búið að samþykkja stórfelldar lántökur til hinna fyrirtækjanna, og hér er verið að samþykkja lántökur til togaranna. Sum þessi fyrirtæki eiga að vera gjaldeyrisgefandi, en önnur gjaldeyrissparandi.